Nezeril, takk!

Fór það ekki svo að Sólrún næði sér í kínverskt kvef... Jújú einmitt fór það svo! Kínverskt lofkælingarkvef örugglega. Loftkælingin er bara of þægileg... Nú sýp ég seyðið af því og veltist hér um í hor og viðbjóði. Hausinn á mér er svo fullur af hor að það komast ekki fleiri kínversk orð þar fyrir í bili og hef ég ekki geta mætt í skólann í 2 daga sökum þess. Úrhellisrigningardemban sem við lentum í, í fyrradag hefur líklega ekki bætt úr skák heldur. Þar sem við óðum vatnselginn upp á miðja kálfa með beljandi rigninguna í fangið. Himininn logaði af eldingum og þrumugnýrinn yfignæfði öll önnur hljóð. Mér stóð ekki á sama... Það lamaðist allt meðan á veðrinu stóð, bílar stoppuðu fólk flýði inn í nærstödd hús.. nema við, því við vorum svo blautar að loftkældar verslanir voru ekki að gera neitt fyrir okkur nema auka líkur á þrálátu lungnakvefi. Skömminni skárra var að dúsa í hlýjunni úti, undir þakskeggi. En kvefið fékk ég samt og nú myndi ég gefa á mér handlegg fyrir eina flösku af nezerili. Ég þrái nezeril meira en hvítan höfðingjaost og ritzkex og það þrái ég mikið. Algjör bjánalegheit hjá mér að klikka á svoleiðis nauðsynjavöru. Ég er með marga pakka af uppþornunartöflum og magalyfjun, ársskammt af íbúfeni og annan slíkan af paratabsi en ekkert nezeril! Ég er búin að reyna að sjúga upp í nefið fyrir apóteksfólkið og leika fyrir það spreybrúsa og sýna þeim hor en þau rétta mér bara einhverjar töflur sem ég veit ekkert hvað gera mér eða gera mér ekki svo ég tek ekki sjénsinn. Mér er ekki vel við að éta einhverjar töflur ólesin um verkun þeirra... Svo ég verð því að halda áfram svefnlausum nóttum þar til þetta gengur yfir.

Stendur ekki á sama

Þarna er mér að standa ekki á sama, hundblaut í úrhellinu meðan Eyrún virðist sallaróleg yfir þessu öllu saman.

Annars fengum við nýja kennara í byrjun þessarar viku og þeir eru alveg að moka í okkur kínverskunni, ég vona að ég geti drullast í skólann á morgun svo ég missi ekki allt niður eða snýti út því litla sem ég er búin að læra. Það er alveg merkilegt hvað er búið að takast að troða í okkur á svona stuttum tíma. Nú getum við alveg sungið afmælissöng, sagt hvernig veðrið er, hvert við erum að fara, hvaðan við vorum að koma. Við getum meira segja séð hvar er banki eða pósthús, nú eða garður, bara með því að líta á táknin. Við getum tekið á móti gestum, boðið þeim í te og jafnvel appelsínusafa. Og gefið þeim að borða það sem þeim líkar best. Það er að segja ef þeim líkar við kjöt af einhverju tagi eða grænmeti, jafnvel einhverja ávexti og brauð. Núðlur og grjón eru að sjálfsögðu old news... Ooog við getum pantað okkur kók light!

IMG_1454

Þarna eru Eyrún og Freyja að læra kínversku. Takið sérstaklega eftir því hversu huggulegir trébekkirnir í kennslustofunni eru... næs...

Þrátt fyrir slæma heilsu þá fór ég á algjört verslunar"fyllerí" í gær og kom heim svo klyfjuð að ég gat varla staðið í lappirnar. Ég var meira segja komin með verslunar"þynnku" strax í kvöldmatnum. Alveg miður mín og buguð af eyðslunni gúffaði ég í mig kóreskum barbecue þynnkumat, all you can eat and DRINK buffet! Mér er alltaf að líka betur og betur við Kína...

Áfall

Þarna er Freyja að reyna að hughreysta mig og telja upp fyrir mig það sem ég keypti og reikna saman hvað það kostaði (sem hana minnti að væri ekki mikið...) Hún hefði betur sleppt því... Þetta eru viðbrögð mín sem Eyrún fangaði á mynd. Ef vel er að gáð er hægt að sjá að skelfingarglampinn í augunum á mér er alvöru!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sólrún... Þú TAPAR ef þú verslar ekki.  Mundu það, snýttu þér og haltu ótrauð áfram!

Dóra (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 09:46

2 identicon

Hey Sólrún!! Þú ert næstum því að koma heim!!!   Sjittfokksjitt hvað tíminn líður hratt.

Vona að horbirgðir þínar fari þverrandi

Júlestrúmps (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 13:22

3 identicon

Hey, églangarsomikið að heyra fleiri Kínasögur!!!

Jólastrympa (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband