Stjórnarandstaðan *flissi, fliss*

Jæja nú var ég að koma hjá tíma hjá Hannesi Hólmstein, Málstofu um fjölmiðla og stjórnmál. Kúrsinn virkar afar spennandi, enda nýr fyrirlesari í hverjum tíma.

Í dag var það Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.

Þarna vorum við saman komin; ég, Hannes, Björn og samnemendur mínir í alltof lítilli stofu í Lögbergi að ræða fjölmiðla og stjórnmál. Ég sat fremst og nánast alveg ofan í Birni og Hannesi, ég gat séð á þeim nasahárin... En allt í lagi með það... Það var að sjálfsögðu rætt um fjölmiðlafrumvarp, um að færa blaðamennsku á Íslandi meira til hægri, því ef hún héldi áfram að færast meira til vinstri þá færi hún bara yfir brúnina og myndi þannig deyja! þá var rætt um að það vantaði nú gott borgarlegt hægrisinnað blað og fleira í þeim dúr... Allt gott og blessað.

Hannes og Björn að sjálfsögðu miklir félagar og flokksbræður skutu bröndurum hvor á annan hægri vinstri, aðallega hægri og hlógu svo dátt. Rifjuðu upp ólöglega útvarpsstöðvarflippið og ýmislegt fleira. Þá komu þeir ítrekað að kommentum um stjórnarandstöðuna, flissuðu mikið yfir því og glottu. Þetta var eiginlega á tímabili orðið kjánalegt, eða mér leið allavega eins og kjána. Flestir aðrir í stofunni engdust hinsvegar sundur og saman af hlátri yfir óborganlegum húmor og gamansemi félaganna. Skyndilega laust því að mér að líklega væri ég eina manneskjan þarna inni sem ekki hefði kosið sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum.

Þarna stóðu þessir tveir ágætu menn og flissuðu eins og amerískar smástelpur yfir málum eins og tímabundinnar ráðningar Hrafns Gunnlaugssonar sem Útvarpsstjóra, rausinu yfir fjölmiðlafrumvarpinu, neitunarvaldi forseta, Stóra hlerunarmálinu. (Fólk sem sagðist vera hlerað hafði hvort eð er ekkert að segja, afhverju ætti að eyða peningum í að hlera það, hahahahaha, góður, búmm, búmm, búmm). Að ógleymdu Baugsmálinu *flissi, flissi, fliss*

Páll Magnússon er næsti fyrirlesari og ég vona að mér líði betur í þeim tíma. Hann er alltaf með svo traustan og góðan bindishnút. Þannig menn kunna sig!


Bloggfærslur 23. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband