Ljúfa helgin

 Skelli inn helgarbloggi í tilefni þess að ný helgi er að skella á!

Ákaflega fín helgi að baki, heilsufarslega var hún reyndar mjög átakanleg enda er ég núna raddlaus og búin að vera það síðustu 3 daga. Þá er ég líka langt komin með heilan regnskóg af snýtipappír.

Föstudagurinn fór í að reyna að koma mér til heilsu með öllum mögulegum ráðum, inntöku ýmissa verkjalyfja og notkun óhóflega mikils Nezerils. Þannig tókst mér að koma mér af stað á árshátíð Politicu... koma mér af stað segi ég því ekki gekk það eins og í neinni sögu. Fyrst var planið að ég yrði pikkuð upp en þá týndust bíllyklar í Hafnarfirði... plan b var svo að ég pikkaði upp. Lagði af stað í góðu grúvi í Breiðholtið á háannatíma, ég var samt í svo miklu grúvi að ég tók varla eftir háannatímanum fyrr en bíllinn minn fór að haga sér undarlega... allt einu fór miðstöðin að blása á mig köldu, snúningshraðamælirinn snérist of hratt, rafgeymaljósið kom í mælaborðið og hitinn á vélinni rauk upp úr öllu valdi. Hringdi ég því í snarhasti í karlinn föður minn sem sjúkdómsgreindi þetta sem slitna viftureim og að ég skyldi stöðva bílinn á nóinu. Nóið var ekki í boði því ég var í miðju umferðaröngþveiti. Varð ég því að biðja og vona að bíllinn myndi ekki bræða úr sér á næstu mínútunum. Sem betur ferð náði ég að drösla bílnum með sjóðandi vélina á eitthvað plan í Breiðholtinu og labbaði þaðan til Freyju og Eddu sem ég ætlaði að vera svo indæl að pikka upp! Sem betur fer eru þær frekar yfirvegaðar stúlkur og héldu því bara áfram þrátt fyrir þessar raunir og verulega seinkun.

Árshátíðin hófst á fordrykk í LÍÚ, við heyrðum reyndar ekki mikið af því sem fór fram í þeirri kynningu enda seinar á ferð og átti ölið hug okkar allan. Við ræddum því bara örlítíð um botvörpuveiðar og átum rækjur til að vera með. Svo var það kaffi Reykjavík, byrjuðum á Ísbarnum, frekar svalt.... Og svo var bara étið, drukkið og dansað við 90s tónlist langt fram á nótt. Ég fór heim raddlaus og ískrandi eftir að hafa fundið og kynnst stjúpbróður mínum.

Laugardagurinn var jafnraddlaus og föstudagskvöldið en þá var stelpuhittingur í Baðhúsinu, dekur og slökun, ekkert púl, svo það sé á hreinu! Ein fékk nýrnasteina, ein kom með váleg tíðindi að heiman og svo flæddi úr uppþvottavél niður í íbúðina hjá einni... Þrátt fyrir þetta þá tókst okkur öllum að hittast og eta saman um kvöldið, meira segja þessi sem fékk nýrnasteinana mætti. Hún skolaði þeim bara út af æsingi yfir því að komast ekki á löngufyrirframplanaða djammið, sem var hennar fyrsta í eitt og hálft ár... já það gerist þegar fólk fer að fjölga sér....

Svo var það bara Júróvisjón og læti, mikil læti og svo Júróvisjón á Nasa og enn meiri læti og meira 90s. Djöfull var þetta gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt er gott sem endar vel og kvöldið var massagott! Ég skal svo gefa þér eitthvað að blogga um í kvöld.

Freyja (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband