Ástæðan fyrir færsluleysinu síðustu dagana er einfaldlega sú að ég á í hatrammri baráttu við mitt innra sjálf um að hleypa ekki út miklum skoðunum mínum og almennri biturð í garð karlmanna á veraldarvefinn. Og reyna að þannig að standa við eiðsvarnar yfirlýsingar mínar um að láta af slíkum vitleysisgangi.... Það getur verið erfitt enda aldrei lognmolla í kringum mig. Líf mitt er sannkölluð sápuópera sem þú lesandi góður, ert aukaleikari í
Ætla ég því að reyna að fá útrás í skrifum um annað mál sem líka er mér ofarlega í huga. Ég er mikil áhugamanneskja um almennilega, ásættanlega og mönnum bjóðandi salernisaðstöðu. Kínaför mín veldur mér því örlitlu hugarangri. Ég geri mér grein fyrir menningarlegum mismun og mikilli fjarlægð frá hreinum, spegilgljáandi og nýskrúbbuðum kamrinum á Njálsgötu 96 og 12 rúllu safninu af Góðkaups skeini. En samt sem áður er ég mjög nervös varðandi klósettmál í Kína... Ég er búin að heyra allskonar hryllingssögur af klósettpappírslausum götum ofan í jörðina þar sem saur í öllum stærðum og gerðum svamlar um í mestu makindum.... svo hef ég líka heyrt sögur um að fullorðið fólk sem er mjög upptekið eins og bissness fólk og fólk sem þarf að ferðast mikið, noti bleyjur! Svona fullorðinsbleyjur og þá sleppi það við klósettferðir á óæskilegum tímum og losi bara bleyjuna þegar tími gefst! Hversu ógeðslegt er það!?
Einu sinni var ég stödd niðri í bæ á Menningarnótt, það var örugglega árið 2000 þegar met var slegið í fólksfjölda í miðbænum og um hundraðþúsund manns tróðust þar hver um annan. Þegar stærstu flugelda sýningu er sést hafði á fróni lauk þá þurfti auðvitað allt fjölskyldufólk í bænum að drífa sig heim, leyfi mér að giska á að það hafi allavega verið um helmingur fjöldans, eitthvað um 50.000 manns... 50.000 manns með kerrur og vagna að troðast á móti öðrum 50.000 þúsund með flöskur og dósir. Þið getið rétt ímyndað ykkur öngþveitið nú eða rifjað það upp, þið sem voruð þarna. Ég var allavega þarna á miðjum Arnarhóli búin að fá mér nokkra öllara og verandi með minnstu blöðru í heimi þá þurfti ég sjálfsögðu að pissa á þessum krítíska tímapunkti.. Um leið og ég gerði mér grein fyrir því að klósett eða nokkur annar staður þar sem ég gæti veitt mér þann munað að létta á mér væri ekki í boði á næstunni, þá panikkaði ég og varð enn meira mál fyrir vikið. Ég get ekki lýst því fyrir ykkur hversu mikið ég þjáðist næstu 45 mínúturnar, sem er tíminn sem leið þangað til salerni bauðst. Það þurfti að bera mig síðustu metrana, nokkrum sekúndum síðar hefði ég líklega sprungið. (það er einmitt til dæmi um það í mannkynssögunni að maður hafi actually dáið því hann hélt svo lengi í sér...)
Fyrir þetta atvik sem vel er greypt í huga minn þá fannst mér alltaf mjög traust þegar ég var stödd í mannfjölda að vera búin að spotta út mögulega salernisaðstöðu í tæka tíð. Eftir þetta atvik þarf ég alltaf nauðsynlega að vita hvar klósettið er, hvar sem ég fer!
Ég krossa því fingur og bið til guðs að ég fái ásættanlega salernisaðstöðu á heimavistinni þar sem ég gisti.
Athugasemdir
Þetta er nú víst satt og rétt með bleyjurnar á fullorðna, þetta er nú ekki óþekkt í nágrannalöndum okkar og þykir víst merki um að fólk sé frjálslegt og standi á sama hvað öðrum finnst. !! En mér finnst ólíklegt að kínverjar hafi efni á að henda pappírsbleyjum í hauga til að vera töff.!! Svo það eru líkast til bara göt í jörðinni.. :-)
Ósk (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 17:28
Hérna sko skítt með klósettin...það er ekki til neinn klósettpappír í kína...
Eva María (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 00:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.