Færsluflokkur: Dægurmál

Páll Magnússon er flottur fyr

Ég fíla Pál Magnússon, hann var ákaflega svalur og hress í fyrirlestri sínum í morgun. Hann var reyndar ekki með bindi og skyggði það eilítið á framkomu hans og fas. Hann er svo traustvekjandi með góðan windsor.

Hann var mjög málefnalegur og kom inn á marga fína punkta varðandi eignarhald á fjölmiðlum og hvernig best er að reka ríkisrekin fjölmiðil á borð við RÚV. Maðurinn er hokinn af reynslu í bransanum og ætti því að vita hvað hann er að tala um.

Gaman að því líka hvernig hann kom inn á það mál að stjórnmálamenn sem lenda í útreið fjölmiðla, yfirleitt af réttmætri ástæðu, halda oftast að fjölmiðlar séu í samsæri gegn sér, jafnvel að helstu áhrifamenn í bransanum hittist reglulega á morgunfundum, mauli kleinur og plotti hvernig og hvern þeir taki fyrir næst. Páll fullyrðir að svona virki bransinn ekki. Hann lumaði meira að segja á einni stórkostlega góðri sögu um þetta mál en bað okkur samt um að vera ekkert sérstaklega að hafa hana eftir sér.... Svo ég mun ekki birta hana hér. Ef þið eruð spennt þá gæti ég samt kannski tekið hana maður á mann í góðu geimi.

Hannes var að sjálfsögðu í essinu sínu en var þó sammála Páli í mörgu. Þetta var hinn skemmtilegasti tími og ég bíð spennt eftir næsta fyrirlesara.


Dyravarðadjöfull dauðans

Dyraverðir hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, enda flestir misvel gefnir stórir karlmenn með mikilmennsku og valdníðslubrjálæði. Þá ber að athuga að ég segi flestir! Það eru alveg til indælir nettir og krúttlegir dyraverðir sem verða eins og leir í höndunum á manni ef maður blikkar augunum ótt og títt og reynir að vera sætur.

Eftir afar slæma dyravarðareynslu af Óliver snemma í haust varð ég fráhverf bæjarferðum og skemmtanalífi um nokkrun tíma og hét því fyrir mitt litla líf að aldrei svo mikið sem líta í átt að Óliver á ferðum mínum um miðbæ Reykjavíkur. Mér hefur þó aðeins runnið reiðin og hef álpast þar inn í góðra vina hópi.

Á mínum mjög svo viðburðarríka og töluvert langa djamm- og hrakningarferli þá hef ég þó ekki lent í öðrum eins ryskingum er áttu sér stað eina kalda nótt fyrir utan Vegamót fyrr í þessum mánuði. Þar beið ég í röð, ásamt fríðu föruneyti góðra félaga, frekar yfirveguð og róleg eftir átakanlegt kvöld. Við biðum og biðum frosin í sömu sporunum meðan allt mikilvæga fólkið í VIP röðinni fyllti staðinn. Loks með tíð og tíma kombþó að því að við stóðum fremst... Mikilvæga fólkið flest komið inn og búið að drekka frá sér allt vit og rænu meðan áfengið í okkar blóði hafði nýst sem orkugjafi í kuldanum og var því að verða uppurið. Almennur pirringur því alveg að fara að gera vart við sig...

Þegar VIP röðin virtist loks ætla að taka enda sáum við vonarneista, kannski við kæmust fljótlega inn! Neistinn slokknaði snögglega þegar fótboltatvíburarnir; Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir birtust með herskara af mjög mikilvægu fólki í eftirdragi... Innkoma okkar á Vegamót þyrfti líklega að bíða um stund. Ég fór því að dunda mér við að fikta í dyrarvarðarkeðjunni sem notuð var í að halda okkur, almenningnum frá svæðinu, og úpps! Skyndilega losnaði keðjan og skall í jörðina.

Sjtt fokk sjtt! Dyrarvörðurinn var ekki hress! Hann var svo fáránlega óhress að hann eiginlega bara trylltist og gleymdi alveg að hleypa tvíburunum og félögum þeirra inn. Í staðinn tók hann mig upp eins og lítinn krakka á róló og sagði að: HINGAÐ FÆRI ÉG SKO ALDREI INN! Þá fyrst tryllist ég líka, enda búin að hanga þarna á þrautseigjunni í klukkutíma eða svo, spriklaði af öllum kröftum í þeirri von að reyna að losa mig úr klóm þessa valdníðslu skúnks og náði þannig að flækja mig í blessaðri keðjunni sem olli þessum skrípaleik.

Þarna var ég komin á það stig að ég var alveg að tapa kúlinu, spriklandi af æsingi og hræðslu því að helvítis dyravarðaskúnkurinn var bókstaflega að reyna að kasta mér í götuna.. sem gekk reyndar illa því ég var flækt í keðjunni en tárin í augunum mínum voru ekki langt undan... Ég var að brotna þegar stjörnulögfræðingurinn og hetjan mín á þessari stundu, Vilhjálmur Vilhjálmsson kom aðvífandi úr herskara tvíburanna í mikilvægu röðinni og spurði dyravörðinn yfirvegað hvort hann væri virkilega að leggja hendur á kvenfólk og hvort við ættum nú ekki bara að vera róleg! Dyravarðadjöflinum brá töluvert við þessa afskiptasemi lögfræðingsins og ekki leið á löngu þar til ég hafði fast land undir fótum á ný. Hetjan mín veitti dyraverðinum örlítið tiltal og ég kastaði á hann nokkrum vel völdum og hótaði að verða mér út um áverkavottorð ef hann yrði ekki stilltur! Því næst skunduðum við inn á Vegamót í fylgd fótboltamanna, fyrirsæta og stjörnulögfræðinga. 

Að fara inn á staðinn var eingöngu til þess að ergja dyravörðinn, enda höfðum við ekki minnstu löngun í hanga þarna inni eftir allan þenna sirkus. Sátum því inni í korter og fórum svo út og fundum okkur bara gott almúgapartý þar sem við vorum velkomin. 


Morgunhæna

Ég hef aldrei verið morgunhæna. Að vakna fyrir hádegi er oftast dauði og djöfull fyrir mér og til að geta komist fram úr á skikkanlegum tíma, í vinnu og skóla, þá þarf ég að stilla vekjaraklukkuna klukkutíma fyrir áætlaða fótaferð. Ég verð að snúsa! Ég get ekki farið að fætur nema eftir að minnsta kosti hálftíma snús! Það er bara ekki að ræða það! Þegar kemur að vöknun er ég bara F manneskja og hef alltaf verið...

Þangað til núna nýverið... Nú er ég farin að mæta í skólann klukkan átta tuttugu að minnsta kosti þrisvar í viku og til þess að það gerist stilli ég vekjaraklukkuna á sjö núll núll.... og drullast fram úr um hálf átta... Það merkilega við þetta allt saman að ég actually fer á fætur! Ég er að drepast úr þreytu og samankrumpuðum augum á hverjum einasta morgni en ég skal á fætur og það tekst! Þetta er bara eitthvað sem á allri minni morgunskólagöngu hefur verið mér lífsins ómögulegt.

Ég skil bara ekki hvaðan þessi ofurfídonskraftur kemur allt í einu! Hann hefði alveg mátt koma yfir mig aðeins fyrr. Það hefði verið voða fínt.

Það gæti átt stóran þátt í þessu morgun F-i mínu að ég er mikil nátthrefna(og já ég veit að hrefna er ekki karkyns hrafn) finnst bara svo gaman að tala svona í kvenkyniTounge Ég á það til að dröslast og vesenast í einhverjum mismikilvægum verkefnum langt fram eftir nóttu þrátt fyrir grútsyfju og almenna myglun.

Ég er ennþá í þessu næturbrölti en vakna samt af krafti á morgnanna sem gerir það að verkum að líklega er ég ekki að fá nægan svefn... Staðan er samt orðin þannig að ég er farin að vakna um hádegisbil um helgar til að setja í þvottavél og eitthvað álíka undarlegt... Kannski að svefnþörf mín hafi minnkað til muna á nýju ári...? Það væri alveg ágætt, það lengir sólarhringinn og það er kosturSmile

 


Stjórnarandstaðan *flissi, fliss*

Jæja nú var ég að koma hjá tíma hjá Hannesi Hólmstein, Málstofu um fjölmiðla og stjórnmál. Kúrsinn virkar afar spennandi, enda nýr fyrirlesari í hverjum tíma.

Í dag var það Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.

Þarna vorum við saman komin; ég, Hannes, Björn og samnemendur mínir í alltof lítilli stofu í Lögbergi að ræða fjölmiðla og stjórnmál. Ég sat fremst og nánast alveg ofan í Birni og Hannesi, ég gat séð á þeim nasahárin... En allt í lagi með það... Það var að sjálfsögðu rætt um fjölmiðlafrumvarp, um að færa blaðamennsku á Íslandi meira til hægri, því ef hún héldi áfram að færast meira til vinstri þá færi hún bara yfir brúnina og myndi þannig deyja! þá var rætt um að það vantaði nú gott borgarlegt hægrisinnað blað og fleira í þeim dúr... Allt gott og blessað.

Hannes og Björn að sjálfsögðu miklir félagar og flokksbræður skutu bröndurum hvor á annan hægri vinstri, aðallega hægri og hlógu svo dátt. Rifjuðu upp ólöglega útvarpsstöðvarflippið og ýmislegt fleira. Þá komu þeir ítrekað að kommentum um stjórnarandstöðuna, flissuðu mikið yfir því og glottu. Þetta var eiginlega á tímabili orðið kjánalegt, eða mér leið allavega eins og kjána. Flestir aðrir í stofunni engdust hinsvegar sundur og saman af hlátri yfir óborganlegum húmor og gamansemi félaganna. Skyndilega laust því að mér að líklega væri ég eina manneskjan þarna inni sem ekki hefði kosið sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum.

Þarna stóðu þessir tveir ágætu menn og flissuðu eins og amerískar smástelpur yfir málum eins og tímabundinnar ráðningar Hrafns Gunnlaugssonar sem Útvarpsstjóra, rausinu yfir fjölmiðlafrumvarpinu, neitunarvaldi forseta, Stóra hlerunarmálinu. (Fólk sem sagðist vera hlerað hafði hvort eð er ekkert að segja, afhverju ætti að eyða peningum í að hlera það, hahahahaha, góður, búmm, búmm, búmm). Að ógleymdu Baugsmálinu *flissi, flissi, fliss*

Páll Magnússon er næsti fyrirlesari og ég vona að mér líði betur í þeim tíma. Hann er alltaf með svo traustan og góðan bindishnút. Þannig menn kunna sig!


Í göngutúr með skeinipappír

Það er á mörkum kjánaleikans að labba með 12 tveggja laga dúnmjúkar salernisrúllur í umbúðum sérmerktum ellefu-ellefu eftir Snorrabrautinni....

Mér fannst eitthvað kjánalegt að keyra út í búðina hinumegin við hornið eftir skeinipappír svo ég ákvað að dúða mig upp og ganga eftir birgðunum. Áttaði mig svo á því að það er enn kjánalegra að rölta með pappírinn um miðbæinn.


Góðir vinir eru gulli betri

Gleðin staldraði ekki lengi við hjarta mínu... Ég er jafnsorgmædd og döpur núna og ég var glöð og hamingjusöm í síðustu viku.

Það þarf ekki nema einn hlut, ein stoð í lífinu að bresta og þá hrynur allt, allt sem mér fannst gefa lífinu gildi og gerði mig hamingjusama hvarf eins og dögg fyrir sólu. Það er engin gleði lengur, ég sit bara ráðvillt og einmana með spurningar á borð við; hversvegna, hvað ef, afhverju, hvernig.... Með nístandi sársauka og tómleika í hjartanu og lækning virðist órafjarri.

Svona líður mér núna, það getur enginn sagt mér að hætta þessari sjálfsvorkunn og aumingjaskap og bent mér á að margir hafi það mun verra en ég. Þetta eru mínar tilfinningar og fyrir mér eru þær hindrun sem ég get ekki yfirstigið í augnablikinu. Svo stór hindrun að frekar en að reyna að finna leið til að komast yfir hana þá sit ég fyrir framan hana og velti því fyrir mér hvernig ég geti farið til baka. Hvernig ég geti snúið við og sleppt við þessa hindrun sem dregur úr mér allan kraft og gleði.

En ég á bestu vini í heiminum sem reyna allt fyrir mig að gera. Allt sem í þeirra valdi stendur til að auðvelda mér lífið og koma mér af stað á ný. Stanslaus dagskrá hefur staðið yfir síðustu daga. Allskonar meðferðir og úrræði við ástarsorg. Góður matur, kaffihús, fatakaup, kósýheit og nammiát, gjafir sem ylja mér við hjartarætur og á tánum líka reyndar. Allt saman ómetanlegt á erfiðum stundum. Ég er sannfærð um að gleði þeirra og einlægur vilji til að mér líði betur muni á endanum veita mér þann kraft sem ég þarf til að rífa mig uppúr þessu. Það verður erfitt og tekur tíma en ég trúi að það takist.

IMG_0817

Takk fyrir allt kæru vinkonurSmile

 


Gleði líf mitt er!

Þvílíkur unaður hverja stund er að eiga bíl! Maður þarf aldrei að velta fyrir sér hvernig maður kemst á áfangastaði, maður þarf aldrei að eiga klink, maður þarf aldrei að reikna út cirka hvenær maður þarf að fara út úr húsi, maður fer bara út þegar maður er tilbúinn, maður má hafa allt það drasl í bílnum sem maður vill og enginn skiptir sér að því, engar kvaðir, ekkert rifrildi.... Bara minn bíll! Minn tími!

Ég keypti mér semsagt bíl í fyrradag, eldrauðan Suzuki Swift dreka sem er heil 58 hestöfl! Afar lekker og smart eðalkerra. Líf mitt hefur einfaldast svo mikið á síðustu tveimur dögum að það er ótrúlegt, ég er að tapa mér í eilífri gleðiSmile

Og svo er ég að byrja í skólanum á mánudaginn, fyrsta sinn í laaaaangan tíma sem ég actually sé fram á að mæta í tíma og vera dugleg! Ég er svo fáránlega spennt að mér líður eins og 6 ára krakka sem bíður fyrsta skóladagsins. Það liggur við að ég kaupi mér nýja tösku og pennaveski... Ég ætla allavega að versla mér bækur á morgun! íííííík.... ég er svo spennt! Ég er byrjuð að kíkja yfir ítarefni sem komið er á netið í einu námskeiðinu og get ekki beðið eftir að mæta í tíma.

Ykkur finnst ég kannski kjánaleg... En ég er svo sjúklega hamingjusöm yfir öllu þessa dagana að svona er þetta bara. Allt svo skemmtilegt!


Kál

Afhverju heldur fólk alltaf að maður sé í átaki eða strangri megrun þegar maður borðar kál? Meðan ég borðaði kálið mitt (með sósu, osti og brauðteningum) á kaffistofunni uppi í vinnu í dag þá veittust þrír samstarfsfélagar að mér með megrunarkomment! Mín komin í átak eftir jólin, er það nýársheitið, ein klárega í átaki og fleira í þeim dúr fékk ég að heyra meðan ég naut kálsins. Þetta var rosa gott kál....

Ég er ekki í megrun! Stundum langar mig bara í kál, eiginlega bara frekar oft, mér þykir kál gott! Ég tala nú ekki um ef því fylgir ostur, sósa og teningar. Það er reyndar ekki mikill matur í svona káli enda var ég líka orðin vitstola af hungri þegar vinnudeginum loksins lauk.

 Aggi fær að vera einn þarna á hægri kantinum um stund, ég nenni ekki alveg að vinna með þetta stjórnborð núna eða panta mér bloggvini. Það kemur síðar...


Nýtt ár, nýtt hár

Jæja já þá er nýtt ár gengið í garð. 2006 var ágætis árgangur, vona þó að 2007 komi betur út. Ég hef fulla trú á því þrátt fyrir mikið svartsýniskast á nýársnótt, kvíðahnút í maganum og rauð stressútbrot.

Nýja árið gekk líka í garð með ansi miklum látum og dramatík... Það vantaði kveikinn á stóru kökuna svo hún var ekki sprengd, þrátt fyrir að tveir flugbjörgunarsveitarmenn og einn hjálparsveitarskáti með flugelda og skotukökupróf í vasanum kæmu okkur til hjálpar, þá gekk ekkert upp. Enginn kveikur, engin sprenging, það sögðu fagmennirnir. Frændi minn varð því að gjöra svo vel að drösla kökuferlíkinu niðurlútur af sprengjusvæðinu og skúbba henni aftur í skottið á bílnum. Karlmennirnir héldu þó áfram að sprengja burt árið eins og vindurinn og allt endaði það með ósköpum eins og okkur fjölskyldunni einni er lagið. Ein tertan, Eldborg, var algjört flopp, jafnmikið flopp og hátíðin sjálf hér um árið! Hún sprakk í tvennt og annar hlutinn þeyttist í fjölskyldugrúppuna þar sem kát og saklaus börnin skrifuðu nöfnin sín í loftið með stjörnuljósum og grunlausar mæður í nylonsokkabuxum með hárlakk í hárinu nutu ljósasýningar. Fljúgandi aðskotahluturinn sem sprakk svo í allar áttir orsakaði eðlilega mikla ringulreið og öngþveiti. Allir reyndu að vernda sig og sína og koma í öruggt skjól, sem að mestu leyti tókst. Litlu munaði þó að illa færi. Sokkabuxur tættust allar í sundur, kápur skemmdust, hár sviðnaði og greyið litlu krakkarnir óhuggandi og verða eflaust hræddir við flugelda að eilífu.

Flestir voru hálf miður sín og sjokkeraðir eftir þetta allt saman og fáir í ballstuði, enda allar sokkabuxur götóttar og óballhæfar. Við reyndum þó að skála í kampavín þegar klukkan nálgaðist eitt... Reyndum..... eeeeeen árið byrjaði svo sannarlega með stæl í Lækjarsmáranum.... Tappinn á flösku númer 2 vildi illa af eeeeeen eftir nokkurt basl fór hann af og endaði glasi einu sem búið var að fylla á! Með þeim afleiðingum að glasið fór í gólfið ooooog þrjú önnur sem líka innihéldu kampavín! Skál fyrir því!

Sumir segja að fall sé faraheill og vona ég svo sannarlega að það sé tilfelliðGrin

 Ég hef því nýja árið full af væntingum um betri tíð og blóm í haga. Nýtt hár, nýjar vonir, ný verkefni, ný plön, allt nýtt, nýtt upphaf!

Segjum það allavega í bili... Tounge


Nýtt upphaf

Langaði til að byrja nýtt ár á nýju bloggi! Og taramm!!! Hér er það komiðGrin 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband