Færsluflokkur: Dægurmál
Fór allt í einu að hugsa um brúðkaup í gær, eða reyndar ekkert allt í einu, ég var að horfa á bíómynd sem fjallaði um brúðkaup og hugur minn fór að reika. Ég fór þó ekkert endilega að hugsa um mitt eigið brúðkaup enda geri ég ekki ráð fyrir því í náinni framtíð. Tel mig þó vera fyllilega tilbúna þegar rétti maðurinn finnur mig...
Ég leiddi hugann að þeim brúðkaupum sem ég hefið farið í. Þrisvar á lífsleiðinni hefur mér hlotnast sá heiður að fylgjast með giftingarathöfn í kirkju og í þau þrjú skipti hef ég grenjað, tárást og snökt og reynt af mikilli leikni að fela það. Það er svo mikil klisja að grenja í brúðkaupum. Ég er reyndar ákáflega dramatísk og tilfinningarík manneskja svo það sæmir mér líklega vel að hágrenja við slíkar athafnir..
Fyrst var það brúðkaup foreldra minna, þá var ég 6 ára. Grátur minn á þeim tíma orsakaðist þó klárlega ekki af fegurð athafnarinnar eða almennri tilfinninganæmi minni í garð kirkjubrúðkaupa. Ég held að enginn hafi vitað afhverju ég skældi, hvað þá ég sjálf. Ég tek það samt fram að ég orgaði ekki eins og frekur krakki heldur sat ég bara með fýlusvip og snökti. Mér fannst ég líklega bara eitthvað afskipt og útundan enda var litlu systur minni líka gefið nafn á sama tíma. Ég var því sú eina í kjarnafjölskyldunni sem ekki fékk að vera með athöfninni... enginn þörf fyrir brúðarmeyjar á þeim bænum... Ég sat því bara í nýju svörtu lakkskónum mínum, með stóra hárborða, nagaði á mér hárið og snökti...
Svo var það brúðkaup vinafólks, sameiginlegs vinafólks míns og fyrrverandi kærasta. Við höfðum einmitt hætt saman nokkrum vikum fyrir brúðkaupið eftir tæpt 4 ára samband... En mættum þangað saman samt sem áður. Það varð alveg óstöðvandi táraflóðið á þeirri samkundu. Mér fannst alveg óskaplega sorglegt og táraaukandi hvað það væru mörg ár í að ég myndi upplifa svona fallegt lítið brúðkaup.... Væli, væli, væl...
Þriðja og síðasta var brúðkaup föður míns og annarar konunnar hans(þetta fyrsta entist semsagt ekki að eilífu), það var síðasta sumar. Daginn fyrir þá athöfn hætti ég einmitt með öðrum kærasta, reyndar ekki til langs tíma, en var þó búin að vera í karlmannsvandræðum og dramtík allt það árið svo ég var afar viðkæm og með mikið af innbyrgðum tilfinningum kraumandi og bullandi sem voru alveg tilbúnar að flæða út um augun á mér við minnsta áreiti. Sem þær og gerðu... Um leið og presturinn byrjaða að tala var ég farin að snökta... ég tala nú ekki um þegar söngkonan hóf raustina: Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag.. og syndaflóðið hófst. Að vísu fannst mér pínu skrýtið að sjá pabba minn gifta sig... en það er önnur saga...
Á þessari upptalningu má sjá að í þessi þrjú skipti þá var ég veik fyrir... Grenjið í mér stafaði ekki eingöngu af viðkvæmni minni gagnvart brúðkaupum heldur spiluðu aðrir þættir inn í ferlið. Fyrst var ég að díla við nýtilkomna systir og breytingar í fjölskyldunni og í hin skiptin var ég að þjást í minni eigin ástarsorg. Ohhh vesalings ég hvað ég á alltaf bágt...
Ahhh hvað ég er fegin að vera í góðu jafnvægi núna, alveg laus við alla dramatík og vesen. Ég á ekki mörg svoleiðis tímabil að baki. Nú er bara að njóta þess!
Dægurmál | 21.3.2007 | 23:25 (breytt 22.3.2007 kl. 03:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það dónalegasta sem ég veit er þegar fólk talar í símann meðan verið er að afgreiða það og lætur í þokkabót þannig afgreiðslufólkið sem er að þjónusta það sé að valda gífurlegri truflun! Sussar og allt, setur fingurinn á munninn! Fólk sem sjálfviljugt kemur inn í verlsun eða til hverskyns þjónustuaðila og óskar eftir þjónustu eða afgreiðslu getur að lágmarki sýnt þá kurteisi að gefa sér tíma í að koma því til skila hvað það óskar eftir.
Mér td, sem þjónustufulltrúa á ekki að þurfa að líða eins og ég sé að valda einhverjum varanlegum skaða eða alvarlegri truflun þegar ég spyr viðskiptavin, sem valdi að koma til mín á þeirri ákveðnu stund, hvaða þjónustu hann vilji. Eða þegar ég tilkynni honum hvað hann þarf að greiða háa upphæð fyrir vöruna sem hann vantaði á nákvæmlega þeim tíma.
ÉG ER EKKI AÐ TRUFLA!
Nú ef mjög mikilvægt símtal kæmi hugsanlega upp meðan viðskiptavinur er nákvæmlega staddur í afgreiðslu þá er ekkert sjálfsagðara að en að hann svari í símann... Bara sýna smá kurteisi, biðjast afsökunar þá eru allir glaðir
Treystið mér, afgreiðslufólki langar ekkert til að skella einhverju fríu með, gefa afslátt eða vera hresst og fullt af þjónustulund þegar það er hreytt í það ónotum eða sussað á það með fingrinum. Treystið mér, treystið.... ég veit...
Kurteist fólk minnir mann alltaf það hvað mannfólkið getur verið indælt. Hvað manni líður miklu betur að vera kurteis. Maður sér oft hvað þreytt afgreiðslufólk í verslunum verður þakklátt þegar maður er kurteis og kemur fram eins og það sé í raun og veru lifandi mannverur ekki bara einhver vélmenni sem skanna verð inn í kassa...
Kurteisi, eitthvað fyrir alla!
Dægurmál | 21.3.2007 | 01:19 (breytt kl. 01:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ungur maður sagði við mig á árshátíð Símans að ég væri eins og ævintýraprinsessa! Ég sármóðgaðist, sagði honum að eiga sig og strunsaði burt! Þó að ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að í bleikum síðkjól væri ég meira sæt og saklaus heldur en svöl og sexý þá þótti mér þetta óþarfa komment og langaði ekkert að vera spurð hvar dvergarnir 7 væru... eða hvort ég þyrfti ekki að fara að drífa mig heim, því klukkan nálgaðist miðnætti... ég varð því bitur um stund...
þarna er ég að vera bitur um stund... og Freyja að setti upp stút...
En svo varð allt gott aftur og við fórum að dansa, ég í bleika síðkjólnum sem þvældist um allt og á endanum reif ég neðan af honum lufsið sem allir voru búnir að troða á og tæta í sundur... kjólinn þarf semsagt að falda upp á nýtt fyrir næstu mannamót.
Karlmenn höfðu afskaplega mikla þörf fyrir að taka mig upp, veit ekki hvort það var kjóllinn... ævintýri eitthvað... prinsessur...
fyrst var það Ari....
Svo Steini, honum gekk ekki jafn vel... og ég endaði á hvolfi... af því náðist því miður ekki mynd
Ævintýri bleika síðkjólsins enduðu í miðbæ Reykjavíkur þegar kápunni minni var stolið á Barnum. (Rosa góð pæling að fara í kjólnum í bæinn) Ég strunsaði því út af Barnum og niður allan Laugaveginn á kjólnum einum fata með litla samkvæmisveskið mitt. Fólk vék úr vegi mínum, ekki skrýtið... hugsa að ég hafi komið ansi undarlega fyrir sjónir í þessari múnderingu í slyddunni um hávetur í Reykjavík... Þarna vantaði bara að ég tapaði glerskónum...
Dægurmál | 15.3.2007 | 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Myndir! Ákvað að anna mikilli eftirspurn eftir myndum, fyrsta mappan komin inn hérna vinstra megin, frá Árshátíð Símans sem var heljarinnar samkunda. Á þessum myndum má sjá að við í Kringlunni erum frekar sjálfhverf enda eru myndirnar nánast eingöngu af okkur! Fallegt fólk þar á ferð. Hinir 1290 sem voru staddir þarna með okkur, sjást hvergi...
Ég læt myndirnar tala sínu máli...
Dægurmál | 12.3.2007 | 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jæja þá er það klappað og klárt, borgað og skráð að ég er að fara til Kína 7. júlí næstkomandi. Þar ætla ég að nema kínversku við háskólann í Ningbo ásamt eðalskvísunum Freyju og Eyrúnu. Þetta er mánaðaprógramm og hljómar afar spennandi
Ég er svo spennt að ég er að tapa áttum yfir þessari gífurlega flippuðu ákvörðun minni! Ég er ekki þekkt fyrir mikið ferðaflipp enda hef ég hingað til bara farið erlendis til að flatmaga á sólarströnd og versla mér föt. Þetta verður töluvert öðruvísi pakki og ég er afar fegin að hafa tvær veraldarvanar konur mér við hlið.
á morgun eru bara 4 mánuðir upp á dag í brottför! Ííííííík hvernig á ég að geta beðið??!
Hér má sjá okkur tilvonandi Kínafara á góðri stundu, takið sérstaklega eftir góðum svip af minni hálfu...
Dægurmál | 6.3.2007 | 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skelli inn helgarbloggi í tilefni þess að ný helgi er að skella á!
Ákaflega fín helgi að baki, heilsufarslega var hún reyndar mjög átakanleg enda er ég núna raddlaus og búin að vera það síðustu 3 daga. Þá er ég líka langt komin með heilan regnskóg af snýtipappír.
Föstudagurinn fór í að reyna að koma mér til heilsu með öllum mögulegum ráðum, inntöku ýmissa verkjalyfja og notkun óhóflega mikils Nezerils. Þannig tókst mér að koma mér af stað á árshátíð Politicu... koma mér af stað segi ég því ekki gekk það eins og í neinni sögu. Fyrst var planið að ég yrði pikkuð upp en þá týndust bíllyklar í Hafnarfirði... plan b var svo að ég pikkaði upp. Lagði af stað í góðu grúvi í Breiðholtið á háannatíma, ég var samt í svo miklu grúvi að ég tók varla eftir háannatímanum fyrr en bíllinn minn fór að haga sér undarlega... allt einu fór miðstöðin að blása á mig köldu, snúningshraðamælirinn snérist of hratt, rafgeymaljósið kom í mælaborðið og hitinn á vélinni rauk upp úr öllu valdi. Hringdi ég því í snarhasti í karlinn föður minn sem sjúkdómsgreindi þetta sem slitna viftureim og að ég skyldi stöðva bílinn á nóinu. Nóið var ekki í boði því ég var í miðju umferðaröngþveiti. Varð ég því að biðja og vona að bíllinn myndi ekki bræða úr sér á næstu mínútunum. Sem betur ferð náði ég að drösla bílnum með sjóðandi vélina á eitthvað plan í Breiðholtinu og labbaði þaðan til Freyju og Eddu sem ég ætlaði að vera svo indæl að pikka upp! Sem betur fer eru þær frekar yfirvegaðar stúlkur og héldu því bara áfram þrátt fyrir þessar raunir og verulega seinkun.
Árshátíðin hófst á fordrykk í LÍÚ, við heyrðum reyndar ekki mikið af því sem fór fram í þeirri kynningu enda seinar á ferð og átti ölið hug okkar allan. Við ræddum því bara örlítíð um botvörpuveiðar og átum rækjur til að vera með. Svo var það kaffi Reykjavík, byrjuðum á Ísbarnum, frekar svalt.... Og svo var bara étið, drukkið og dansað við 90s tónlist langt fram á nótt. Ég fór heim raddlaus og ískrandi eftir að hafa fundið og kynnst stjúpbróður mínum.
Laugardagurinn var jafnraddlaus og föstudagskvöldið en þá var stelpuhittingur í Baðhúsinu, dekur og slökun, ekkert púl, svo það sé á hreinu! Ein fékk nýrnasteina, ein kom með váleg tíðindi að heiman og svo flæddi úr uppþvottavél niður í íbúðina hjá einni... Þrátt fyrir þetta þá tókst okkur öllum að hittast og eta saman um kvöldið, meira segja þessi sem fékk nýrnasteinana mætti. Hún skolaði þeim bara út af æsingi yfir því að komast ekki á löngufyrirframplanaða djammið, sem var hennar fyrsta í eitt og hálft ár... já það gerist þegar fólk fer að fjölga sér....
Svo var það bara Júróvisjón og læti, mikil læti og svo Júróvisjón á Nasa og enn meiri læti og meira 90s. Djöfull var þetta gaman.
Dægurmál | 22.2.2007 | 20:23 (breytt kl. 20:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í gær var Valentínusardagurinn og allt gott og blessað með það! Eftir að hafa verið kæfð, kaffærð og drekkt í auglýsingum um krúttlega bangsa, blómvendi og hjartalaga konfektöskjur þá skundaði ég gremju minni og biturð, þrælkvefuð með fullan hausinn af hori niður í konfektbúð. Þar sérvaldi ég mér, af mikilli kostgæfni, 10 mola af unaðslega góðu og silkimjúku belgísku konfekti. Afgreiðslukonan setti molana snyrtilega í fallega gjafaöskju og spurði hvort ég vildi skrautborða utan um hana. Ég gleymdi mér yfir glitrandi og marglitum borðum en rak augun svo í spjald þar sem stóð að rukkað væri sérsaklega fyrir skrautborða... Hugsaði í skyndi að það væri nú óþarfi að spreða í borða fyrst ég ætlaði bara að gúffa þessu öllu í mig sjálf. Sagði því við afgreiðsludömuna með ástfangið bros á vör: nei veistu, ég held ég eigi borða heima, ég föndra bara eitthvað sætt, það er miklu persónlegra... HALLÓ! Sólrún... Fannst ég eitthvað lúkka illa og ódýr eitthvað yfir því að tíma ekki að kaupa borða handa "elskunni" minni á degi elskenda, svo ég laug þessu kjaftæði upp í opið geðið á henni og fór svo flissandi út úr búðinni yfir vitleysunni í mér...
Kvöldið var eðalfínt, skellti mér með eðaldömunum Eyrúnu og Freyju á Vegamót og borðaði þar eðalfínan mat. Fórum svo heim með góða ræmu í tilefni dagsins og gúffuðum í okkur dýrindis konfekti. Þetta var sko alveg eðal, held ég hafi aldrei átt betri valentínusardag
Dægurmál | 15.2.2007 | 21:38 (breytt kl. 21:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
í Kvöld sigraði Röskva kosningar til stúdnetaráðs í Háskóla Íslands! Fylkgingarnar, Röskva og Vaka, felldu út mann H-listans og Röskva náði 5 mönnum inn í Stúdentaráð. Það er sögulegur sigur og þakið ætlaði að rifna af kosningaskrifstofu Röskvu þegar úrslitin voru kunngjörð. Það var dansað, það var grátið, fólk féll í faðma, fólk féll í trans! við sigruðum!!! Við fokking sigruðum, loksins! Eftir að hafa saxað á forystu Vöku í nokkur ár, þá tókst okkur, á málefnalegum fosendum að fella þau! Við erum sterkari! Hópurinn okkar er öflugri og við munum sanna okkur á komandi starfsári! Ég er stolt að því að vera hluti af heildinni
ÁFRAM RÖSKVA!!!
Dægurmál | 9.2.2007 | 05:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er afskapalega áköf manneskja, ég vil að hlutirnir gerist strax og vil hafa þá eins og mér hentar. Ég reyni og reyni og lifi í þeirri sjálfsblekkingu að ég sé að ná tilskildum árangri og að allt stefni í að ég nái markmiðum mínum. Ég gefst ekki auðveldlega upp. Það veldur því að stundum er ég stanslaust að berja hausnum í sama vegginn aftur og aftur. Ég skal, ég skal, ÉG SKAL! BAMM, BAMM, BAMM!
Hjá mér eru þó ákveðin mörk, uppgjafarmörk.... ef hlutirnir ganga ekki upp og verða eins og ég vil hafa þá eftir ákveðin tíma, þá gefst ég upp. Þessi uppgjafarákvörðun er rosalega erfið og er yfirleitt ekki tekin nema ég telji að geðheilsa mín sé í mikilli hættu. Jafnvel líkamleg heilsa líka ef því er að skipta. Þegar ég verð nógu stressuð og upptekin af því að ná markmiðum mínum þá fer líkaminn minn í einhverskonar afneitunarástand. Hann afneitar ákveðnum tilfinningum eins og hungri og þreytu, líklega til að ég geti nýtt allan minn tíma í að vera upptekin af því sem liggur mest á mér þá stundina. Ég get farið í gegnum heilu vikurnar á nokkrum brauðskorpum, lítilli jógúrt og 3 tíma svefni á hverri nóttu án þess að finna eitthvað sérstaklega fyrir því. Það er ekki fyrr en ástandinu sleppir að ég finn að maginn í mér er farinn að melta sjálfan sig af hungri og að augun eru sokkin inn í hausinn á mér af þreytu.
Uppgjöfin er því oft kærkomin, stundum mætti jafnvel kalla hana sigur! Það vill svo til nefnilega að oft er ég að stefna að einhverju sem hvorki er mér hollt né öðrum í kringum mig. Einhverju sem er svo vonlaust að markmiðið er í meiri fjarlæð en sólin.
Yfirleitt líður mér vel eftir að hafa tekið ákvörðun um uppgjöf. Það er alltaf ákveðin lokun á einhverjum kafla og upphaf á nýjum. Svona eftir á að hyggja þá er líf mitt ofboðslega kaflaskipt, jafnvel meira eins og margar litlar smásögur... en kannski erum við öll þannig...? Ég er alltaf að gefast upp á veseninu og vitleysunni í sjálfri mér. Loka köflum opna nýja. Ljúka sögu, hefja nýja. Þetta kannski lagast með aldrinum, kannski að líf mitt verði einhverntíma samfelld saga...
Dægurmál | 6.2.2007 | 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dægurmál | 1.2.2007 | 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)