Það fór lítið fyrir 1000 metrum af sundi þessa helgina, ég var meira í 1000 sopum af bjór... Sem var sosum fínt. Tók í staðinn bara 700 af þessum metrum núna rétt í þessu.
Nú voru það ekki elliærir baksundstjillarar sem trufluðu einbeitingu mína í sundtökunum heldur sáu ærslafullir sjö ára krakkar (geri ráð fyrir að þau hafi verið um 7 ára, þar sem þau voru flest tannlaus í efri góm) í skólasundi um það. Þau voru þarna að æfa geimskot, jarðborun, kengúruhopp, og froskakvak. Þetta eru upplýsingar sem ég hef beint frá sundkennaranum. Ég veit ekki með ykkur en ég þegar ég var í skólasundi á mínum yngri árum þá lærðum við nú bara bak- og bringusund, skriðsund og eitthvað í þeim dúr. Þetta hljómaði miklu meira spennandi og ég er viss um að ég hefði verið orðin flugsynd fyrir 15 ára aldur ef skólasundið hefði verið eitthvað í líkingu við þetta í Breiðholtslauginni í denn.
Á mínum skólasundsárum var okkur krökkunum skipt niður í hópa eftir getu og var ég, topp 10, A nemandinn, alltaf í hóp F! Mér virtist lífisins ómögulegt að læra að synda, eins og ég var góð í öðrum íþróttum og ávallt með þeim bestu hvar sem ég fór. Þið getið ímyndað ykkur niðurlæginguna fyrir óskabarnið mig að vera F í sundi, ég var í hópi með strákunum úr "tossabekknum" sem skólasamfélagið var fyrir löngu búið að gefast upp á að kenna nokkrun skapaðan hlut. Það var alltaf helvíti á jörð þegar við fengum með okkur miða heim sem tilkynnti foreldrum okkar að skólasund hæfist í næstu viku...Dauði og djöfull...
Þannig gekk þetta í 10 ár! En svo bara kom þetta allt í einu, allt í gat ég bara synt!
Þessir ærslafullu krakkar voru einmitt að klára geimskotsæfingu á sama tíma og ég lauk við 700 metrana. Búningklefarnir fyllust því af skríkjandi smástelpum sem voru samt voðalega krúttlegar svona tannlausar. Þeim fannst ég í agalega fínum naríum og létu mig vel vita um skoðun sína á þeim. Einni þeirra fannst hún líka verða að sýna mér sínar sem að hennar sögn voru agalega fínar, enda g-strengur! Halló!!! Afhverju eru 7 ára stelpur í g-streng!? Afhverju eru til g-strengir fyrir 7 ára stelpur!? Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það... En stelpan var agalega sátt og fannst hún megapæja, trúi því vel.... Ógeðslega fullorðins.... kannski full fullorðins!
Það sem vakti þó mesta athygli mína var baðvörðurinn, hún var svo indæl við stelpurnar, voða góð, hjálpaði þeim að þurrka sér og lagaði á þeim hárið og slíkt. Þegar ég var að upplifa helvítið á jörð í Breiðholtslauginni snemma á tíunda áratug síðustu aldar þá voru baðverðirnir sko ekki blíðir og góðir, það var sko engin þurrkhjálp eða hárgreiðsla í boði á þeim bænum. Það var bara potað í okkur með priki og okkur skipað að þvo rassinn vel, ÚR SUNDBOLUNUM! og allt það...
Já það er gott að sjá að tímarnir hafa breyst til hins betra á einhverju sviði.
Flokkur: Dægurmál | 16.4.2007 | 18:47 (breytt kl. 18:54) | Facebook
Athugasemdir
Eins og ég segi...skrifa saman bókina Sögur úr sundinu. Sé að þú ert nú þegar byrjuð...með titilinn og allt;)
En b.t.w. þetta var subbulega fyndin færsla. Ég hló, sko HLÓ, hátt og mikið, hérna við tölvuna :) :) :) Afar hressandi!
Hrund (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 22:34
Já maður þetta er klárlega eitthvað sem við verðum að fara í! Ég held að við gætum grætt feitan pening á þessu. Við gætum farið í hinar ýmsustu laugar og haft þetta kaflaskipt, laug fyrir laug. Jafnvel farið út á land og gert úttekt
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, 16.4.2007 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.