Góðir grannar

Jæja nú er fólki á hæðinni fyrir ofan að flytja út... ég segi ekki loksins, enda er búið að vera ágætt að hafa þau þarna fyrir ofan. Allavega svona eftir að ég og húsbóndinn þar náðum sáttum án þess að til handalögmála kæmi. En það munaði ansi mjóu síðastliðið haust þegar þau stóðu í flutningum og endurbætum á íbúðinni. Þá stunduðu þau það ítrekað að skrúfa fyrir vatnið í húsinu í tíma og ótíma, mér til mikillar armæðu. Maður var kannski í miðri sturtu, varnarlaus með hárið fullt af sjampói þegar vatnið hætti skyndilega renna. Algjörlega ófær um að skola sjampólöðrið úr hárinu á mér án vatns þá varð ég að gjöra svo vel að vippa mér úr sturtinni, vefja um mig handklæði og krossa fingur yfir því að þetta væri mjög tímabundið ástand... sem þetta var oftast, nokkrar mínútur í senn eða svo. En þegar þetta var farið að gerast ítrekað og ég jafnvel farin að klára áhorf á heilu sjónvarpsþættina með sjampólöðrið í hárinu þá setti ég hnefann í borðið, nú var nóg komið af vatnskúgun nágrannanna!

Þegar ég í eitt skipti var á mikilli hraðferð og þurfti nauðsynlega í sturtu og svo út, þá gerðist það, vatnið fór af og ég með næringuna í hárinu. Já nei! með handklæðið á hausnum skellti ég mér í slopp og æddi upp á næstu hæð þar sem ég barði hressilega að dyrum, hurðin var rifin upp og mér birtist tryllingslegt augnaráð óðs manns, að mér fannst. Mér dauðbrá og úr mér var allur vindur þegar ég starði í þessu trylltu augu en þegar ég fann hvernig hárnæringin lak niður í augað á mér undan handklæðinu og orsaka þannig óstjórnlegan sviða þá herti ég snögglega upp hugann!

"Fyrirgefðu en eru það þið sem eruð alltaf að taka svona vatnið af án þess að láta vita? Soldið óþægilegt fyrir mig sko og örugglega aðra í húsinu" sagði ég eins yfirvegað og ég mögulega gat en samt með örlitlu pirringsívafi.

Maðurinn gjörsamlega sprakk í andlitið á mér! Trylltu augun urðu blóðhlaupin af æsingi þegar hann gargaði á mig að það hefði sko sprungið helvítis rör hjá þeim og hvort væri nú mikilvægara að ég kæmist í sturtu eða að parketið hjá sér eyðilagðist??!! Ég reyndi eins yfirvegað miðað við aðstæður, með hárnæringuna í auganu að segja honum að mér þætti vænt um að fá að skola á mér hárið og að reyndar kæmi mér parketið hjá honum ekkert við og hvort það hefði verið að springa hjá honum rör daglega því að ég væri nú að lenda í því á hverjum degi að komast ekki í almennilega sturtu! 

Á þessu augnabliki var maðurinn orðinn svo trylltur að pabbi hans var farin að blanda sér í málin og biðja hann að róa sig... og ég ákvað að það besta í stöðunni væri eiginlega bara að koma mér í burtu meðan það væri ennþá hægt. Bakkaði ég því hægt og rólega niður stigann meðan maðurinn hraunaði yfir mig og mína ógeðslegu sjálfelsku. Hann tók þá líka upp á því að elta mig niður og ég varð eiginlega bara hrædd og var farin að hrauna yfir hann og hans sjálfselsku móti, bara svona til að verjast.

Við fórum að hnakkrífast og steyta hnefum en þegar hann fór að hafa í hótunum við mig um að gera mér lífið leitt þá hélt nú ekki og sagði mannfýlunni að hann skyldi ekki voga sér að hóta mér því ég þekkti fólk sem hann vildi ekki lenda í. (veit ekki hvaða fólk....) en eitthvað varð ég að segja til að maðurinn færi ekki að siga sínum handrukkurum á mig, betra var að hann hræddist mína....

Með þessum orðum mínum um fólkið sem ég þekkti skellti ég hurðinni á hann og læsti... hann barði nokkru sinnum á hurðina sem ég stóð fyrir innan með tárin og hárnæringu í augunum, skjálfandi af kulda og bræði. Mér fannst ég samt klárlega hafa unnið sigur, ég átti síðasta orðið. Það er að segja ef ég tek ekki með það sem hann gargaði eftir að ég lokaði hurðinni...

Daginn eftir var svo bankað létt á hurðina hjá mér og það var varla að ég þorði að opna... ég gægðist hægt með nefið fram og sá hvar tryllti maðurinn frá því daginn áður stóð skömmustulegur með hvolpaaugu og skottið milli lappanna. Ég sá að manninum var greinilega runnin reiðin og ákvað því að hætta á að opna hurðina alveg.

Hann kom þá með þessa elskulegu afsökunarbeiðni og útskýrði fyrir mér hversu illa fyrir kallaður hann hefði verið og svo framvegis... hvort við ættum ekki bara að byrja upp á nýtt og vera vinir... já jú ég ákvað nú að taka þessu, rétti honum skankann á mér og við innsigluðum með kröftugu handabandi það loforð að hvorugt okkar færi að senda neina handrukkara...

Svo fluttu þau inn... tryllti maðurinn, konan hans og barn. Og svo fóru þau hjónin að ræða málin. Þau ræddu málin ansi mikið og oft og hátt og aðallega seint á kvöldin, eftir miðnætti helst... Rosalega mikið af óklárðuðum málum sem þau þurftu alltaf að vera að klára á ókristilegum tímum.

Pirraði mig sosum ekki mikið.... En mér var stundum hugsað til afkvæmis þeirra sem ég gerði ráð fyrir að reyndi að sofa í öllum þessum ósköpum.

Svo kom kallinn niður um daginn tilkynnti mér að nú væru þau að flytja og vildi endilega spyrja mig hvort það heyrðist eitthvað á mikið á milli hæða. Tja.... ég vissi nú ekki alveg hvað ég átti að segja... átti ég að segja manninum að ég gæti nánast þulið upp allt það sem þau hjónin hefðu verið ósammála um þetta árið... nú eða þá að ég heyrði í hvert skipti sem þau pissuðu...

Nei ég ákvað að segja það ekki heldur bjargaði mér með því að segja bara að ég væri nú voða lítið heima... svo ég myndi nú varla vita það. En nei ég hefði nú ekki verið vör við mikinn umgang að ofan... ekki mikinn... sagði ég og brosti fölsku brosi og fór að segja kallinum að ég hefði verið í Kína í sumar, svona til að skipta um umræðuefni. Honum þótti það spennandi og við spjölluðum aðeins um það.

En já nú eru þau að flytja, eins og það er búið að vera fínt að hafa þau þarna, þrátt fyrir allt. Aldrei hafa þau kvartað yfir partýum hjá mér eða yfir því að ég skúri ekki ganginn... Svo eins og áður sagði þá lét ég rökræður þeirra á nóttunni ekki hafa nein áhrif á mig. Það hefði verið ósanngjarnt...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vignir

Ég kannast við nágranna sem er skít sama hvort þeir séu með læti og halda að þeir séu þeir einu sem að búi í húsinu! En gott að þú náðir ,,sáttum,, við grannana þína.

Vignir, 20.9.2007 kl. 20:46

2 identicon

Aldrei hefur mér verið boðið í partí í þess íbúð...

Atli (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband