Eins og ég hef líklega áður minnst hér á þá á ég mjög auðvelt með að tengjast bæði lifandi og dauðum hlutum sterkum tilfinningaböndum. Þetta hefur í gegnum tíðina orsakað ýmis vandamál bæði hjá mér sjálfri og fólkinu í kringum mig, þá aðallega móður minni. En oft á mínum yngri árum tókst mér næstum að gera hana gráhærða með með bölvaðri vitleysu og óstjórnlegri þvermóðsku.
Gott dæmi um þetta er sagan af jukkunni góðu... Þannig var það að þegar móðir mín var ung stúlka flutti hún vestur á firði til að vinna í fiski, fjarri öllum vinum og fjölskyldu. Þar kynntist hún karli föður mínum og hófu þau búskap á Ísafirði, móðir mín hélt áfram að vinna í fiski og faðir minn vann á steypustöðinni. Fátt fann móðir mín sér til dundurs á Ísafirði en áskotnaðist henni þó nokkrir plöntuafleggjarar, þar á meðal veglegur afleggjari af jukku (Yucca elephantipes).
Móðir mín hellti sér þá út í plönturæktun af miklum eldmóð, keypti sér ógrynni af bókum og gerði ýmsar tilraunir í ræktuninni. Ég veit ekki hvernig þetta var fyrir 27 árum síðan, en í dag teldist plönturæktun 18 ára stúlku líklega argasti lúðaskapur. Við verðum þó að taka inn í dæmið að hún var nýkomin til Ísafjarðar og lítið búin að kynnast fólkinu í bænum. Tveimur árum síðar flytja foreldrar mínir búferlum til Reykjavíkur og plönturnar fara með. Stuttu síðar kem ég í heiminn...
Jukkan hennar mömmu óx og dafnaði og það gerði ég líka, fljótlega var jukkan farin að taka mikið pláss og mikið bar á henni í stofunni. Jukkan er í bakrunninum á nánast öllum myndum sem teknar voru af mér á heimilnu. Hún var allstaðar, hún var fastur punktur í tilverunni hjá mér. Oftar en ekki var mér falið að vökva jukkuna með grænu könnunni góðu. Ekki of mikið, ekki of lítið, varð að vera akkúrat passlegt...
...Og árin liðu og alltaf stækkaði jukkan og ég að sjálfsögðu líka, fleiri börn bættust við fjölskylduna sem orsakaði búferlaflutninga að nýju. Einhversstaðar á leiðinni fór áhugi móður minnar á plönturækt dvínandi og eldmóðurinn við að halda í lífinu í þessum ljóstillífandi lífverum um alla íbúð minnkaði stöðugt... Ein af annarri hurfu þær... kaktutsar... gúmmítré... aloe vera... dag einn var stóri góði burkinn horfinn. Hann hafði tekið helminginn af stofunni á móti jukkunni í gömlu íbúðinni. Stuttu eftir flutninga fór ég að taka eftir að eitthvað vantaði, það var ekki bara burkinn, ég vissi um afdrif hans, það var eitthvað annað og meira sem vantaði.... olli þetta mér, 9 ára barninu miklu hugarangri...
Það var ekki fyrr en að einn sólríkan sumardag að ég er að leita mér að sólstól til að nota á svölunum að ég fer inn í eina ónotaða herbergið í íbúðinni sem tímabundið var notað undir drasl sem var á gráu svæði hvort væri geyma eða henda dót. Þar blasir eymdin við mér, þar stendur elskulega jukkan mín öll gulnuð og uppþornuð af súrefnis og vatnsskorti. Það tekur mig smá stund að átta mig á aðstæðum, hvernig gat móðir mín verið svona kaldrifjuð, var hún með hjarta úr stáli, hvernig gat hún sett varnalausa jukkuna þarna inn í herbergið og látið hana afskiptalausa þar sem hún beið dauða síns sem auðsjáanlega nálgaðist óðfluga.
Svo koma viðbrögð mín.... ég veina upp og skræki þangað til móðir mín kemur hlaupandi og heldur að ég sé stórslösuð. Ég messa yfir henni og húðskamma fyrir að dirfast að kvelja jukkuna okkar svona, fara svona með lifandi verur! Sannfæring mín er slík að móðir mín sem ætlaði sér að losna við fjandans jukkuna sem var farin að vera henni til ama, hálfskammast sín... ég linni ekki látunum fyrr en hún fellst á að hefja með mér björgunaraðgerðir. Með því skilyrði þó að jukkan verði inni í mínu herbergi, hún vildi ekki sjá fjandas jukkuna í stofunni, enda nýr stofuskápur og borðstofuborð á leiðnni og ekki gert ráð fyrir jukku í þeim stíl.
Mamma tók á það ráð að saga jukkuna í sundur og setja í tvo potta svo auðveldara væri að koma í hana lífi á ný. Inn í herbergið mitt fékk ég því tvo stóra plómapotta fulla af fölnaðri jukku. Ég hlúði að jukkunum mínum eins vel og ég gat en fljótlega fór þó annar helmingurinn... hinn helmingurinn náði sér á skrið og lifði í tvö ár, alltaf hálf ræfilslegur þó. Það var mikil sorg þegar ég gafst upp fyrir móður náttúru, játaði mig sigraða og lét jukkuna fara...
Blessuð sé minning hennar og megi hún hvíla í friði...
Svo fór fólk að flytja að heiman og fjölskyldan minnkaði, það kallaði á aðra flutninga. Í það skiptið ákvað mamma að hafa vaðið fyrir neðan sig og lét mig koma heim og fara í gegnum allt dótið í geymslunni, svo það væri örugglega ekkert sem ég hefði tengst tilfinningaböndum sem hún væri að henda. Ég varð þó að láta í minni pokann varðandi ýmislegt... mölétna bangsa sem hún neitaði að geyma kvaddi ég með tárum, poki af dúkkufötum hlaut sömu örlög... gömul náttföt, götóttir strigaskór.. Þessi sorpuferð var ákaflega sorgleg og tilfinningarík stund...
Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að geymslan hjá mér er full og allir skápar og allar skúffur! Ég get ekki hent dóti! Það er alltaf eitthvað.. æ þetta minnir mig svo á þetta, ohhh ég man eftir þessu... osfrv. Ég á allskonar minningakassa frá hinu og þessu tímabili, gamla ballmiða frá því úr FB, armbandið af fyrstu Þjóðhátíðinni minni, söngbækur úr vindáshlíð, hnýtt vinabönd og svona mætti lengi telja... ÞAÐ ER GAMAN AÐ SKOÐA ÞETTA! og ég geri það meira að segja stundum...
Flokkur: Dægurmál | 28.4.2007 | 15:30 (breytt kl. 16:11) | Facebook
Athugasemdir
Þú ert svo frábær penni..
Ef þú endar ekki sem rithöfundur af einhverru tagi fyrir þrítugt, mun ég afleggja allan lestur í mótmælaskyni.
Vignir (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 16:56
Ég þakka hlý orð í minn garð Vignir minn!
Ég skal gera mitt besta í að redda þessu fyrir þrítugt
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, 28.4.2007 kl. 22:54
Heyr heyr, sammála síðasta ræðumanni. Sögur úr sundi Sólrún mín;)
Hrund (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 17:43
Skemmtileg lesning, sammála fyrri ræðumönnum!
Ég kannast við þetta að vilja helst ekki henda hlutum, en sem betur fer kemur einn dagur á ári eða svo þar sem ég gefst upp og losa mig við allan fjandann, annars væri ekki hægt að labba um hérna heima fyrir drasli.
Þorbjörg Sandra Bakke, 29.4.2007 kl. 21:57
Vá hvað ég er sammála þér... ég var að flytja núna í febrúar og það tók virkilega á að henda öllu mínu svona dóti (það fékk samt ekki allt að fjúka... ég gat það bara einfaldlega ekki ;) - Mínar söngbækur úr Vindáshlíð fengu að kúra áfram í kassa inni í geymslu ;) það er ALLTAF gaman að skoða þær hehe
Rósa Gréta Ívarsdóttir, 1.5.2007 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.