Ég er afskapalega áköf manneskja, ég vil að hlutirnir gerist strax og vil hafa þá eins og mér hentar. Ég reyni og reyni og lifi í þeirri sjálfsblekkingu að ég sé að ná tilskildum árangri og að allt stefni í að ég nái markmiðum mínum. Ég gefst ekki auðveldlega upp. Það veldur því að stundum er ég stanslaust að berja hausnum í sama vegginn aftur og aftur. Ég skal, ég skal, ÉG SKAL! BAMM, BAMM, BAMM!
Hjá mér eru þó ákveðin mörk, uppgjafarmörk.... ef hlutirnir ganga ekki upp og verða eins og ég vil hafa þá eftir ákveðin tíma, þá gefst ég upp. Þessi uppgjafarákvörðun er rosalega erfið og er yfirleitt ekki tekin nema ég telji að geðheilsa mín sé í mikilli hættu. Jafnvel líkamleg heilsa líka ef því er að skipta. Þegar ég verð nógu stressuð og upptekin af því að ná markmiðum mínum þá fer líkaminn minn í einhverskonar afneitunarástand. Hann afneitar ákveðnum tilfinningum eins og hungri og þreytu, líklega til að ég geti nýtt allan minn tíma í að vera upptekin af því sem liggur mest á mér þá stundina. Ég get farið í gegnum heilu vikurnar á nokkrum brauðskorpum, lítilli jógúrt og 3 tíma svefni á hverri nóttu án þess að finna eitthvað sérstaklega fyrir því. Það er ekki fyrr en ástandinu sleppir að ég finn að maginn í mér er farinn að melta sjálfan sig af hungri og að augun eru sokkin inn í hausinn á mér af þreytu.
Uppgjöfin er því oft kærkomin, stundum mætti jafnvel kalla hana sigur! Það vill svo til nefnilega að oft er ég að stefna að einhverju sem hvorki er mér hollt né öðrum í kringum mig. Einhverju sem er svo vonlaust að markmiðið er í meiri fjarlæð en sólin.
Yfirleitt líður mér vel eftir að hafa tekið ákvörðun um uppgjöf. Það er alltaf ákveðin lokun á einhverjum kafla og upphaf á nýjum. Svona eftir á að hyggja þá er líf mitt ofboðslega kaflaskipt, jafnvel meira eins og margar litlar smásögur... en kannski erum við öll þannig...? Ég er alltaf að gefast upp á veseninu og vitleysunni í sjálfri mér. Loka köflum opna nýja. Ljúka sögu, hefja nýja. Þetta kannski lagast með aldrinum, kannski að líf mitt verði einhverntíma samfelld saga...
Athugasemdir
Þetta eru allt bara kaflar í sömu sögunni...þú ert bara svo sniðug að halda spennu í þessu svo við nennum að halda áfram að fylgjast með;)
Hrund (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 22:49
Þú verður að hætta að hugsa í vandamálum.... :) Takk fyrir síðast
Krissi (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.