Brúðkaup

Fór allt í einu að hugsa um brúðkaup í gær, eða reyndar ekkert allt í einu, ég var að horfa á bíómynd sem fjallaði um brúðkaup og hugur minn fór að reika. Ég fór þó ekkert endilega að hugsa um mitt eigið brúðkaup enda geri ég ekki ráð fyrir því í náinni framtíð. Tel mig þó vera fyllilega tilbúna þegar rétti maðurinn finnur mig...

Ég leiddi hugann að þeim brúðkaupum sem ég hefið farið í. Þrisvar á lífsleiðinni hefur mér hlotnast sá heiður að fylgjast með giftingarathöfn í kirkju og í þau þrjú skipti hef ég grenjað, tárást og snökt og reynt af mikilli leikni að fela það. Það er svo mikil klisja að grenja í brúðkaupum. Ég er reyndar ákáflega dramatísk og tilfinningarík manneskja svo það sæmir mér líklega vel að hágrenja við slíkar athafnir..

Fyrst var það brúðkaup foreldra minna, þá var ég 6 ára. Grátur minn á þeim tíma orsakaðist þó klárlega ekki af fegurð athafnarinnar eða almennri tilfinninganæmi minni í garð kirkjubrúðkaupa. Ég held að enginn hafi vitað afhverju ég skældi, hvað þá ég sjálf. Ég tek það samt fram að ég orgaði ekki eins og frekur krakki heldur sat ég bara með fýlusvip og snökti. Mér fannst ég líklega bara eitthvað afskipt og útundan enda var litlu systur minni líka gefið nafn á sama tíma. Ég var því sú eina í kjarnafjölskyldunni sem ekki fékk að vera með athöfninni... enginn þörf fyrir brúðarmeyjar á þeim bænum... Ég sat því bara í nýju svörtu lakkskónum mínum, með stóra hárborða, nagaði á mér hárið og snökti...

Svo var það brúðkaup vinafólks, sameiginlegs vinafólks míns og fyrrverandi kærasta. Við höfðum einmitt hætt saman nokkrum vikum fyrir brúðkaupið eftir tæpt 4 ára samband... En mættum þangað saman samt sem áður. Það varð alveg óstöðvandi táraflóðið á þeirri samkundu. Mér fannst alveg óskaplega sorglegt og táraaukandi hvað það væru mörg ár í að ég myndi upplifa svona fallegt lítið brúðkaup.... Væli, væli, væl...

Þriðja og síðasta var brúðkaup föður míns og annarar konunnar hans(þetta fyrsta entist semsagt ekki að eilífu), það var síðasta sumar. Daginn fyrir þá athöfn hætti ég einmitt með öðrum kærasta, reyndar ekki til langs tíma, en var þó búin að vera í karlmannsvandræðum og dramtík allt það árið svo ég var afar viðkæm og með mikið af innbyrgðum tilfinningum kraumandi og bullandi sem voru alveg tilbúnar að flæða út um augun á mér við minnsta áreiti. Sem þær og gerðu... Um leið og presturinn byrjaða að tala var ég farin að snökta... ég tala nú ekki um þegar söngkonan hóf raustina: Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag.. og syndaflóðið hófst. Að vísu fannst mér pínu skrýtið að sjá pabba minn gifta sig... en það er önnur saga...

Á þessari upptalningu má sjá að í þessi þrjú skipti þá var ég veik fyrir... Grenjið í mér stafaði ekki eingöngu af viðkvæmni minni gagnvart brúðkaupum heldur spiluðu aðrir þættir inn í ferlið. Fyrst var ég að díla við nýtilkomna systir og breytingar í fjölskyldunni og í hin skiptin var ég að þjást í minni eigin ástarsorg. Ohhh vesalings ég hvað ég á alltaf bágt...

Ahhh hvað ég er fegin að vera í góðu jafnvægi núna, alveg laus við alla dramatík og vesen. Ég á ekki mörg svoleiðis tímabil að baki. Nú er bara að njóta þess!

 

 


Kurteisi borgar sig alltaf

Það dónalegasta sem ég veit er þegar fólk talar í símann meðan verið er að afgreiða það og lætur í þokkabót þannig afgreiðslufólkið sem er að þjónusta það sé að valda gífurlegri truflun! Sussar og allt, setur fingurinn á munninn! Fólk sem sjálfviljugt kemur inn í verlsun eða til hverskyns þjónustuaðila og óskar eftir þjónustu eða afgreiðslu getur að lágmarki sýnt þá kurteisi að gefa sér tíma í að koma því til skila hvað það óskar eftir.

Mér td, sem þjónustufulltrúa á ekki að þurfa að líða eins og ég sé að valda einhverjum varanlegum skaða eða alvarlegri truflun þegar ég spyr viðskiptavin, sem valdi að koma til mín á þeirri ákveðnu stund, hvaða þjónustu hann vilji. Eða þegar ég tilkynni honum hvað hann þarf að greiða háa upphæð fyrir vöruna sem hann vantaði á nákvæmlega þeim tíma.

ÉG ER EKKI AÐ TRUFLA!

Nú ef mjög mikilvægt símtal kæmi hugsanlega upp meðan viðskiptavinur er nákvæmlega staddur í afgreiðslu þá er ekkert sjálfsagðara að en að hann svari í símann... Bara sýna smá kurteisi, biðjast afsökunar þá eru allir glaðir

Treystið mér, afgreiðslufólki langar ekkert til að skella einhverju fríu með, gefa afslátt eða vera hresst og fullt af þjónustulund þegar það er hreytt í það ónotum eða sussað á það með fingrinum. Treystið mér, treystið.... ég veit...

Kurteist fólk minnir mann alltaf það hvað mannfólkið getur verið indælt. Hvað manni líður miklu betur að vera kurteis. Maður sér oft hvað þreytt afgreiðslufólk í verslunum verður þakklátt þegar maður er kurteis og kemur fram eins og það sé í raun og veru lifandi mannverur ekki bara einhver vélmenni sem skanna verð inn í kassa...

Kurteisi, eitthvað fyrir alla!

 


Bloggfærslur 21. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband