Færsluflokkur: Dægurmál

Sólrún fór í ræktina...

Jæja er ný færsla ekki málið...  ég má ekki bregaðst æstum aðdáendum sem ætluðu alveg að missa það yfir skyndilegri og óvæntri endurkomu minni í bloggheima á síðustu dögum þessa herrans árs!

 

Ég fór í hina árlegu ferð mína í ræktina í síðustu viku... í þetta skiptið voru það Laugar, en þangað hafði ég ekki komið áður nema bara til að láta dekra við mig í Baðstofunni. Enda er það svona eiginlega meira minn stíll. En nú verður víst breyting þar á! Ég er óvart búin að skuldbinda mig til að gjöra svo vel að mæta að minnsta kosti einu sinni í viku niður í Laugar og láta skanna í mér augun... 

Ég verð þó seint einhver líkamsræktarfrík og ég er alveg sannfærð um að þegar fólk segir: áhugamál mín eru.. að fara í ræktina! Þá er það kláralega að ljúga... En jújú það er víst nauðsynlegt að hreyfa sig og ég ætla að reyna að rölta á bretti þarna niðurfrá að lágmarki einu sinni í viku. Svona yfir eins og allavega einum Friends þætti. Ég hitti reyndar á svo spennandi fréttaskýringaþátt á einhverri sjónvarpsstöðinni þarna um daginn að ég gleymdi mér um stund og hálfpartinn fauk af brettinu þegar staldraði við til að vera hissa yfir einhverju. Sem betur fer var ég ekki á mikilli ferð og tel ég það hafa orðið egói mínu til mikils happs...

 

Annars þá horfði ég á Pretty woman um daginn og viðurkenni það hér með að það var í fyrsta skipti sem ég sá hana alla... Fór svona í framhaldinu að velta fyrir mér hvort vændi hefði ekki aukist hjá ungum stúlkum þegar þessi mynd var sem vinsælust. Ég sé alveg fyrir mér að ungar stúlkur hafi séð þetta í hillingum... vonin um að hitta eins og einn Gere á götunni. eða hvað? Nei ég segi svona...


Jájá er ekki fínt að byrja bara aftur að blogga svona á tímum svartasta skammdegis og sívaxandi kreppu, held það nú!

Fór í síðasta prófið mitt í HÍ í dag (vonandi allavega! *krossafingur, krossafingur*) og líka það allra, allra leiðinlegasta. Gagnagreining, sambönd og fylgnistuðlar, gubb.. Áttaði mig á því mér til mikillar skelfingar kl. 09:01, eða þegar ein mínúta var búin af prófinu, að ég hafði gleymt reiknivélinni minni heima! Mér sortnaði fyrir augum og fékk allsvakalegar hjartsláttatruflanir af geðshræringu áður en ég gat með grátstafinn í kverkunum spurt indæla, indæla yfirsetumanninn hvort það væri möguleiki að redda, með einhverjum ráðum reiknivél handa mér, grát... Hvað haldiði að maðurinn hafi dregið upp úr töskunni sinni!? Taramm! Þessa líka fínu reiknivél, jeij! Ég hætti því að snökta og hófst handa við að reikna prófið eins og vindurinn.

Annars þá áskotnaðist mér þessi líka fíni örbylgjuofn um daginn. Ég nenni alveg engan veginn að útskýra það hvernig ég eignaðist hann enda munu fáir skilja mig. En hann er minn! Og nú örbylgja ég allt áður en ég set það upp í munn og ofan í maga. Er búin að prófa mig áfram með hinar ýmsu örbylgjupizzur og svo hitaði ég gamlar kleinur upp um daginn, þær voru sko betri en nýjar svona örbylgjaðar! Keypti mér svo butter örbylgjupopp áðan og núna í þessum skrifuðu orðum er ég einmitt að poppa það upp. Það er alveg drulluvond lykt af því, einhver svona gubbufýla... en hinkrið aðeins... mmm það er mjög gott! Og viti menn það eru meira að segja færri kalóríur í þessu butter stöffi heldur er venjulegu söltuðu! Hver hefði trúað því? Jahh ekki ég allavega, fyrr en núna...

En jæja ég ætla að horfa á ANTM og gæða mér á þessu dýrindis poppi..

Later! 


BLOGGANDINN DÓ

...

Sumar, sumar!

Það er svo yndislega ljúft að vera í fríi á virkum dögum! Ég er búin að flatmaga í sólinni á sundlaugarbakkanum í Laugardalnum síðustu tvo daga án þess að lenda í nokkrum slagsmálum um sólbekki, án þess að vaða líkamshárin upp að ökklum í búningsklefanum og án þess að rassinn á mér snerti aðra rassa! Og það var alveg roooosalega notalegt! Það var alveg svo roooosalega notalegt að ég gleymdi mér aðeins og lít núna út eins karfi sem roðnaði yfir einhverju afar dónalegu!

Konan í apótekinu hló að mér þegar ég kom skömmustuleg með stóran brúsa aloe vera brunageli að borðinu til hennar... 680 kr... fliss, fliss...

Nú ligg ég heima þakin löðrandi þykku lagi af aloe vera brunageli, sötra klakavatn og horfi á Friends!

Var einmitt að byrja á Friends frá upphafi.. en þó bara þegar sólin er farin! Ég nýti sólina alveg meðan hún skín og gríp svo í Friends þegar hún er farin.. Og bara tveir mánuðir og 9 dagar í Marmaris! jeij!!

 


New era...

Ég er tilfinningarík manneskja með eindæmum, þá er ég líka hvatvís, bráðlát, ýtin, æst og fljótfær... veit ekki hversu vel þessi skapgerðareinkenni fara saman en tilfinningaríki parturinn er líklega sá sem veldur mér mestum vandkvæðum í lífinu. Ég kenni honum hiklaust um það að stundum segir fólk að ég sé dramadrottning, ég er auðsærð og oftast auðplástruð, ég tárast yfir tónlistarmyndböndum, tengist dóti tilfinningaböndum, ég ofhugsa alltaf ef og hefði og stundum þarf ég bara að fá að skæla..

Já það er ég...

Og síðast en ekki síst þá á ég rosalega erfitt að sleppa hendinni af tímabilum. Ég á erfitt með að sætta mig við að ekkert er eilíft og lífið er hverfult. Ákveðnum tímabilum lýkur bara án þess að ég geti nokkuð um það sagt eða í því gert. Tíminn bara líður...  Í hita leiksins er ég því alltaf að hugsa hvað það verði nú leiðinlegt þegar þessu ákveðna tímabili lýkur og spái stanslaust í því hvað taki við..

Tímabil eins og landsliðstímabilið í Melabúðinni þegar við allar saman, Ég, Helga, Dóra, Sunna og Hrund stóðum kvöldvaktirnar í kjötborðinu og stofnuðum landsliðið í pökkun og plöstun. Öll Melabúðarpartýin, allir súru búðabrandararnir eins og brauðungur við geitbarinn og slið og svátur... og síðast en ekki síst allt dramað, sem að sjálfsögðu var oftast í boði SólrúnarWhistling

Svo má minnast á gullárin í Röskvu sem einkenndust af endalausri framkvæmdagleði og hugmyndaauðgi. Allar ógleymanlegu bústaðaferðirnar, ég hef aldrei, sannleikurinn eða kontór, Rösquizið á Stúdó sem oftar en ekki leiddist út í Jungle speed og jafnvel eftirpartý á góðum miðvikudegi. Stofnun Miðbarsfélagsins í kjölfar tíðra klósettferða á Miðbar í kosningabaráttu 2005. Félagið fékk sér reglulega bjór á Miðbar, fór á trúnó og svo í eftirpartý og sleepover. 

Gullárin í Röskvu blönduðust síðan Amokkatímabilinu þar sem við Eva María dældum bjór ofan í KB-gaurana í Borgartúni á föstudagseftirmiðdögum. Við eignuðumst þar ágætisfélaga og fórum fljótlega að drekka bjórinn með þeim og taka þátt í veðmálum sem við höfðum engan veginn efni á. Eftir það rúllaði ferðasumarið inn, Ferðafélagið Döfin var stofnað sem hafði mikil og stór plön um starfsemi sína enda heilmargt á döfinni... Skelltum okkur á Góða stund á Grundó þar sem við gistum með glæsibrag í Gula hverfinu og mættum með VIP miða á Sálarballið í félagsheimilinu. Trylltum svo lýðinn á Þjóðhátíð í Eyjum með stökum á heimsmælikvarða...

Svo var það hressa Símadjammtímabilið sem blandaðist nýja stjórnmálafræðitímabilinu þar sem ég kynntist endalaust mikið af nýju og frábæru fólki.. allskonar kokteilboð, afmælisboð, haustfagnaðir, jólaglögg, sony djömm, búðadjömm, vorfagnaðir. Eintóm gleðigleði! Við Símastelpurnar bættum svo um betur með hinum ýmsu þemakvöldum á borð við kokteilakvöld, mexíkókvöld og sushikvöld. Við þetta má líka bæta dassi af drama að hætti SólrúnarHalo

Nýja stjórnmálafræðitímabilið blandast svo síðasta árinu í stjórnmálafræðinni. Það má segja að það hafi einkennst bæði af glaum og gleði og tárum og trega, enda margt búið að ganga á. Glaumurinn og gleðin er þó að sjálfsögðu tárunum og treganum yfirsterkari. Vísindaferðir, partý, Bandaríkjaferð og meira af frábæru fólki... En nú er þetta líka búið. Það má næstum segja að þessum kafla sé formlega lokið þrátt fyrir að ég klári stjórnmálafræðina ekki alveg strax. Þetta tímabil sem hófst í mars í fyrra er búið.. Og hverjum kemur á óvart að örlítill hluti þess hafi einkennst af smávægilegri dramatík..Blush

Einhverra hluta vegna er ég þó ekkert í sömu tilfinningahrúgu krísunni eins og oft áður þegar ég veit ekki hvað tekur við.. ég er eiginlega bara frekar slök og sátt. Finnst ég alveg geta sleppt hendinni af þessum kafla án þess að trega hann eitthvað mikið. Þetta er búin að vera svolítil rússíbanareið með aldeilis nóg af óvæntum uppákomum.. En samt sem áður frábær tími sem inniheldur margar minningar sem munu ylja mér um hjartarætur um ókomin ár.

Svo nú er það bara nýtt tímabil! Hver ætlar að stofna með mér nýtt félag!? Hver ætlar að hjálpa mér að gera þetta tímabil eftirminnilegt!? Hver vill vera memm!?

 


0% transfat...

Ég fíla New York í ræmur og eru þar margir þættir sem spila inn í. Má þá nefna þá staðreynd að New York er transfitulaust ríki! Þú getur bara verið viss um að hvað sem þú kaupir þá er það laust við alla transfitu! Er það ekki bara gargandi snilld á þessum síðustu og verstu þegar stíflaðar kransæðar eru að ganga af okkur dauðum!? Það held ég nú! Segi ég og skrifa eftir að hafa borðað egg og beikon í annað sinn á innan við sólarhring... en það er önnur saga...

Ég tönnlaðist á þessari frábæru staðreynd um transfituleysi New York borgar meðan ég maulaði á transfitulausa Pringles-inu mínu í eldhúsinu í Harlem og fannst ég bókstaflega verða heilbrigðari með hverri mínútunni, bara af því vitandi að transfitan væri ekki að kíttfylla á mér kransæðarnar... skítt með allt annað! Sagði ég og skolaði Pringles-inu niður með vel aspartamaða Kók Zeroinu mínu og fannst það lítið tiltökumál...

Ég meina það er allavega vitað um skaðsemi transfitunnar... það er eitthvað á mörkunum með aspartamið... 

 

donut

Stelpan á Dunkin' Donuts í New York, transfat free, pælið í því!

 


MYNDIR, MYNDIR!!

Ég gleymdi að segja ykkur að ég er búin að setja myndir úr Bandaríkjaferðinni inn á Facebook og það geta allir skoðað, hvort sem þeir eru með feis eða ekki!

 

MYNDIR!

 


Gleðilega páska!

Þetta er páskaeggið mitt...

 

 

 

....það er númer 4 og frá Nóa Síríus, að sjálfsögðu!

 

Fékk það að gjöf frá vinnunni fyrir nokkrum dögum og er alveg búin að vera að hemja mig að opna það ekki strax.. Þrátt fyrir að eiga nammibirgðir fyrir lífstíð.. Lindorkúlur, M&M, slatta af lífrænu súkkulaði úr Whole foods, nóa lakkrískúlur og margt fleira þá er einhvernveginn miklu meira spennandi að borða páskaegg!

Fyrir nokkrum árum hefði ég nú svo ekki samþykkt að fá bara eitt egg nr. 4, það varð að vera að minnsta kosti nr. 5... en maður hefur nú aðeins þroskast, eitt nr. 4 dugir mér í dag og vel það. Enda sælgæti ekki eins mikil munaðarvara og það var á mínu heimili þegar ég var krakki.. Ég man alltaf hvað það var fáránlega spennandi þegar mamma keypti Lion bar og Sprite sem við fengum að borða yfir Matlock á föstudögum... good old times...

Ég ætla að halda út í kvöld og fara rétt að þessu.. það má ekki byrja á egginu fyrr en að morgni páskadags! 

paskaungar


NY og DC

Jæja þá er ég komin heim úr fáránlega skemmtilegri námsferð til New York og Washington, maður er hálf einmana núna eftir að hafa verið með þessum skemmtilega hóp 9 daga og 9 nætur... stanslausar fræðsluferðir, út að borða, út að djamma, alltaf einhver til að leika við og fara með í brunch, mjög huggulegt. Ferðin var bæði miklu áhugaverðari og miklu hressilegri en ég bjóst við...

 

026

Flugið út var fínt og tíminn hreinlega flaug áfram... lentum reyndar í brjálaðri ókyrrð og skrapp saman í sætinu af hræðslu.. einn ferðafélaginn ítrekaði þó svo oft að flugmenn væru þjálfuðustu menn heims að ég gleymdi því hvað ég var hrædd..  þegar við lentum á JFK í NYC þá tók hressileg rigning á móti okkur og hér til hliðar má sjá Eddu og Steina eins og hunda dregna af sundi fyrir utan krúttlega húsið okkar í Harlem.

Það vildi svo skemmtilega til að það var verið að breyta yfir í sumartíma akkúrat daginn eftir að við komum og við gátum með engu móti áttað okkur á því hvort væri verið að flýta tímanum eða seinka honum og skapaði þetta mikið öngþveiti og nánast sundrung í hópnum þegar við rifumst yfir því hvað væri rétt.. fyrstu dagana ráfuðum við um í algjöru tímaleysi og vissum ekkert hvað tímanum leið því erfiðlega gekk að fá botn í málið. Kennum við misvísandi upplýsingum þar um.. áður en dagskrá hófst á mánudaginn var þetta þó komið á hreint og allir virtust sáttir við niðurstöðuna.. tímanum hafði verið flýtt um einn klukkutíma, degi seinna en við við héldum..

Rigningarsuddi og þoka hamlaði töluvert útsýni okkar í borginni fyrstu dagana og ákváðum við því bara að best væri að halda okkur innandyra.. í verslunum semsagt.

 

 

038

 

 

 

 

 

Hér má sjá mig og Eddu á gatnamótum 5th av. og 34th st. með afrakstur dagsins. Duglegar vorum við, það fer ekki á milli mála. Þarna var líka farið að stytta upp og birta til og eintóm gleði framundan!  Þvílíkt og annað eins samt sem þetta búðarráp tók á og þegar Sólrún er farin að stynja yfir búðarrápi.. þá erum við að tala um að komið sé nóg.

 

 

 

 

 

 

 

 072

 

Svo kíktum við að sjálfsögðu á Times Square! Ekki láta samt blekkjast af sólgleraugunum, það var gluggaveður dauðans og ef betur er að gáð þá má sjá að ég er hálf blá í framan af kulda!

Þetta var góður dagur þrátt fyrir kuldann, fórum í Central park og fundum Strawberry fields fyrir Eddu, fórum í Lindt búðina á 5th av. fyrir Freyju og kannski aðeins fyrir mig líka og ekki fannst Njalla heldur Lindorið vont... og svo fórum við líka í H&M fyrir mig:) 

 

 

 

109

 

 

Þarna er svo Sollan í Sameinuðu Þjóðunum, það var áhugaverður túr þrátt fyrir að gellan sem fór með okkur um bygginguna talaði eins og hún væri forrituð.. fyrr um morgunin höfuðum við hitt fulltrúa Íslands sem fræddi okkur um umsókn Íslendinga um sæti í Öryggisráðinu og hvernig það ferli fer fram.

 

 

 

113

 

 

Við heimsóttum líka CNN í New York og Njalli skellti sér í Lou Dobbs settið og tók sig mjög fagmannlega út. Af þessari mynd að dæma gæti maður haldið að hann væri vanur að stýra sínum eigin sjónvarpsþætti! 

Seinna um daginn heimsóttum við svo seðlabankann, tókum vitlausar lestir og færðum okkur um set yfir til til Washington...

 

 

 

144

 

Þarna erum við mætt í blíðviðrið í Washington, tókum fyrsta daginn í minniskmerkja leiðangur eftir að hafa farið í Alþjóðbankann um morguninn. Á þessari mynd er ég stödd við minniskmerki þeirra hermanna er létust í Víetnamstríðinu en nöfn þeirra allra eru grafinn í þennan vegg.. sem er mjög langur og nöfnin þéttskrifuð..

 

 

 

 

 165

 

 

 

Krakkarnir að tjilla á tröppunum hjá Abraham Lincoln, þvílíkt gott veður sem við fengum. Strákarnir voru farnir að fækka fötum á þessum tímapunkti, það er þó ekki að marka Daða enda var hann á stuttermabol alla ferðina, sama hvernig veðrið var...

 

 

 177

 

Og the girls að tjilla í World war II minniskmerkinu, stuttu síðar fækkuðum við líka fötum því hitinn var að verða óbærilegur, lágum svo í sólbaði í minnismerkinu um stund meðan strákarnir gerðu tilraun til að fara upp í Washington monument.. sem kom í ljós að er ekki hægt nema að kaupa miða með einhverjum fyrirvara... 

 

 197

 

                                                                            

Þarna er maður með Hvíta húsið í bakgrunni og svo sá ég svo krúttlega íkorna og myndaði þá í tætlur, ég lofa að blogga sérstaklega um íkornana og setja inn allar myndirnar sem ég tók.. ég veit að það er beðið eftir því... sjáið hvað hann er mikið krútt!

 

218

223

Svo hitti ég Obama... eða næstum því.. ég flaðraði upp um hann allan og gerði mér dælt við hann, hann virtist lítið kippa sér upp við það og brosti bara sínu breiðasta... 

 233

Og þarna erum við að tala um Cosmo... mmm Cosmo, Sólrún fékk sér nokkra þannig í ferðinni...

 

370

 

 

 

 

 

Steini fékk sér líka Cosmo! Ég kom af stað algjöru trendi og að sjálfsögðu var Njalli ekki minni maður og skellti sér á einn! Strákarnir með Cosmo eru næstum jafn mikil krútt og íkornarnir!

 398

 

Verandi í Ameríkunni þá æfðum við stúlkurnar sjálfsögðu heitar pósur fyrir Americas next top model. Eða Ástríður og Ásthildur voru kannski meira í því, ég var bara eitthvað að flissa..

                                         

245

 

                      

 
 
 
 
 
 
 
Þetta er tölvukosturinn hjá Washington Post.. hann virkaði nú ekki upp á marga fiska.. allt umhverfið var eins og klippt út úr 7. áratugnum.. en hvað sem því líður áttum við mjög áhugavert spjall við blaðamenn um kosningarnar og pólítikina almennt, það var mjög skemmtilegt og fróðlegt.
 
                                                                                            Á leið okkar frá Washington Post og yfir í Plexus lentum við nánast inn í crime scene! Það sem við fengum að vita var að það hafði fundist grunsamlegur pakki sem reyndist svo vera rangt, þetta var í raun sprengjuhótun og við fréttum síðar um daginn að lögreglan hefði skotið þann sem hótaði að sprengja. Við heyrðum hvellinn og allt en áttuðum okkur ekki á því að um skothvell væri að ræða.. allt rosalega spennandi...
 
263
Þessi lögreglumaður hér til hliðar
er nú ansi vígalegur... 
 
 
276
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Við fórum í Plexus sem er svona lobbyista fyrirtæki, lobbyar fyrir ýmsum málum. Þeir hafa meðal annars tekið að sér verkefni fyrir ríkisstjórn Íslands um bætta ímynd í hvalveiðimálum . Áhugaverð kynning og ekki spillti fyrir að þeir buðu upp á frábærar samlokur og drykki. Plexus kann sannarlega að taka á móti gestum.
 
287
Svo fórum við á Capital hill og heimsóttum þinghúsið. Fengum tvítugan strák, intern hjá þingmanninum og repúblikananum Christopher H. Smith frá New Jersey, til að fara með okkur í túrinn. Hann var algjör spaði og fannst við svaka kúl að vera frá Íslandi en hafði þó ekki mikla trú á að við vissum eitthvað um bandaríska stjórnmálasögu..
 
Myndin til hliðar er tekin á svölum þinghússins, frábært útsýni og geðveikt veður! Ég elska Washington! 
 
 Eftir þetta skelltum við stelpurnar okkur svo niður í Georgetown til að versla aðeins meira.. okkur fannst við ekki alveg hafa fengið nóg í NYC. Georgetown er líka ofboðslega krúttlegur, allt svona lítið og sætt og gaman að labba þar um. Fórum líka á gamaldags ekta amerískan hamborgarastað og fengum okkur burgers og cheese fries, mmm...
 
325
 
 
Það vildi svo skemmtilega til að vinur hans Indriða kennara var með tónleika í Washington meðan við vorum þar, aðeins spölkorn frá hótelinu. Svo óheppilega vildi þó til að við misstum af tónleikunum þrátt fyrir að vera mætt vel tímanlega.. þeir voru bara í öðrum sal.. það skemmdi þó hreint ekki fyrir okkur kvöldið og áttum við góðar stundir á þessum eldrauða bar.
 
 
 
Við Edda vorum með varalit í stíl við barinn, alveg fáránlega sexý myndi ég segja, rautt er klárlega málið í vor!
Njalli og Indriði voru líka vel sprækir þrátt fyrir að hafa misst af tónleikunum. Þetta kvöld komst það á hreint að Steini heitir í raun Ste332ingrímur en ekki Eysteinn... Takið líka eftir Amstel bjórnum.. þetta kvöld komumst við líka að því að Amstel light er ekki bara light í kalóríum heldur líka í áfengisprósentum, þetta sannaði Steini eftir að hafa drukkið átta!
 
 
 336
                                                                                                                                                               
 
 Hér að neðan erum við Edda (pönkarinn og bókasafnsfræðingurinn) enn einn blíðviðrisdaginn í Washington, síðasti dagskrárdagurinn og var farið í íslenska sendiráðið  og  svo utanríkisráðuneytið.
Laugardagurinn sló svo allt út í veðurblíðu. Eins og þið sjáið hér að neðan þá var hlýrabolaveður og við vorum að stikna! Vorum öll sólbrennd og eldrauð eftir daginn, litum frekar út fyrir að vera að koma frá Flórída en Washington... 
 
En jæja ég læt þetta duga í bili, ég þakka ferðafélögum mínum fyrir frábæra ferð, hefði ekki viljað fara með neinum öðrum en ykkur krúttin mín! 
   
344409

Hún mamma mín.. hún er nú alveg met!

Mamma er er vel þekkt fyrir það að vera mjög nýtin og hagsýn kona. Hún hefur lítið verið að bruðla með neitt í gegnum tíðina enda hvorki haft á því tök né löngun. Stundum gengur hún þó svo langt að mér blöskrar og tek ég þá í taumana. Fyrst þegar ég tók hana í gegn þá var ég að hennar mati bara til ama og leiðinda og fannst henni þetta bölvuð vitleysa í mér en núna í seinni tíð er hún farin að hlusta á og hlýða frumburðinum sínum... Sem oftar en ekki hefur lög að mæla.

Núna áðan þá vantaði mig rúskinnsbursta til að bursta loksins Októberfestleðjuna af stígvélunum mínum.. og komst ég þessvegna í skóáburðarkassann hjá henni... Þar kenndi skal ég segja ykkur ýmissa grasa og féllust mér hendur við hvern þann brúsa og dollu sem ég tók upp úr kassa þessum! Kassinn er alls ekki gamall, þetta er rosalega smart bastkassi, fóðraður að innan og allt. Í stíl við alla aðra geymslukassa á heimilinu, enda mamma alltaf með allt í stíl... (sem er efni í aðra sögu)

Upp úr þessum smarta hvítfóðraða mjög svo nýlega bastkassa kom meðal annars, vínrauður skóáburður... sem samkvæmt verðmiðanum var keyptur ansi vel fyrir myntbreytingu í verlsuninni SM.. þrátt fyrir miklar vangaveltur þá tókst okkur ekki að tengja SM við neinar minningar úr fortíðinni. Svo var þarna molnuð skósverta keypt í Hólagarði... Hólagarður varð að Hagkaup í upphafi níunda áratugarins að mig minnir.. og einhvernveginn grunar mig að þessi skósverta hafi ekki verið keypt á síðustu lífdögum Hólagarðsins gamla góða... heldur eitthvað fyrr... svo dróum við upp eitthvað sem heitir "sneaker shampoo" ... þarf ég að segja mynd af hvernig skó var framan á.. háir Reebok skór með frönskum að ofan eins og hafa farið hring og eru komnir aftur í tísku! Þetta er sko aðeins brot af því sem við fundum þarna, eitthvað var verðmerkt úr Miklagarði, MIKLAGARÐI! Mammar er stundum rosaleg í nýtninni. Þetta er meira að segja ekki einu sinni nýtni því þetta hefur klárlega ekki verið nýtt neitt síðastliðinn áratug eða svo. Bara verið flutt á milli kassa með þessu  hugarfari: já þetta er nú fullur brúsi, maður hendir ekki fullum brúsum... Maður geymir þá frekar þangað til þeir löglega teljast til antíkmuna!

Að sjálfsögðu var það frumburðurinn Sólrún sem tók af skarið og ákvað að þessu yrði henti í snarhasti. Bannaði systir minni að pota í óþverrann, enda örugglega spilliefni af verstu sort. En henni fannst þessar vörur, keyptar fyrir sína tíð afar áhugaverðar og verðið! 39,50 kr...

Svipað atvik átti sér stað þegar ég komst í kryddskápinn hennar mömmu í flutingum fyrir nokkrum árum.  Þar tók ég sko alveg pakkann: ætlarðu að drepa okkur!! þetta er notað í mat!! Í kryddskápnum fann ég krydd sem meðal annars var best fyrir '86 já... NÍTJÁNHUNDURÐÁTTATÍUOGSEX! Það krydd hafði reyndar að sögn móður minnar ekki verið notað mjög nýlega.. en nokkrir kryddstaukar örlítið yngri hef ég staðfestar heimildir fyrir að hafi verið í reglulegri notkun! Í skápnum mátti líka finna Royalbúðinga komna á annan áratuginn ásamt Jello-i sem sumir kannski muna eftir og var ófáanlegt á landinu lengi vel. Háöldruð lárviðarlauf fengu líka að fjúka í þessari grisjun..

Þetta var rosalegt sko en mömmu fannst viðbrögðin hjá mér heldur ofstækisfull og sagði að það væri allt í lagi með þetta, enda værum við öll í fullu fjöri enn... 

Ég tek það fram að mamma er mjög þrifaleg kona sem þrífur allt hátt og lágt allavega einu sinni í viku, en að henda einhverju sem er fullt hefur alltaf reynst henni erfitt og hefur þá litlu máli skipt hver best fyrir stimpillinn er. Það er kannski frekar réttara að segja að hún bara pælir ekkert í því! Þetta er fullt og þá er þetta notað! Og maður leifir ekki mat!

Það er ekki óalgengt að sjá eina litla skorpnaða og uppþornaða pylsu vafða inn í plastfilmu í ískápnum hjá mömmu. Þegar ég sé slíkt þá hrifsa ég hana út og veifa framan í hana og spyr hverjar líkurnar á því að þetta verði borðað séu.. Mamma tekur þá til við líkindareikninginn og borðar hana sjálf bara til að sanna mál sitt, sem er að skorpnuð pylsa sé jafn góð og nýsoðin pylsa!

Já hún mamma hún er svo ágæt...

 IMG_0910

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband