Jæja á föstudaginn fór ég á þriðju og síðustu árshátíðina mína þetta sísonið. Nú var það árshátíð Röskvu. Það var heljarinnar hressleikasamkunda eins og við mátti búast. Til að taka þátt í herlegheitunum brá ég mér í betri fötin, blár kjóll varð fyrir valinu að þessu sinni. Við hann fór ég í gyllta skó og greip með með mér gyllt samkvæmisveski nákvæmlega í stíl. Til að kóróna setti ég upp gyllta eyrnalokka einnig í stíl. Samsetningin fullkomin, skór og veski í stíl, blingið á sínum stað, allt eins og það átti að vera.
Þó maður dressi sig nú kannski helst upp bara fyrir sjálfan sig þá er nú ekki verra að vera huggulegur fyrir karlpeninginn líka. Tala nú ekki um þegar maður er laus og liðugur... Mín reynsla er hinsvegar sú að flestir karlmenn taka óttalega lítið eftir hverju við dömurnar klæðumst, nema bolirnir séu þeim mun flegnari og pilsin í styttra lagi. Þeir taka voða lítið eftir því hvort samkvæmisveskið er í stíl við skóna eða hvort bolurinn tóni við beltið. Það er mín reynsla hingað til. Hingað til segi ég! Því þessa helgina hefur karlpeningurinn enn og aftur komið mér á óvart. Og í þetta sinnið ekki bara með hæstu hæðum í hálfvitaskap eða nýjum metum í skíthælshætti. Þó að það hafi líka fylgt.. en það er önnur saga!
Fyrsta óvænta atvikið átti sér stað á sjálfri árshátíðinni þar sem ungur maður í huggulegri kantinum, bæði í fasi og klæðaburði, vatt sér upp að mér og tjáði mér hversu agalega smekkleg ég væri. Skórnir og veskið alveg í stíl. Svona á að gera þetta sagði hann, hugsa um heildarmyndina. Nákvæmlega rétt hjá honum, gáfumaður þar á ferð! Í framhaldinu áttum við svo ágætar umræður um tísku, smartleika og umfram allt, heildarmyndina.
Annað atvik sama kvöld á sér stað á Ölstofunni. Ég kannski í fínni kantinum miðað við aðstæður, í vel flegnum samkvæmiskjól með uppsett hárið. En fannst það allt í lagi, enda líkar mér vel að vera fín og nýti tækifærin til þess sem oftast. Þá sest hjá mér maður og tjáir mér hversu glæsileg ég sé nú og hví í ósköpunum ég sé svona fín. Ég tjái honum það og við förum að spjalla... Um tísku, um heildarmyndina, um samkvæmisveski í stíl við skó, um bindi sem tóna við skyrtur og þar fram eftir götunum. Alveg merkilegt. Tveir afar ólíkir menn, sama kvöld, sama umræða. Ég varð svo ánægð og fékk trúna á karlmenn aftur. Kannski alls ekki svo slæmur þjóðflokkur hugsaði þegar ég lagðist sátt til hvílu eftir skemmtilegt og fræðandi kvöld.
Svo kemur laugardagur og maður kíkir í hvítvín eins og vill gerast á laugardögum. Leiðin liggur í bæinn og svo er maður spurður um rauða bolinn, já karlmaður spyr mig um flík sem ég klæddist síðast í janúar! Hvernig man karlmaður eftir flík sem stelpa klæddist í janúar? Það var alveg farið að hvarfla að mér að ég hefði síðastliðin árin bara verið að misskilja eitthvað og að karlmenn væru í raun og veru frábærir! Og þegar annar maður úr allt annarri átt spyr mig líka um rauða bolinn þá vissi ég ekki hvert ég ætlaði! Þetta var of mikið fyrir Sólrúnu að taka á einni helgi, stúlkuna sem var þekkt fyrir að hata karlmenn. En ég var heppin, því áður en helginni lauk þá jafnaðist þetta út, karlpeningurinn sannaði enn og aftur stöðu sína í mínum augum. Ný met, nýjar hæðir!
Þessi mynd kannski fangar ekki alveg heildarmyndina en hún fangar klárlega stemmninguna!
Flokkur: Dægurmál | 25.3.2007 | 22:48 (breytt kl. 23:02) | Facebook
Athugasemdir
Kjóllinn er flottur!
Freyja (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 19:40
Koddu meðða...hvað gerðu þeir nú? :)
Hrund (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:24
Fer þér ekkert smá vel að vera í bláu!
Eyrún (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 18:17
Haha takk Eyrún! Ég gef þá bara skít í helvítis rauða bolinn! Eða kjólinn öllu heldur, þessir karlmenn geta ekki einu sinni gert greinarmun á kjólum og bolum!
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, 27.3.2007 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.