Kajakróður er góð skemmtun, eða hvað...?

Við í Símanum Kringlunni skelltum okkur saman í skemmtiferð austur fyrir fjall síðastliðinn laugardag, svona aðeins til að hrista hópinn saman fyrir sumarið. Stefnan var tekin á kajak, sundslökun og mat á Rauða húsinu.

Ferðin hófst með smá bjór og snakksamkundu í búðinni þar sem við skeggræddum hvað teldist heppilegur klæðnaður í förina, það var eitthvað mismunandi hvað fólki fannst um það og sumir... ehhmm... gleymdu aðeins smá útivistarfatnaði.... skal ekki segja hver það var....

Svo sótti okkur rúta og hana fylltum við af bjór og öðrum áfengum veigum sem áttu þó ekki að drekkast fyrr en á heimleið, enda við á leiðinni í kajaksvaðilför og ekki heppilegt að hafa innbyrt mikið magn alkahóls fyrir þau átök. Flestir hlýddu því...

Á Stokkseyri tóku á móti okkur tveir vasklegir piltar á sextánda aldursárinu, þeir klæddu okkur í heppilega búninga, vesti og stígvél, gáfu okkur örkennslu í kajakróðri og hentu okkur bátana. Kennslan var eitthvað á þennan veg: hér eru árar, þarna eru bátar, róið og fylgið okkur...

DSC02748-vi

Þarna erum við að verða klár. Takið sérstaklega eftir því hvað ég er hress á kantinum, með þumlana upp og læti!

Þegar í bátana var komið hófst róðurinn eins og okkur hafði áður verið kennt.... Róa, róa, róa. Elta leiðsögustrákinn. Þetta var rosalega gaman í fyrstu, víííí og allir ruku af stað. Fáránlegur hressleiki í gangi og allir klesstu á alla flissandi og hlæjandi, gaman, gaman.... Veðrið kannski ekki upp á sitt besta en það var þó ekki rok, þökkuðum við fyrir það í upphafi ferðar...

DSC02755-vi

Þarna má sjá mig og Freyju fáránlega hressar, búnar að festa okkur aðeins, en vííí ennþá rosa gaman!

Já fyrst var þetta bara barnaleikur, að róa á opnu svæði, ekki málið fyrir liðið, strákar sem stelpur þeystu áfram. Svo varð þetta aðeins erfiðara, fórum að fara alls kyns krókaleiðir og sátum oftar en ekki föst í hrúgu í sefinu og rákum árarnar upp í andlitið hvert á öðru. Það var alveg fyndið og skemmtilegt líka eins og árekstrarnir. Við fórum í smá kappróður á öðru opnu svæði og héldum áfram að klessa á hvort annað um stund.

Svo þurftum við að róa til baka... eftir 45 mínútna kajakróður var örlítið tekið að vinda... og svo rigna... Strákarnir þeystu á undan okkur stelpunum og eftir sátum við í klessu í sefinu og héldum áfram að flissa og reka árarnar hver í aðra. Þegar okkur fannst nóg komið snérum við einnig til baka. Á þessum tíma var vindurinn orðinn að rokinu sem við í upphafi ferðar þökkuðum fyrir að væri ekki...

Að róa kajak í roki er ekki eins góð skemmtun og í logni! Í fyrstu var þetta að sjálfsögðu ákaflega fyndið og hresst eins og allt annað í þessu kajakferðalagi. Hahaha við róum og róum og komumst ekkert áfram! Eftir svona hálftíma af tilgangslausu við komumst ekkert áfram róðri með tilheyrandi flissi og skvettum, vorum við aftasti hópurinn nánast aðframkominn af þreytu og sáum ekki fram á að komast með í matinn á Rauða húsinu með þessu áframhaldi. Brandarar eins og að leggja árar í bát og árinni kennir illur ræðari voru fyrir löngu hættir að vera fyndnir og alvaran tekin við.

Ég gargaði á leiðsögupeyjann hvað í fjandanum maður ætti að gera ef maður bara gæti ekki meira!? Hann hló bara að mér! Ég var búin að róa af öllum lífs og sálar kröftum frá mér allt vit og rænu, löngu komin yfir þreytuna en öll orka sem vöðvarnir gengu fyrir var uppurin og vöðvar hlýddu ekki þeim taugaboðum frá heilanum sem sögðu þeim að róa áfram... Ég því, í eins bókstaflegri merkingu og það getur gerst, bara gaaaat ég ekki meira. Og hélt áfram að heltast úr lestinni ásamt fleiri góðum stúlkum í svipaðri stöðu. Á þessum tímapunkti var ég nánast með grátstafinn í kverkunum, tilbúin að gera nánast allt fyrir fast land undir fótum mér á ný. 

Eftir smá vonleysisnökt áttaði ég mig á því að mig var að reka í land upp að hliðarbakkanum... ég sá að með nokkrum góðum áratökum gæti ég mögulega náð landi fyrr en ég hafði þorað að vona. Ég fékk því einhvern yfirnáttúrlegan fídonskraft og adrenalínsprautu í rassinn og hóf róður á ný eins og tryllt væri. Vatnsgusurnar gengu yfir bátinn og ég var orðin gegnsósa af vatni og drullu eftir skamma stund, báturinn var líka að fyllast af vatni... En mér var nákvæmlega sama, það eina sem ég sá og hugsaði var þurrt land, laaaaaand! Á síðustu metrunum stóð ég upp í bátnum, henti mér út í og óð drulluna upp að hnjám í land! Laaaaand! Ég hafði náð landi... stóð þarna á bakkanum sigri hrósandi með geðveikisglampa í augunum og sveiflaði árinni í sigurskyni áður en ég hélt af stað í bátaskýlið, klofblaut upp að öxlum... Og gargaði svo jafn tryllt ALDREI AFTUR KAJAK!

DSC02764-vi

Þarna er Sólrún ekki jafn hress á kantinum... Takið líka sérstaklega eftir rauðu stígvélunum sem ég klæðist, þau eru númer 35... 

Eftir þessar raunir skelltum við okkur í örsund í sundlauginni á Stokkseyri áður en við héldum, góðum klukkutíma á eftir áætlun, í mat á Rauða húsinu á Eyrarbakka. Rauða húsið fær alveg fullt hús stiga fyrir eðal þjónustu og frábæran mat og þangað mun ég klárlega fara aftur.

En líklega mun líða einhver tími þangað til ég svo mikið sem leiði hugann að kajakróðri á ný... 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ég þekki sjálfa mig rétt .... hefði ég orðið ÓGEÐSLEGA pirruð    En þú stóðst þig greinilega vel .... það var mjög klókt að þér að fara bara til lands þarna til hliðar! :D

Jólastrympa (IP-tala skráð) 9.6.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband