Færsluflokkur: Dægurmál

Sögur úr sundi

Það fór lítið fyrir 1000 metrum af sundi þessa helgina, ég var meira í 1000 sopum af bjór... Sem var sosum fínt. Tók í staðinn bara 700 af þessum metrum núna rétt í þessu. 

Nú voru það ekki elliærir baksundstjillarar sem trufluðu einbeitingu mína í sundtökunum heldur sáu ærslafullir sjö ára krakkar (geri ráð fyrir að þau hafi verið um 7 ára, þar sem þau voru flest tannlaus í efri góm) í skólasundi um það. Þau voru þarna að æfa geimskot, jarðborun, kengúruhopp, og froskakvak. Þetta eru upplýsingar sem ég hef beint frá sundkennaranum. Ég veit ekki með ykkur en ég þegar ég var í skólasundi á mínum yngri árum þá lærðum við nú bara bak- og bringusund, skriðsund og eitthvað í þeim dúr. Þetta hljómaði miklu meira spennandi og ég er viss um að ég hefði verið orðin flugsynd fyrir 15 ára aldur ef skólasundið hefði verið eitthvað í líkingu við þetta í Breiðholtslauginni í denn.

Á mínum skólasundsárum var okkur krökkunum skipt niður í hópa eftir getu og var ég, topp 10, A nemandinn, alltaf í hóp F! Mér virtist lífisins ómögulegt að læra að synda, eins og ég var góð í öðrum íþróttum og ávallt með þeim bestu hvar sem ég fór. Þið getið ímyndað ykkur niðurlæginguna fyrir óskabarnið mig að vera F í sundi, ég var í hópi með strákunum úr "tossabekknum" sem skólasamfélagið var fyrir löngu búið að gefast upp á að kenna nokkrun skapaðan hlut. Það var alltaf helvíti á jörð þegar við fengum með okkur miða heim sem tilkynnti foreldrum okkar að skólasund hæfist í næstu viku...Dauði og djöfull...

Þannig gekk þetta í 10 ár! En svo bara kom þetta allt í einu, allt í gat ég bara synt!

Þessir ærslafullu krakkar voru einmitt að klára geimskotsæfingu á sama tíma og ég lauk við 700 metrana. Búningklefarnir fyllust því af skríkjandi smástelpum sem voru samt voðalega krúttlegar svona tannlausar. Þeim fannst ég í agalega fínum naríum og létu mig vel vita um skoðun sína á þeim. Einni þeirra fannst hún líka verða að sýna mér sínar sem að hennar sögn voru agalega fínar, enda g-strengur! Halló!!! Afhverju eru 7 ára stelpur í g-streng!? Afhverju eru til g-strengir fyrir 7 ára stelpur!? Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það... En stelpan var agalega sátt og fannst hún megapæja, trúi því vel.... Ógeðslega fullorðins.... kannski full fullorðins!

Það sem vakti þó mesta athygli mína var baðvörðurinn, hún var svo indæl við stelpurnar, voða góð, hjálpaði þeim að þurrka sér og lagaði á þeim hárið og slíkt. Þegar ég var að upplifa helvítið á jörð í Breiðholtslauginni snemma á tíunda áratug síðustu aldar þá voru baðverðirnir sko ekki blíðir og góðir, það var sko engin þurrkhjálp eða hárgreiðsla í boði á þeim bænum. Það var bara potað í okkur með priki og okkur skipað að þvo rassinn vel, ÚR SUNDBOLUNUM! og allt það...

Já það er gott að sjá að tímarnir hafa breyst til hins betra á einhverju sviði. 


Sundlaugarævintýri

Jæja þá er formlega hafið heilsuátak Sólrúnar 2007, nokkrum vikum á eftir áætlun, en hei betra er seint en aldrei! Ég var svo lukkuleg að Síminn ákvað að senda starfsmenn sína í átak núna fram á vor og gaf öllum starfsmönnum sundkort til afnota. Ég veit ekki hvort þetta tengist mötuneytinu eitthvað... veit heldur ekki hvort meðalþyngd starfsmanna í Ármúlanum er eitthvað ríflegri en starfsmanna á öðrum starfsstöðvum... Við erum allavega öll agalega spengileg þarna í Kringlunni en það má alltaf styrkja sig.

Ég ákvað því að bregða undir mig betri fætinum og taka smá sundsprett í Vesturbæjarlauginni. Lagði rauða Suzuki drekanum mínum milli tveggja Lexusjeppa með leðursætum og leit drekinn hálfræfilslega út greyið í þeirri stöðu... En allavega í sund fór ég! Leið pínu kjánalega spígsporandi á sundlaugarbakkanum í litla, nánast gegnsæja strandbikiníinu mínu sem rétt hylur það allra heilagasta. Efnismeira égeraðfaraísundáíslandi bikiníið mitt varð eftir í einhverju pottpartýinu síðasta sumar og hefur það ekki skilað sér og ég ekki fjárfest í nýju... 

Ég synti eins og enginn væri morgundagurinn og náði 700 metrunum áður en tveir heldri menn vel yfir áttrætt hertóku brautina mína með "baksundsmaraþoni"  Það var engan veginn pláss fyrir okkur þrjú þarna þótt við færum eftir kúnstarinnar reglum. Ég lét því í minni pokann og kíkti í pottinn. Það er samt allt svo þröngt þarna og pottarnir taka varla meira en þrjár manneskjur í einu. Það voru þrír í öllum pottunum og mér leið eins og ég væri að kasta mér hálfnakinni í fangið á karlmönnunum þremur er voru í pottinum sem ég valdi mér til slökunar. Ég er kannski of meðvituð um sjálfa mig og umhverfið en mér leið ekki vel og slakaði klárlega ekki á með þessa þrjá gaura þarna að strjúkast við lærin á mér, en þeir voru ennþá að rifja upp höstl síðustu helgar og farnir að leggja línurnar fyrir næstu.

Það leið því ekki á löngu að ég tók ákvörðun um að segja þetta gott og vippaði mér fimlega upp úr pottinum. Mér til mikillar skelfingar fann ég þegar upp kom að efnislitla næstum gegnsæja bikiníið var ekki bara efnislítið og gegnsætt heldur líka vel uppi í skorunni.... Ég trítlaði því á hraða ljóssins yfir sundlaugarsvæðið og reyndi laumulega að kippa brókinni aðeins niður í leiðinni... Var stundinni vel feginn þegar ég greip í húninn á baðklefanum og var hólpinn.

En allavega átakið formlega hafið og 700 metrar að baki. Það er ágætisbyrjun, á morgun tek ég 1000 metrana, þeas ef ellismellirnir mæta ekki á svæðið í baksundstjill! 

Ég er svo frísk að mig langar næstum bara í skyr og hrökkbrauð með kotasælu, ég ætla að sjá hvað ég finn mér í ískápnum... 


Samskipti kynjanna

Karlmenn hafa ávallt, síðan ég komst til vits og ára, verið mér ofarlega í huga. Oft eru það einhverjir ákveðnir karlmenn en stundum bara karlmenn almennt. Hefur hegðun og framkoma þessara, bæði ákveðnu og almennu karlmanna, veitt mér mikinn innblástur í skrifum mínum í gegnum tíðina. Hver man ekki eftir gömlu góðu blogspot síðunni minni þar sem fyrirsagnir á borð við: ÉG HATA KARLMENN, KARLMENN ERU AUMINGJAR, EF ÞÚ ERT KARLMAÐUR, FARÐU! voru daglegt brauð. Oftar en einu sinni rataði bloggið mitt í blöðin þar sem mynd af mér birtist undir fyrirsögninni: HATAR KARLMENN. En það var í gamla daga og hef ég aðeins róast með aldrinum. Ég er þó ennþá þekkt fyrir ansi sterkar og miklar skoðanir á hegðun karlmanna gagnvart kvenfólki og er mér tíðrætt um það. Þegar við á spara ég ekki stóru orðin!

Hvað í ósköpunum er það sem ég læt fara svona í taugarnar á mér? Það er góð spurning... Kannski er ég bara bitur einhleyp kona sem hefur áhyggjur af því að pipra í hel, kannski er ég bara bitur stúlka sem fæ aldrei það sem ég vil, kannski er ég bara bitur stúlka sem þarf alltaf að fá þá sem ekki er fáanlegt, kannski er ég í raun bara mjög sanngjörn, óheppin stúlka með miklar skoðanir og tjáningarþörf. Pick one!

Auðvitað geta samskipti kynjanna verið erfið og það er eðlilegt að fikra sig áfram í leit að hinum eina sanna og reka sig á ýmsar hindranir á leiðinni. Sumir eru heppnari en aðrir í þessum efnum og það er bara staðreynd sem stúlka í hamingjusömu sambandi til 10 ára getur ekki maldað í móinn með til huggunar fyrir hinar ekki svo heppnu. Það  þýðir ekkert að segja við einhleypu bitru vinkonurnar, sem ekkert þrá meira en eiginmann til að knúsa og kyssa, að þær finni hinn eina sanna einmitt þegar ekki verið er að leita! Virkar það þannig? Birtist hann bara á tröppunum hjá þér með ábyrgðarpósti þegar þú átt síst von á? Nei held ekki. Auðvitað er kannski eitthvað til því að hlutirnir gerist þegar þú átt síst von á þeim. En ég held einmitt líka að því geti verið öfugt farið. Andvaraleysi getur bara hreinlega valdið því að þú ert ekki viðbúin þeim tilburðum er karlmaður sýnir í makaleit! Þú áttar þig ekki á stöðunni og þá er klúður og misskilningur í uppsiglingu. Það skiptir máli að vera meðvitaður, undirbúin og kunna að taka hlutunum, gera það rétt!

En svo við snúum okkur aftur að því sem fer í taugarnar á mér og veldur þessu sem sumir kalla biturð... Þá held ég bara að sumar konur laði að sér ákveðnar týpur karlmanna, sem hljómar ákaflega eðlilega og allt gott og blessað með það. En það er samt voðalega leiðinlegt ef týpan er hinn óákveðni karlmaður, tækifærissinninn sem telur grasið alltaf grænna hinum megin. Nú eða fjarlægðin gerir fjöllin blá týpan, maðurinn sem vill ekkert meira en vera með þér að eilífu þegar þú ert ekki lengur til staðar. Svikarinn er heldur ekki að gera sig, týpan sem lofar öllu fögru en er svo ekkert nema orðin innantóm. Allt svakalega súrar týpur sem því miður vilja oft púkka upp á mig og ég leyfi þeim það... Góða pilta hef ég ekki viljað sjá! Spurning um að taka sig til og breyta því... Kannski liggur vandamálið í raun bara alfarið mín megin...?

DON´T THINK SO!!!!

en ágætis og réttmæt pæling engu að síður...

Lifið heil sykursnúðar


Páskahugleiðingar og fullorðinstal

Jæja þá er páskadagur runninn upp gulur og fagur og ég fersk eins og vorvindur þrátt fyrir skrall í gær. 

Í fyrsta skipti í 22 ár (22 segi ég því borðaði ekki nammi fyrstu 3 ár ævi minnar) þá gaf móðir mín mér ekki páskaegg. Þetta eru tímamót í mínu lífi og ég skil þetta eggjaleysi þannig að móður minni finnist ég vera orðin stór. Systir mín 19 ára fékk heldur ekki egg, en hún gjeldur fyrir að vera 6 árum yngri en ég og tapar þar af leiðandi 6 árum af eggjum og barnæsku sem hún hefði getað haldið. Hún er orðin fullorðin á sama tíma og ég. Svo fullorðnar, hún 19 ára og ég 25 ára. Mikil tímamót!  Mér líður næstum eins og ég þurfi að fara að haga mér í samræmi við það. Svo er það aftur á móti spurning, hvernig haga fullorðnir sér, eru þeir sem gleyma að halda í barnið í sér ekki bara dead boring og döll..?

Mamma mín er líka farin að tala um að hana vanti börn til að fara með niður á tjörn... það er bara hægt að skilja það á einn veg! Ég er ennþá bara að leika mér, ekki tilbúin að fara að búa til börn svo mamma komist niður á tjörn. Svo þarf líka tvo til að geta börn, þó reyndar séu um það dæmi í mannkynssögunni að konur hafi eingetið börn...  geri fastlega ekki ráð fyrir því að sagan endurtaki sig með mér...

Ég einhverveginn sé mig bara ekki fyrir mér í þessari stöðu á næstunni, að vagga barni í svefn, stúlka eins og ég sem ennþá sefur með bangsa og með klósettljós af sjúklegri myrkfælni og móðursýki. Móðir mín verður því líklega að sætta sig við að hinkra aðeins eftir tjarnarferðum eða fá lánuð börn til þess einhversstaðar.

Og ég held í barnið í mér og mun varðveita vel og lengi! 

 


Lúxuslíf

Æ hvað ég sé fram á huggulegt kvöld.... Byrjaði á að "elda" mér núðlusúpu, tók gourmet útgáfuna í þetta sktiptið. Gourmet útgáfan felur í sér að súpunni er skellt í pott, ekkert örbylgju/hitakönnu kjaftæði. Svo er súpunni breytt í dýrindis núðlurétt með því að skella nokkrum ostsneiðum yfir núðluhrúguna og hræra vel í. Þá er dassi af ítölsku hvítlauskryddi stráð yfir og jafnvel ef vel liggur á þá má fullkomna máltíðina með því að hrista yfir örlítið af rifnum parmesanosti! Bjútífúl!

Súpuna skóflaði ég í mig yfir heilahjáveituaðgerð þar sem opna þurfti brjósthol með rifjaglennu í miðri aðgerð til að koma í veg fyrir hjartastopp. Þetta var víst rosa aðgerð og tók ansi mikið á McDreamy, enda var þetta gömul vinkona hans (Ég var semsagt að horfa á Grey´s anatomy ef einhver er ekki að átta sig). Ég var svo heppin að stöð 2 er að sjónvarpa opinni dagskrá þessa dagana og því gat ég horft aftur á 18 þátt af Grey´s. Og heppnin er með mér í kvöld því með tilkomu Tvoadsl lyklilsins míns þá get ég stillt á Skjá einn plús og horft á einn "gamlan" af OC þrátt fyrir sama dagskrártíma. Jibbí!

Og þetta er ekki búið.. því að þessu loknu þá dettur CSI inn ten o´clock. Vúbbídú!

Guð veit hvað ég geri eftir það, kannski ég skelli mér bara á rúntinn með  með nýja Doro fm sendinum mínum sem sendir tónlistina úr mp3 sony bauninni minni beint í útvarpið í bílnum á bylgjulengd 88,3. Þvílíkur munaður. Ipod/Itrip hvað? Tónlist að eigin vali í rauða drekanum. Svona á þetta að vera, eintómur lúxus. 

Já svona tekst manni að eyða kvöldi í allt annað en að læra... Ágætis afrek...

Jæja vandræði Ryans og Taylor kalla! 


Er þetta klám?

DSC02052-vi

DSC02047-vi

DSC02053-vi

Já svari hver fyrir sig.... 


How to lose a guy in two hours

Klöppum fyrir litla Samsung símanum sem vistar ekki skilaboð nema þú veljir send AND save!

Klöppum fyrir stúlkunni sem gerði líf sitt bærilegra með því að velja bara send!

Já maður var ansi hress þessa helgina... Svona í hressara lagi myndi ég segja... Það geta nokkrir vitnað um það.

Mig langar að taka ykkur í smá kennslustund í How to lose a guy in two hours!

Það eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að hafa á hreinu til þess atarna. Ég er hokin af reynslu í bransanum. Reynslan er þó ekki tilkomin af góðu og ég myndi ekki segja að hún væri jákvæð. Tilfellið ég er bara klaufaskapur og misskilningur.

En hér eru nokkrar góðar hugmyndir sem hægt er að nýta ef þú actually vilt lose a guy in two hours! 

Vera alltaf að senda öðrum gaur sms á meðan þú ert að tala við hann.

Tala um fyrrverandi kærasta

Leyfa vini hans að daðra við þig

Ræða gamalt höstl, bæði þitt og hans

Vera rosalega áberandi spennt fyrir öðrum gaurum í kring

Senda honum sms og kalla hann hóru

Senda honum dramtískt sms

Senda honum mörg sms

senda honum löng sms

Vera með afar ókvenleg dólgslæti og hávaða

Gera lítið úr honum og öllu sem hann segir

Já ég myndi segja að þetta væru þau grundvallaratriði sem fínt er að kunna skil á. Annað hvort til að forðast eða nýta. Fer allt eftir því hver aðgerðin er og hvort gaurinn sé spennandi.

Vona að þetta komi að góðum notum, njótið vel 

 


Íslensk deitmenning

Samkvæmt minni rannsóknarvinnu þá ríkir ekki skemmtileg deitmenning á Íslandi, hún bara ríkir reyndar ekkert því hún er ekki til! Jú það eru kannski einhverjir sem kunna þetta fag og stunda af mikilli lipurð en þeir eru án efa mikill minnihlutahópur. Og nú er ég eingöngu að notast við þær upplýsingar sem ég hef frá heimildarmönnum mínum. Sjálf myndi ég ekki segja að ég hefði farið á mörg deit í gegnum tíðina, einhver hafa þau verið og þá gengið misvel... aðallega mis.. Einhvernveginn finnst mér hlutirnar alltaf bara ganga betur ef maður sleppir deitinu. Sem felst þá í að maður bara byrjar með vinum sínum eða kynnist einhverjum og byrjar að hanga með honum... svona eins og fólk hangir... og svo bara allt í einu er maður par, ekkert deit, ekkert vesen!

Ég er svo tens stundum í samtskiptum við fólk af hinu kyninu að ég þegar ég þarf að fara að halda uppi vitsmunalegum samræðum án samræðis á svokölluðu formlegu deiti þá kyngi ég karakternum mínum og gleypi loft með. útkoman er agaleg, ég segi hluti sem fá mig til að langa að klæða mig úr skónum og berja sjálfa mig í hausinn með honum þangað til ég missi meðvitund. Nú eða þá að ég segi bara yfir höfuð ekkert og gaurnum finnst ég þar af leiðandi álíka spennandi og stóllinn sem ég sit á og var búinn að gleyma því að hann þurfti einmitt að fara annað klukkan 9! Bless!

Ég væri rosalega til að geta farið eðlileg á deit og skemmt mér vel án þess að vera með í maganum allan daginn og gubba svo af stressi hálftíma áður. Það er mjög átakanlegt og því reyni að forðast það sem heitan eldinn að fara á formlegt kaffihúsadeit. Fyrir mig er það eins og hrein og klár aftaka! Það má ekki kallast deit eða líta út eins og deit, það er bara ekki að ganga fyrir mig.

Bækur eins og Súperflört gera lítið gagn, enda kenna þær manni bara að tæla, fikta í hári, snerta höku, eiga salinn og allt það. Svo er maður bara skilinn eftir í lausu lofti með framhaldið! Jú bókin Súpersex er líka til en hvar er miðjuhlutinn, hvað er á milli flörtsins og sexins? Það vantar eitthvað þarna á milli sem ég væri til í að læra. Það er einmitt rosalega íslenskt! Flört oooog svo sex! Búið!

Spurning hvort eitthvað frumlegra en kaffihúsa eða bíóferð myndi gera eitthvað meira fyrir mig, fá mig til að slaka á. En við búum á Íslandi og það getur verið afar takmarkandi. Hvað er hægt að gera á deiti? Ég held að utanaðkomandi aðstæður valdi því að Íslendingar eru arfaslakir deitarar. Við höfum ekki réttu aðstæðurnar til að skapa vel heppnuð, rómantísk deit. Því er nú ver og miður!


Björgum heiminum... skref 1

Ég uppgötvaði í gær mér til mikillar ánægju að það er hinn fínasti glasahaldari í bílnum mínum! Bílinn keypti ég í byrjun janúar... Ég er búin að bölva þessu glasahaldaraleysi svona 117 sinnum og röfla um það mikið við hina ýmsustu farþega í bílnum hverju sinni hvurslags mishönnun það sé að hafa ekki glasahaldara í öllum bílum. En svo í gær fór ég eitthvað að taka til í bílnum, tína rusl í poka og rek mig í öskubakkann að ég hélt! En nóbb! Út skúbbaðaðist þessi líka vel stöðugi, tvöfaldi glasahaldari! 

Annars þá átti litli bróðir minn, hann Róbert (sem ekki er lengur svo lítill því hann stækkar og stækkar) afmæli í dag. 16 ára strákurinn og pabbi er víst búinn að finna handa honum ökukennara. Vonandi er hann eitthvað skárri en ökukennarinn sem hann fann handa Dagnýju systir minni fyrir 3 árum. Það var gömul kona sem hrökk uppaf sökum elli daginn sem hún tók prófið! Hún var víst alltaf svo upptekin við að keðjureykja að  Dagný varð sjálf að finna út hvernig hlutirnir virkuðu í svona bílum...

Ég gaf drengnum Draumalandið í afmælisgjöf, það er fyrsta skref mitt í að bjarga heiminum ( ég ákvað að reyna markvisst að stefna að því að bjarga honum eftir að hafa séð heimildarmyndina hans Al Gore í gær, An inconvenient truth). Bróðir minn er fínn kandídat í stefna að þessu með mér enda harðpólitískur vinstrimaður og einn gáfaðasti og viðráðanlegasti 16 ára krakki sem til er!

Ég ákvað að skella hérna með mynd af okkur systkinunum frá síðustu jólum. Til gamans má geta að svona mynd hefur verið tekin af okkur saman frá því að við öll hófum tilveru okkar hér á jörð. Alltaf fyrir framan jólatréð hjá ömmu og afa á aðfangadagskvöld... Nema hvað.. nú sést ekki lengur í tréð...

IMG_0894

 


Þetta er spurning um heildarmyndina!

Jæja á föstudaginn fór ég á þriðju og síðustu árshátíðina mína þetta sísonið. Nú var það árshátíð Röskvu. Það var heljarinnar hressleikasamkunda eins og við mátti búast. Til að taka þátt í herlegheitunum brá ég mér í betri fötin, blár kjóll varð fyrir valinu að þessu sinni. Við hann fór ég í gyllta skó og greip með með mér gyllt samkvæmisveski nákvæmlega í stíl. Til að kóróna setti ég upp gyllta eyrnalokka einnig í stíl. Samsetningin fullkomin, skór og veski í stíl, blingið á sínum stað, allt eins og það átti að vera.

Þó maður dressi sig nú kannski helst upp bara fyrir sjálfan sig þá er nú ekki verra að vera huggulegur fyrir karlpeninginn líka. Tala nú ekki um þegar maður er laus og liðugur... Mín reynsla er hinsvegar sú að flestir karlmenn taka óttalega lítið eftir hverju við dömurnar klæðumst, nema bolirnir séu þeim mun flegnari og pilsin í styttra lagi. Þeir taka voða lítið eftir því hvort samkvæmisveskið er í stíl við skóna eða hvort bolurinn tóni við beltið. Það er mín reynsla hingað til. Hingað til segi ég! Því þessa helgina hefur karlpeningurinn enn og aftur komið mér á óvart. Og í þetta sinnið ekki bara með hæstu hæðum í hálfvitaskap eða nýjum metum í skíthælshætti. Þó að það hafi líka fylgt.. en það er önnur saga!

Fyrsta óvænta atvikið átti sér stað á sjálfri árshátíðinni þar sem ungur maður í huggulegri kantinum, bæði í fasi og klæðaburði, vatt sér upp að mér og tjáði mér hversu agalega smekkleg ég væri. Skórnir og veskið alveg í stíl. Svona á að gera þetta sagði hann, hugsa um heildarmyndina. Nákvæmlega rétt hjá honum, gáfumaður þar á ferð! Í framhaldinu áttum við svo ágætar umræður um tísku, smartleika og umfram allt, heildarmyndina.

Annað atvik sama kvöld á sér stað á Ölstofunni. Ég kannski í fínni kantinum miðað við aðstæður, í vel flegnum samkvæmiskjól með uppsett hárið. En fannst það allt í lagi, enda líkar mér vel að vera fín og nýti tækifærin til þess sem oftast. Þá sest hjá mér maður og tjáir mér hversu glæsileg ég sé nú og hví í ósköpunum ég sé svona fín. Ég tjái honum það og við förum að spjalla... Um tísku, um heildarmyndina, um samkvæmisveski í stíl við skó, um bindi sem tóna við skyrtur og þar fram eftir götunum. Alveg merkilegt. Tveir afar ólíkir menn, sama kvöld, sama umræða. Ég varð svo ánægð og fékk trúna á karlmenn aftur. Kannski alls ekki svo slæmur þjóðflokkur hugsaði þegar ég lagðist sátt til hvílu eftir skemmtilegt og fræðandi kvöld.

Svo kemur laugardagur og maður kíkir í hvítvín eins og vill gerast á laugardögum. Leiðin liggur í bæinn og svo er maður spurður um rauða bolinn, já karlmaður spyr mig um flík sem ég klæddist síðast í janúar! Hvernig man karlmaður eftir flík sem stelpa klæddist í janúar? Það var alveg farið að hvarfla að mér að ég hefði síðastliðin árin bara verið að misskilja eitthvað og að karlmenn væru í raun og veru frábærir! Og þegar annar maður úr allt annarri átt spyr mig líka um rauða bolinn þá vissi ég ekki hvert ég ætlaði! Þetta var of mikið fyrir Sólrúnu að taka á einni helgi, stúlkuna sem var þekkt fyrir að hata karlmenn. En ég var heppin, því áður en helginni lauk þá jafnaðist þetta út, karlpeningurinn sannaði enn og aftur stöðu sína í mínum augum. Ný met, nýjar hæðir! 

IMG_1245

 Þessi mynd kannski fangar ekki alveg heildarmyndina en hún fangar klárlega stemmninguna!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband