Færsluflokkur: Dægurmál

Kajakróður er góð skemmtun, eða hvað...?

Við í Símanum Kringlunni skelltum okkur saman í skemmtiferð austur fyrir fjall síðastliðinn laugardag, svona aðeins til að hrista hópinn saman fyrir sumarið. Stefnan var tekin á kajak, sundslökun og mat á Rauða húsinu.

Ferðin hófst með smá bjór og snakksamkundu í búðinni þar sem við skeggræddum hvað teldist heppilegur klæðnaður í förina, það var eitthvað mismunandi hvað fólki fannst um það og sumir... ehhmm... gleymdu aðeins smá útivistarfatnaði.... skal ekki segja hver það var....

Svo sótti okkur rúta og hana fylltum við af bjór og öðrum áfengum veigum sem áttu þó ekki að drekkast fyrr en á heimleið, enda við á leiðinni í kajaksvaðilför og ekki heppilegt að hafa innbyrt mikið magn alkahóls fyrir þau átök. Flestir hlýddu því...

Á Stokkseyri tóku á móti okkur tveir vasklegir piltar á sextánda aldursárinu, þeir klæddu okkur í heppilega búninga, vesti og stígvél, gáfu okkur örkennslu í kajakróðri og hentu okkur bátana. Kennslan var eitthvað á þennan veg: hér eru árar, þarna eru bátar, róið og fylgið okkur...

DSC02748-vi

Þarna erum við að verða klár. Takið sérstaklega eftir því hvað ég er hress á kantinum, með þumlana upp og læti!

Þegar í bátana var komið hófst róðurinn eins og okkur hafði áður verið kennt.... Róa, róa, róa. Elta leiðsögustrákinn. Þetta var rosalega gaman í fyrstu, víííí og allir ruku af stað. Fáránlegur hressleiki í gangi og allir klesstu á alla flissandi og hlæjandi, gaman, gaman.... Veðrið kannski ekki upp á sitt besta en það var þó ekki rok, þökkuðum við fyrir það í upphafi ferðar...

DSC02755-vi

Þarna má sjá mig og Freyju fáránlega hressar, búnar að festa okkur aðeins, en vííí ennþá rosa gaman!

Já fyrst var þetta bara barnaleikur, að róa á opnu svæði, ekki málið fyrir liðið, strákar sem stelpur þeystu áfram. Svo varð þetta aðeins erfiðara, fórum að fara alls kyns krókaleiðir og sátum oftar en ekki föst í hrúgu í sefinu og rákum árarnar upp í andlitið hvert á öðru. Það var alveg fyndið og skemmtilegt líka eins og árekstrarnir. Við fórum í smá kappróður á öðru opnu svæði og héldum áfram að klessa á hvort annað um stund.

Svo þurftum við að róa til baka... eftir 45 mínútna kajakróður var örlítið tekið að vinda... og svo rigna... Strákarnir þeystu á undan okkur stelpunum og eftir sátum við í klessu í sefinu og héldum áfram að flissa og reka árarnar hver í aðra. Þegar okkur fannst nóg komið snérum við einnig til baka. Á þessum tíma var vindurinn orðinn að rokinu sem við í upphafi ferðar þökkuðum fyrir að væri ekki...

Að róa kajak í roki er ekki eins góð skemmtun og í logni! Í fyrstu var þetta að sjálfsögðu ákaflega fyndið og hresst eins og allt annað í þessu kajakferðalagi. Hahaha við róum og róum og komumst ekkert áfram! Eftir svona hálftíma af tilgangslausu við komumst ekkert áfram róðri með tilheyrandi flissi og skvettum, vorum við aftasti hópurinn nánast aðframkominn af þreytu og sáum ekki fram á að komast með í matinn á Rauða húsinu með þessu áframhaldi. Brandarar eins og að leggja árar í bát og árinni kennir illur ræðari voru fyrir löngu hættir að vera fyndnir og alvaran tekin við.

Ég gargaði á leiðsögupeyjann hvað í fjandanum maður ætti að gera ef maður bara gæti ekki meira!? Hann hló bara að mér! Ég var búin að róa af öllum lífs og sálar kröftum frá mér allt vit og rænu, löngu komin yfir þreytuna en öll orka sem vöðvarnir gengu fyrir var uppurin og vöðvar hlýddu ekki þeim taugaboðum frá heilanum sem sögðu þeim að róa áfram... Ég því, í eins bókstaflegri merkingu og það getur gerst, bara gaaaat ég ekki meira. Og hélt áfram að heltast úr lestinni ásamt fleiri góðum stúlkum í svipaðri stöðu. Á þessum tímapunkti var ég nánast með grátstafinn í kverkunum, tilbúin að gera nánast allt fyrir fast land undir fótum mér á ný. 

Eftir smá vonleysisnökt áttaði ég mig á því að mig var að reka í land upp að hliðarbakkanum... ég sá að með nokkrum góðum áratökum gæti ég mögulega náð landi fyrr en ég hafði þorað að vona. Ég fékk því einhvern yfirnáttúrlegan fídonskraft og adrenalínsprautu í rassinn og hóf róður á ný eins og tryllt væri. Vatnsgusurnar gengu yfir bátinn og ég var orðin gegnsósa af vatni og drullu eftir skamma stund, báturinn var líka að fyllast af vatni... En mér var nákvæmlega sama, það eina sem ég sá og hugsaði var þurrt land, laaaaaand! Á síðustu metrunum stóð ég upp í bátnum, henti mér út í og óð drulluna upp að hnjám í land! Laaaaand! Ég hafði náð landi... stóð þarna á bakkanum sigri hrósandi með geðveikisglampa í augunum og sveiflaði árinni í sigurskyni áður en ég hélt af stað í bátaskýlið, klofblaut upp að öxlum... Og gargaði svo jafn tryllt ALDREI AFTUR KAJAK!

DSC02764-vi

Þarna er Sólrún ekki jafn hress á kantinum... Takið líka sérstaklega eftir rauðu stígvélunum sem ég klæðist, þau eru númer 35... 

Eftir þessar raunir skelltum við okkur í örsund í sundlauginni á Stokkseyri áður en við héldum, góðum klukkutíma á eftir áætlun, í mat á Rauða húsinu á Eyrarbakka. Rauða húsið fær alveg fullt hús stiga fyrir eðal þjónustu og frábæran mat og þangað mun ég klárlega fara aftur.

En líklega mun líða einhver tími þangað til ég svo mikið sem leiði hugann að kajakróðri á ný... 

 


Klósettferðir

Ástæðan fyrir færsluleysinu síðustu dagana er einfaldlega sú að ég á í hatrammri baráttu við mitt innra sjálf um að hleypa ekki út miklum skoðunum mínum og almennri biturð í garð karlmanna á veraldarvefinn. Og reyna að þannig að standa við eiðsvarnar yfirlýsingar mínar um að láta af slíkum vitleysisgangi.... Það getur verið erfitt enda aldrei lognmolla í kringum mig. Líf mitt er sannkölluð sápuópera sem þú lesandi góður, ert aukaleikari í

Ætla ég því að reyna að fá útrás í skrifum um annað mál sem líka er mér ofarlega í huga. Ég er mikil áhugamanneskja um almennilega, ásættanlega og mönnum bjóðandi salernisaðstöðu. Kínaför mín veldur mér því örlitlu hugarangri. Ég geri mér grein fyrir menningarlegum mismun og mikilli fjarlægð frá hreinum, spegilgljáandi og nýskrúbbuðum kamrinum á Njálsgötu 96 og 12 rúllu safninu af Góðkaups skeini. En samt sem áður er ég mjög nervös varðandi klósettmál í Kína... Ég er búin að heyra allskonar hryllingssögur af klósettpappírslausum götum ofan í jörðina þar sem saur í öllum stærðum og gerðum svamlar um í mestu makindum.... svo hef ég líka heyrt sögur um að fullorðið fólk sem er mjög upptekið eins og bissness fólk og fólk sem þarf að ferðast mikið, noti bleyjur! Svona fullorðinsbleyjur og þá sleppi það við klósettferðir á óæskilegum tímum og losi bara bleyjuna þegar tími gefst! Hversu ógeðslegt er það!?

Einu sinni var ég stödd niðri í bæ á Menningarnótt, það var örugglega árið 2000 þegar met var slegið í fólksfjölda í miðbænum og um hundraðþúsund manns tróðust þar hver um annan. Þegar stærstu flugelda sýningu er sést hafði á fróni lauk þá þurfti auðvitað allt fjölskyldufólk í bænum að drífa sig heim, leyfi mér að giska á að það hafi allavega verið um helmingur fjöldans, eitthvað um 50.000 manns... 50.000 manns með kerrur og vagna að troðast á móti öðrum 50.000 þúsund með flöskur og dósir. Þið getið rétt ímyndað ykkur öngþveitið nú eða rifjað það upp, þið sem voruð þarna. Ég var allavega þarna á miðjum Arnarhóli búin að fá mér nokkra öllara og verandi með minnstu blöðru í heimi þá þurfti ég sjálfsögðu að pissa á þessum krítíska tímapunkti.. Um leið og ég gerði mér grein fyrir því að klósett eða nokkur annar staður þar sem ég gæti veitt mér þann munað að létta á mér væri ekki í boði á næstunni, þá panikkaði ég og varð enn meira mál fyrir vikið. Ég get ekki lýst því fyrir ykkur hversu mikið ég þjáðist næstu 45 mínúturnar, sem er tíminn sem leið þangað til salerni bauðst. Það þurfti að bera mig síðustu metrana, nokkrum sekúndum síðar hefði ég líklega sprungið. (það er einmitt til dæmi um það í mannkynssögunni að maður hafi actually dáið því hann hélt svo lengi í sér...)

Fyrir þetta atvik sem vel er greypt í huga minn þá fannst mér alltaf mjög traust þegar ég var stödd í mannfjölda að vera búin að spotta út mögulega salernisaðstöðu í tæka tíð. Eftir þetta atvik þarf ég alltaf nauðsynlega að vita hvar klósettið er, hvar sem ég fer! 

Ég krossa því fingur og bið til guðs að ég fái ásættanlega salernisaðstöðu á heimavistinni þar sem ég gisti. 


Kína beibí! 56 dagar...

Júróvisjón... ég ætla ekki einu sinni að ræða það sko, nema bara örlítið. Við erum að tala um að SLÓVENÍA og GEORGÍA hafi komist áfram! Georgía er sko ekki einu sinni í Evórpu, ekki þannig séð. Já manni bara fallast hendur. Leiðindapúkar þarna í Austur-Evrópu, við skulum nú aðeins þroskast og sjá að Evrópa er meira en bara austanmegin, aðeins meira en gömlu Sovétríkin. Ég segi bara eins og Norsararnir sungu um árið: Kammán, kammán!

Svo sitja þessir austur-evrópsku klárlega heima hjá sér núna og flissa yfir vitleysunni í sér... En jæja það er ekki hægt að vera bitur yfir því, ég ætla að halda með Lettlandi eða Makedoníu, þó að þau séu í Austur-Evrópu, það eru þó allavega ágætis lög. Hef Svíana líka með á listanum fyrir skandinavísku taugarnar.

 

En að öðru... Það er bara eitt sem á að gera við fólk sem er búið í prófum og grobbar sig af því, flá það og steikja!

Annars er ég bara hress.... eftir 56 daga verð ég líklega stödd á Charles de Gaulle flugvellinum í París... bara í örstuttri millilendingu frá London til Shanghai... það er svolítið ljúft að hugsa um, bara vægast sagt svolítið. Og eftir 57 daga verð ég byrjuð að læra kínversku við háskólann í Ningbo í Kína. Þetta hljómar allt afar ótrúverðugt í mínum eyrum núna en biðtíminn er rúmlega hálfnaður. Flugmiðar voru pantaðir fyrir rúmlega 4 mánuðum, alveg hreint ótrúlegt að kjánaprikið ég, sem geri aldrei neitt flippaðra en að sofa öfugt í rúminu mínu, sé á leið hinumegin á hnöttinn að læra kínversku! Já hver hefði trúað því?

 


Afahús á Þingeyri

Húsið hans afa á Þingeyri er farið!!! Fyrir mér er þetta ákaflega dramtísk og sorgleg stund þó þetta snerti ykkur hin alveg örugglega afar lítið...  Selt og farið!! SELT einhverjum sem er ekki úr Kjaranstaðaættinni... einhverjum allt öðrum og ókunngugum. Ég hefði keypt það hefði ég átt pening, ég ætlaði alltaf að kaupa það, það var planið.

Afi er sannfærður um að ég verið rík einhvern daginn og geti keypt það aftur... þannig gat hann selt það með aðeins betri samvisku en ella....

 IMG_0743_2

Húsið er mjög mjög mjög gamalt örugglega upprunalega byggt í byrjun 19 aldar eða eitthvað, jafnvel fyrr... eitt elsta húsið á Þingeyri og afi keypti það í algjörri niðurníslu og gerði það upp og er það mál manna að þetta sé fallegasta húsið á eyrinni! ef ekki á öllum Vestfjörðum bara! Og eins og áður sagði þá tengist ég hlutum! Þar á meðal húsum! Ég grét mörgum tárum þegar ömmu og afa settið úr Reykjavík seldi stóra einbýlishúsið í Grófarselinu og flutti í blokkaríbúð í Kópavoginum... Grófarselið þar sem öll jólin mín höfðu verið haldin, jólatréð alltaf á sama stað... sami maturinn alltaf á nákvæmlega sama tíma, við sama borðið í sömu borðstofunni... ég er ekki mikið fyrir breytingar...

En já afahús selt... ég man eftir þegar það var allt í niðurníslu og það var lífshættulegt og ekki fyrir lítið stúlkubarna að fara eitt á salernið... nema afi hjálpaði upp stigann. Ég man þegar gormadýnan frábæra var í stofunni á neðri hæðinni og ég og Sirrý frænka hoppuðum og hoppuðum á henni eins og trylltar hýenur, það var svo fáránlega gaman. Svo keyptum við okkur bláan húbba búbba í Essó sjoppunni og tróðum heilum pakka upp í okkur hvor og héldum áfram að hoppa... þangað til tyggjóið hrökk ofan í mig og ég næstum kafnaði... þá fjarlægði afi dýnuna og við sáum hana ekki meir... okkur til mikils ama, enda var þetta hin besta skemmtun! Ég man að Kata hans afa steikti kleinur og ég tróð í mig við eldhúsborðið og fékk appelsín með og svo fléttaði afi á mér hárið. Eini afinn í heiminum sem ég vissi að kynni að flétta og ég sagði það hverjum manni sem vildi heyra og jafnvel fleirum... Svo var alltaf svo gaman að fara í skúrinn hjá afa, þar var alltaf eitthvað sniðugt að finna enda afi minn mikill hugmyndasmiður. Í skúrnum voru Dúa-bílar, skip, dúkkuvagnar og í seinni tíð frábær hönnun afa míns á geisladiskastöndum. Snillingur þessi kall, hann Elli afi minn. 

Ég mun sakna afahúss mikið og það verður skrýtið að koma á Þingeyri og geta ekki farið þangað. En afi minn á ennþá ættaróðalið, Kjaranstaði í Dýrafirðinum og það er sko klárt mál að þeir staðir eru ekki að fara neitt! Það verður sko over my dead body!

Þá þarf bara að taka til hendinni og gera húsið á jörðinni almennilega upp... og það þarf klárlega fleiri en afahendur í það. Ég held að ég fari að skella mér í vinnugallann... 

IMG_0732

Hér sjáum við Kjaranstaði í Dýrafirði. Og er það einmitt mál manna að Kjaranstaðir séu eitt fallegasta bæjarstæði á Vestfjörðum! Svo skulum við ekki gleyma því að sólsetrið í Dýrafirði er ólýsanlegt, það er klárlega það fallegasta sem fyrirfinnst!

Ég er sko ekkert að ýkja með þessu mál manna tali mínu, þetta er bara það sem ég heyri útundan mér sko... 


Tölvur og önnur tæknileg tól

Ég er internetfíkill... ég vinn við tölvu, þar hef ég aðgang að internetinu allan daginn... um leið og ég kem heim úr vinnunni er það fyrsta sem ég geri að kveikja á tölvunni minni og að sjálfsögðu liggur leið mín beint inn á netið... þegar ég er ekki að vinna og ekki heima þá er ég stundum í skólanum, þar er ég líka á netinu. Ég myndi segja að meðaltali sé ég líklega á netinu svona hmmm... kannski 10 tíma á dag.. ok segjum 8...     ÁTTA FOKKING TÍMA Á DAG!!! um leið og ég fer inn á netið þá signa ég mig inn á msn og myspace og allt annað sem maður getur signað sig inná, heimabankann, politicusíðuna, bloggið mitt, name it... sjitt hvað þetta er brenglað! Ég gæti verið að missa af einhverju! Ég tek meira að segja tölvuna stundum með mér upp í rúm og þegar ég vakna er ég búin að rúlla mér yfir hana, flækja mig í hleðslutækisnúrunni eða eitthvað þaðan af verra. Ég er alltaf með þessa fjandans tölvu í fanginu, ég borða með hana fyrir framan mig, horfi á sjónvarpið með hana fyrir framan mig ég skoða meira að segja blaðið með hana fyrir framan mig, legg það bara yfir lyklaborðið og fletti. Hvað er það?! Ég er alltaf inni á msn, ég signa mig ekki einu sinni út þegar ég fer að heiman, skelli bara away á, ef ske kynni að einhver msn félagi þyrfti að segja mér eitthvað ógurlega spennandi, þá get ég bara séð það þegar ég kem heim, annars myndi ég missa af því og það væri nú agalegt! Svona virkur þjóðfélagsþegn eins og ég, stjórnmálafræðinemi, mikil áhugamanneskja um pólitík og sérlegur sérfræðingur í slúðri, það er nauðsynlegt fyrir mig að vera tengd umheiminum 24/7.

Ég man þegar við fengum netið fyrst heima, það var ógurlega spennandi. Pabbi nýbúinn að kaupa þessa fínu tölvu og það var nú aldeilis sport að fá að vafra um internetið þegar faðirinn var ekki að nota gripinn til að færa inn heimilsbókhaldið. Sem hafði nú hingað til alveg geymst ágætlega í brúnu möppunni undir borði, ég skildi ekki þennan fáránlega tvíverknað og í ofánlag þá virtist maðurinn vera allavega helmingi lengur að því að slá þetta inn í tölvuna heldur en að gera þetta upp á gamla mátann. Ég er fegin að systkini mín voru ekki komin með vit eða aldur til að þykja leyndardómar internetsins jafn spennandi og mér. Það hefðu nú orðið slagsmál í lagi... Það var nú nógu mikill æsingurinn í kringum bílinn hennar mömmu þegar systir mín fékk bílpróf... eða þegar einhver kláraði kókópöffsið eða fékk nokkrum millilítrum meira kók... ( það er kannski rétt að taka það fram að kókópöffs og kók voru mikil munaðarvara á mínu heimili í gamla daga... það var ekki nema það væru jólin eða eitthvað svipað stæði til að slíkt væri keypt inn)

En já á netinu lá ég þegar enginn annar var heima, þá var aðalmálið hjá mér að skoða myndir af Leonardo Dicaprio... og lesa mér til um hann á hinum ýmsu heimasíðum. Váá hvað mér fannst hann frábær og æðislegur. Hann er einmitt eina fræga manneskjan sem ég hef dýrkað og dáð, ég var aldrei í Take that eða New kids on the block eða hvað þetta allt nú hét. Það var ekki fyrr en hann Leo minn kom til sögunnar að ég skildi hvað stjörnudýrkun var... Það versta var við þetta internet að maður var að nýta símalínuna sko, það var ekkert adsl neitt. Og á meðan maður var að skoða Leo var maður kannski að missa af símtölum, kannski merkilegum símtölum. Ég meina það voru engir gsm símar! 

Jeminn engir gsm símar! Hvernig var það aftur!? Já halló er Sólrún heima...? Já nei hún er ekki heima, veit ekki hvar hún er... Jæja þá ég hringi bara aftur... Já halló er Sólrún heima...? Já nei hún er bara ekki ennþá komin heim... Já jæja þá... viltu kannski bara biðja hana um að hringja í mig...?

Gaaaarrg sjitt! Og svo ef maður þurfti að hringja í strák...! Hversu vandræðalegt var það!? Herre min gud! Ég var reyndar mikið á móti gsm símum, ætlaði sko aaaaaldrei að fá mér slíkan. Til hvers í veröldinni? Fólk gat bara hringt heim til mín. Ég meina, fáránlega óþægilegt að það sé alltaf hægt að hringja í mann... Ehhh nei! Fáránlega þægilegt kannski bara! Og já nú á ég 4 gsm síma sem ég nota til skiptana. Sími er bara fylgihlutur eins og veski. (þess ber að geta að ég starfa hjá Símanum og símar eru ekkert merkileg munaðarvara lengur sem ég á í tvö ár og græt rakaskemmdir, ónei sími er bara eins og veski).

 En já ég er feginn að ég skildi aldrei hvernig irkið virkaði... ég er alltaf svo mikil ofstækismanneskja þegar ég slæst í hópinn í einhverju svona... Var mjög sein að fá mér msn, fattaði ekki tilganginn og fannst þetta asnalegt, jafn asnalegt og gsm síminn á sínum tíma. Og nú svo þegar ég er komin með msn þá fer ég ekki útaf því. Ég í hnotskurn...


Fangi á eigin heimili...

Ég bý ein og þykir það voðalega notalegt, maður getur haft allt eins og manni sýnist og striplast um þegar manni hentar. Ég geri mikið af því, nágrönnum mínum örugglega til mikillar ánægju. Þar sem nýlega gerði ég þá uppgötvun að í fullri dagsbirtu, sem er soldið mikið af þessa dagana, þá er ein gardínan hjá mér nánast alveg gegnsæ. Þetta er eitthvað sem ég hafði engan veginn gert mér grein fyrir enda með dregið fyrir og gerði þannig bara ráð fyrir að ég væri njóta friðhelgi einkalífsins en ekki að bera mig fyrir alþjóð. Þetta fer meira að segja versnandi... því vaxandi sól og nýjum nágrönnum fylgja leikandi börn, í mínum garði!!! Og börnunum fylgja fullorðnir menn í fótbolta, enn og aftur í mínum garði!!! Sem gerir það að verkum að nú þarf ég að klæða mig inni á glugglausa baðherberginu mínu áður en ég hætti mér fram í stofu til að verða ekki vinsælasta manneskjan í götunni. Ég kveð stripldagana mína með söknuði og líður eins og fanga á eigin heimili, ég tala nú ekki um þegar stofuglugginn hjá mér er notaður sem fótboltamark! Fyrsta mál á dagskrá eftir próf er að fjáresta í nýjum gardínum...

Og ef að nágrannarnir mínir voru ekki búnir að uppgötva gegnsæju gardínuna mína þá ætla ég rétt að vona að þeir lesi ekki bloggið mitt og komist að hinu sanna... 


Sagan af jukkunni góðu

Eins og ég hef líklega áður minnst hér á þá á ég mjög auðvelt með að tengjast bæði lifandi og dauðum hlutum sterkum tilfinningaböndum. Þetta hefur í gegnum tíðina orsakað ýmis vandamál bæði hjá mér sjálfri og fólkinu í kringum mig, þá aðallega móður minni. En oft á mínum yngri árum tókst mér næstum að gera hana gráhærða með með bölvaðri vitleysu og óstjórnlegri þvermóðsku.

Gott dæmi um þetta er sagan af jukkunni góðu... Þannig var það að þegar móðir mín var ung stúlka flutti hún vestur á firði til að vinna í fiski, fjarri öllum vinum og fjölskyldu. Þar kynntist hún karli föður mínum og hófu þau búskap á Ísafirði, móðir mín hélt áfram að vinna í fiski og faðir minn vann á steypustöðinni. Fátt fann móðir mín sér til dundurs á Ísafirði en áskotnaðist henni þó nokkrir plöntuafleggjarar, þar á meðal veglegur afleggjari af jukku (Yucca elephantipes). 

Móðir mín hellti sér þá út í plönturæktun af miklum eldmóð, keypti sér ógrynni af bókum og gerði ýmsar tilraunir í ræktuninni. Ég veit ekki hvernig þetta var fyrir 27 árum síðan, en í dag teldist plönturæktun 18 ára stúlku líklega argasti lúðaskapur. Við verðum þó að taka inn í dæmið að hún var nýkomin til Ísafjarðar og lítið búin að kynnast fólkinu í bænum. Tveimur árum síðar flytja foreldrar mínir búferlum til Reykjavíkur og plönturnar fara með. Stuttu síðar kem ég í heiminn... 

Jukkan hennar mömmu óx og dafnaði og það gerði ég líka, fljótlega var jukkan farin að taka mikið pláss og mikið bar á henni í stofunni. Jukkan er í bakrunninum á nánast öllum myndum sem teknar voru af mér á heimilnu. Hún var allstaðar, hún var fastur punktur í tilverunni hjá mér. Oftar en ekki var mér falið að vökva jukkuna með grænu könnunni góðu. Ekki of mikið, ekki of lítið, varð að vera akkúrat passlegt...

...Og árin liðu og alltaf stækkaði jukkan og ég að sjálfsögðu líka, fleiri börn bættust við fjölskylduna sem orsakaði búferlaflutninga að nýju. Einhversstaðar á leiðinni fór áhugi móður minnar á plönturækt dvínandi og eldmóðurinn við að halda í lífinu í þessum ljóstillífandi lífverum um alla íbúð minnkaði stöðugt... Ein af annarri hurfu þær... kaktutsar... gúmmítré... aloe vera... dag einn var stóri góði burkinn horfinn. Hann hafði tekið helminginn af stofunni á móti jukkunni í gömlu íbúðinni. Stuttu eftir flutninga fór ég að taka eftir að eitthvað vantaði, það var ekki bara burkinn, ég vissi um afdrif hans, það var eitthvað annað og meira sem vantaði.... olli þetta mér, 9 ára barninu miklu hugarangri...

Það var ekki fyrr en að einn sólríkan sumardag að ég er að leita mér að sólstól til að nota á svölunum að ég fer inn í eina ónotaða herbergið í íbúðinni sem tímabundið var notað undir drasl sem var á gráu svæði hvort væri geyma eða henda dót. Þar blasir eymdin við mér, þar stendur elskulega jukkan mín öll gulnuð og uppþornuð af súrefnis og vatnsskorti. Það tekur mig smá stund að átta mig á aðstæðum, hvernig gat móðir mín verið svona kaldrifjuð, var hún með hjarta úr stáli, hvernig gat hún sett varnalausa jukkuna þarna inn í herbergið og látið hana afskiptalausa þar sem hún beið dauða síns sem auðsjáanlega nálgaðist óðfluga.

Svo koma viðbrögð mín.... ég veina upp og skræki þangað til móðir mín kemur hlaupandi og heldur að ég sé stórslösuð. Ég messa yfir henni og húðskamma fyrir að dirfast að kvelja jukkuna okkar svona, fara svona með lifandi verur! Sannfæring mín er slík að móðir mín sem ætlaði sér að losna við fjandans jukkuna sem var farin að vera henni til ama, hálfskammast sín... ég linni ekki látunum fyrr en hún fellst á að hefja með mér björgunaraðgerðir. Með því skilyrði þó að jukkan verði inni í mínu herbergi, hún vildi ekki sjá fjandas jukkuna í stofunni, enda nýr stofuskápur og borðstofuborð á leiðnni og ekki gert ráð fyrir jukku í þeim stíl.

Mamma tók á það ráð að saga jukkuna í sundur og setja í tvo potta svo auðveldara væri að koma í hana lífi á ný. Inn í herbergið mitt fékk ég því tvo stóra plómapotta fulla af fölnaðri jukku. Ég hlúði að jukkunum mínum eins vel og ég gat en fljótlega fór þó annar helmingurinn... hinn helmingurinn náði sér á skrið og lifði í tvö ár, alltaf hálf ræfilslegur þó. Það var mikil sorg þegar ég gafst upp fyrir móður náttúru, játaði mig sigraða og lét jukkuna fara...

Blessuð sé minning hennar og megi hún hvíla í friði... 

Svo fór fólk að flytja að heiman og fjölskyldan minnkaði, það kallaði á aðra flutninga. Í það skiptið ákvað mamma að hafa vaðið fyrir neðan sig og lét mig koma heim og fara í gegnum allt dótið í geymslunni, svo það væri örugglega ekkert sem ég hefði tengst tilfinningaböndum sem hún væri að henda. Ég varð þó að láta í minni pokann varðandi ýmislegt... mölétna bangsa sem hún neitaði að geyma kvaddi ég með tárum, poki af dúkkufötum hlaut sömu örlög... gömul náttföt, götóttir strigaskór.. Þessi sorpuferð var ákaflega sorgleg og tilfinningarík stund...

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að geymslan hjá mér er full og allir skápar og allar skúffur! Ég get ekki hent dóti! Það er alltaf eitthvað.. æ þetta minnir mig svo á þetta, ohhh ég man eftir þessu... osfrv. Ég á allskonar minningakassa frá hinu og þessu tímabili, gamla ballmiða frá því úr FB, armbandið af fyrstu Þjóðhátíðinni minni, söngbækur úr vindáshlíð, hnýtt vinabönd og svona mætti lengi telja... ÞAÐ ER GAMAN AÐ SKOÐA ÞETTA! og ég geri það meira að segja stundum... 


Afleiðingar svefnleysis og ritgerðarskrifa...

Ég er svo soðin á tánum að táfýlu leggur um allan skólann, þá er ég einnig svo svo sveitt í eyrunum að heyrntólin sem veita ljúfri lærdómstónlist þangað inn, haldast bara ekkert þar, heldur renna út. Kenni ég líka afar smávöxnum eyrum um....

Það sem orsakar þetta er skrifandinn! Hann kom yfir mig og ég skrifaði sem enginn væri morgundagurinn... 

...en nú er morgundagurinn kominn og gærdagurinn mun svo sannarlega koma í bakið á mér þegar ég vakna á nýtilkomnum morgundegi... því ég er afar lítið sofin og mín bíður 11 tíma vinnudagur í þjónustustarfi...

En markmiði gærdagsins var náð og ég fer sátt í rúmið... 


Þverpólitísk sambönd

Þverpólitísk sambönd hafa alltaf verið mér afar hugleikin, þá á ég ekki endilega við ástarsambönd, heldur bara hverskyns bönd sem túlka má sem sam-eitthvað.... En ástarsambönd eru mér að sjálfsögðu efst í huga, en ekki hvað!?

Á mínum virkustu Röskvuárum var það mér til dæmis mikið hjartans mál að reyna að koma saman Röskvu-Vöku pari og sjá sambandið standast álagið og jafnvel þróast í í kosningabaráttu! Ég einhleyp og hugguleg stúlka á uppleið bauð sjálfa mig að sjálfsögðu fram í tilraun þessa, enda ævintýragjörn með eindæmum. Féll hugmyndin í ágætan jarðveg röskvumegin og átti ég alveg dygann stuðningshóp varðandi þetta málefni.

Einhvernveginn fannst vökuliðum þetta greinilega ekki jafnspennandi hugmynd eða þá að ég var fullkomlega misskilin, því ítrekað kastaði ég mér í fangið á hverjum piltinum á fætur öðrum en ekkert gerðist, engin viðbrögð. Vökuliðar hafa jú nokkru sinnum vaknað á heimili röskvuliða, og öfugt eftir þverpólitísk partýhöld. Veit ég þó minnst um hvað gerðist áður en vaknað var og því síður hvað gerðist áður en svefninn kallaði, læt ég það því liggja kyrrt mili hluta. Þykir mér þó ástæða til að taka það fram að ég var ekki ein af þessum þverpólitískt vaknandi aðilum.

Eftir að ég hætti í röskvu er fólk þó farið að para sig saman milli fylkinga og þykja mér það gleðitíðindi og hvet eindregið til áframhaldandi blöndunar þessara tveggja hópa. *klappi, klapp* segi ég bara! Þetta fær mig þó til að leiða hugann að því hvort mistökin á sínum tíma hafi falist í að senda mig í þessa pílagrímsför til þverpólitískra sambanda...

Ég mun allavega halda áfram að lofsama þverpólitísk sambönd af hverju tagi og reyna að stuðla að þeim með öllum þeim hætti sem mögulegt er. Það er alveg nauðsynlegt að fara ekki að kasta grjóti í félaga sína hinu megin þó að það líði að kosningum...

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir... og jafnvel meira en það!


Master of disaster

Mér tekst ýmislegt.... Nú er mér td búið að takast að ná mér í einhverja fjandans pest, rosalega heppilegur tími fyrir slíkt, þar sem prófin eru að detta inn og svona... Mér tókst að fara út á lífið síðasta vetrardag.. mér tókst meira að segja að gera mig ofboðslega sæta áður og allt... mér tókst að drekka ótæpilega mikið af fríum bjór... alltaf er það bölvun... þá tókst mér að ræða ótæpilega mikið um pólitík í crowdi sem kannski hafði ekkert rosalega mikinn áhuga á pólitík... mér tókst að koma Samfylgingunni vel að í þeirri umræðu og tókst að fanga áhuga þessa fólks sem ekki hafði upphaflega verið að deyja úr spenningi yfir heitum pólitískum umræðum... mér tókst að kíkja á Ölstofuna í heilar 5 mínútur... þar tókst mér að vera rukkuð fyrir 5 bjóra, 4 bjórum of mikið... sökum þess tókst mér að skvetta pínu bjór niður og tókst að fá til baka heilt bjórglas yfir mig, ekki bara bjórinn heldur glasið sjálft líka... tókst þar af leiðandi að fá leiðindaskurð á hendina eftir glerbrot... út af þessu veseni öllu saman tókst mér að vera hent öfugri út af ölstofunni, í leiðinni tókst mér að draga út tvo herramenn sem ekki voru neitt allt of sáttir við örlög sín... mér tókst þó að fá þá að mitt band og draga þá með mér á Barinn... Eftir það tókst mér ýmislegt fleira sem varla er prenthæft... en mér tókst allavega á fá lögreglu á staðinn og mér tókst að verða vitni af yfirgangi, hótunum og ósanngirni lögregluþjóna... En umfram allt, sem var allra best.. þá tókst mér að komast heil á húfi heim í rúmið mitt...

Mér tókst líka að taka þá ákvörðun í gær að djamma ekki neitt og innbyrða ekki öl fyrr en 12. maí næstkomandi... Þá ætla ég að vona að fyrir þann tíma takist mér að massa eins og eitt verkefni og aðeins af prófum... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband