Eins og ég hef líklega áður minnst hér á þá á ég mjög auðvelt með að tengjast bæði lifandi og dauðum hlutum sterkum tilfinningaböndum. Þetta hefur í gegnum tíðina orsakað ýmis vandamál bæði hjá mér sjálfri og fólkinu í kringum mig, þá aðallega móður minni. En oft á mínum yngri árum tókst mér næstum að gera hana gráhærða með með bölvaðri vitleysu og óstjórnlegri þvermóðsku.
Gott dæmi um þetta er sagan af jukkunni góðu... Þannig var það að þegar móðir mín var ung stúlka flutti hún vestur á firði til að vinna í fiski, fjarri öllum vinum og fjölskyldu. Þar kynntist hún karli föður mínum og hófu þau búskap á Ísafirði, móðir mín hélt áfram að vinna í fiski og faðir minn vann á steypustöðinni. Fátt fann móðir mín sér til dundurs á Ísafirði en áskotnaðist henni þó nokkrir plöntuafleggjarar, þar á meðal veglegur afleggjari af jukku (Yucca elephantipes).
Móðir mín hellti sér þá út í plönturæktun af miklum eldmóð, keypti sér ógrynni af bókum og gerði ýmsar tilraunir í ræktuninni. Ég veit ekki hvernig þetta var fyrir 27 árum síðan, en í dag teldist plönturæktun 18 ára stúlku líklega argasti lúðaskapur. Við verðum þó að taka inn í dæmið að hún var nýkomin til Ísafjarðar og lítið búin að kynnast fólkinu í bænum. Tveimur árum síðar flytja foreldrar mínir búferlum til Reykjavíkur og plönturnar fara með. Stuttu síðar kem ég í heiminn...
Jukkan hennar mömmu óx og dafnaði og það gerði ég líka, fljótlega var jukkan farin að taka mikið pláss og mikið bar á henni í stofunni. Jukkan er í bakrunninum á nánast öllum myndum sem teknar voru af mér á heimilnu. Hún var allstaðar, hún var fastur punktur í tilverunni hjá mér. Oftar en ekki var mér falið að vökva jukkuna með grænu könnunni góðu. Ekki of mikið, ekki of lítið, varð að vera akkúrat passlegt...
...Og árin liðu og alltaf stækkaði jukkan og ég að sjálfsögðu líka, fleiri börn bættust við fjölskylduna sem orsakaði búferlaflutninga að nýju. Einhversstaðar á leiðinni fór áhugi móður minnar á plönturækt dvínandi og eldmóðurinn við að halda í lífinu í þessum ljóstillífandi lífverum um alla íbúð minnkaði stöðugt... Ein af annarri hurfu þær... kaktutsar... gúmmítré... aloe vera... dag einn var stóri góði burkinn horfinn. Hann hafði tekið helminginn af stofunni á móti jukkunni í gömlu íbúðinni. Stuttu eftir flutninga fór ég að taka eftir að eitthvað vantaði, það var ekki bara burkinn, ég vissi um afdrif hans, það var eitthvað annað og meira sem vantaði.... olli þetta mér, 9 ára barninu miklu hugarangri...
Það var ekki fyrr en að einn sólríkan sumardag að ég er að leita mér að sólstól til að nota á svölunum að ég fer inn í eina ónotaða herbergið í íbúðinni sem tímabundið var notað undir drasl sem var á gráu svæði hvort væri geyma eða henda dót. Þar blasir eymdin við mér, þar stendur elskulega jukkan mín öll gulnuð og uppþornuð af súrefnis og vatnsskorti. Það tekur mig smá stund að átta mig á aðstæðum, hvernig gat móðir mín verið svona kaldrifjuð, var hún með hjarta úr stáli, hvernig gat hún sett varnalausa jukkuna þarna inn í herbergið og látið hana afskiptalausa þar sem hún beið dauða síns sem auðsjáanlega nálgaðist óðfluga.
Svo koma viðbrögð mín.... ég veina upp og skræki þangað til móðir mín kemur hlaupandi og heldur að ég sé stórslösuð. Ég messa yfir henni og húðskamma fyrir að dirfast að kvelja jukkuna okkar svona, fara svona með lifandi verur! Sannfæring mín er slík að móðir mín sem ætlaði sér að losna við fjandans jukkuna sem var farin að vera henni til ama, hálfskammast sín... ég linni ekki látunum fyrr en hún fellst á að hefja með mér björgunaraðgerðir. Með því skilyrði þó að jukkan verði inni í mínu herbergi, hún vildi ekki sjá fjandas jukkuna í stofunni, enda nýr stofuskápur og borðstofuborð á leiðnni og ekki gert ráð fyrir jukku í þeim stíl.
Mamma tók á það ráð að saga jukkuna í sundur og setja í tvo potta svo auðveldara væri að koma í hana lífi á ný. Inn í herbergið mitt fékk ég því tvo stóra plómapotta fulla af fölnaðri jukku. Ég hlúði að jukkunum mínum eins vel og ég gat en fljótlega fór þó annar helmingurinn... hinn helmingurinn náði sér á skrið og lifði í tvö ár, alltaf hálf ræfilslegur þó. Það var mikil sorg þegar ég gafst upp fyrir móður náttúru, játaði mig sigraða og lét jukkuna fara...
Blessuð sé minning hennar og megi hún hvíla í friði...
Svo fór fólk að flytja að heiman og fjölskyldan minnkaði, það kallaði á aðra flutninga. Í það skiptið ákvað mamma að hafa vaðið fyrir neðan sig og lét mig koma heim og fara í gegnum allt dótið í geymslunni, svo það væri örugglega ekkert sem ég hefði tengst tilfinningaböndum sem hún væri að henda. Ég varð þó að láta í minni pokann varðandi ýmislegt... mölétna bangsa sem hún neitaði að geyma kvaddi ég með tárum, poki af dúkkufötum hlaut sömu örlög... gömul náttföt, götóttir strigaskór.. Þessi sorpuferð var ákaflega sorgleg og tilfinningarík stund...
Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að geymslan hjá mér er full og allir skápar og allar skúffur! Ég get ekki hent dóti! Það er alltaf eitthvað.. æ þetta minnir mig svo á þetta, ohhh ég man eftir þessu... osfrv. Ég á allskonar minningakassa frá hinu og þessu tímabili, gamla ballmiða frá því úr FB, armbandið af fyrstu Þjóðhátíðinni minni, söngbækur úr vindáshlíð, hnýtt vinabönd og svona mætti lengi telja... ÞAÐ ER GAMAN AÐ SKOÐA ÞETTA! og ég geri það meira að segja stundum...
Dægurmál | 28.4.2007 | 15:30 (breytt kl. 16:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég er svo soðin á tánum að táfýlu leggur um allan skólann, þá er ég einnig svo svo sveitt í eyrunum að heyrntólin sem veita ljúfri lærdómstónlist þangað inn, haldast bara ekkert þar, heldur renna út. Kenni ég líka afar smávöxnum eyrum um....
Það sem orsakar þetta er skrifandinn! Hann kom yfir mig og ég skrifaði sem enginn væri morgundagurinn...
...en nú er morgundagurinn kominn og gærdagurinn mun svo sannarlega koma í bakið á mér þegar ég vakna á nýtilkomnum morgundegi... því ég er afar lítið sofin og mín bíður 11 tíma vinnudagur í þjónustustarfi...
En markmiði gærdagsins var náð og ég fer sátt í rúmið...
Dægurmál | 26.4.2007 | 01:12 (breytt kl. 01:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þverpólitísk sambönd hafa alltaf verið mér afar hugleikin, þá á ég ekki endilega við ástarsambönd, heldur bara hverskyns bönd sem túlka má sem sam-eitthvað.... En ástarsambönd eru mér að sjálfsögðu efst í huga, en ekki hvað!?
Á mínum virkustu Röskvuárum var það mér til dæmis mikið hjartans mál að reyna að koma saman Röskvu-Vöku pari og sjá sambandið standast álagið og jafnvel þróast í í kosningabaráttu! Ég einhleyp og hugguleg stúlka á uppleið bauð sjálfa mig að sjálfsögðu fram í tilraun þessa, enda ævintýragjörn með eindæmum. Féll hugmyndin í ágætan jarðveg röskvumegin og átti ég alveg dygann stuðningshóp varðandi þetta málefni.
Einhvernveginn fannst vökuliðum þetta greinilega ekki jafnspennandi hugmynd eða þá að ég var fullkomlega misskilin, því ítrekað kastaði ég mér í fangið á hverjum piltinum á fætur öðrum en ekkert gerðist, engin viðbrögð. Vökuliðar hafa jú nokkru sinnum vaknað á heimili röskvuliða, og öfugt eftir þverpólitísk partýhöld. Veit ég þó minnst um hvað gerðist áður en vaknað var og því síður hvað gerðist áður en svefninn kallaði, læt ég það því liggja kyrrt mili hluta. Þykir mér þó ástæða til að taka það fram að ég var ekki ein af þessum þverpólitískt vaknandi aðilum.
Eftir að ég hætti í röskvu er fólk þó farið að para sig saman milli fylkinga og þykja mér það gleðitíðindi og hvet eindregið til áframhaldandi blöndunar þessara tveggja hópa. *klappi, klapp* segi ég bara! Þetta fær mig þó til að leiða hugann að því hvort mistökin á sínum tíma hafi falist í að senda mig í þessa pílagrímsför til þverpólitískra sambanda...
Ég mun allavega halda áfram að lofsama þverpólitísk sambönd af hverju tagi og reyna að stuðla að þeim með öllum þeim hætti sem mögulegt er. Það er alveg nauðsynlegt að fara ekki að kasta grjóti í félaga sína hinu megin þó að það líði að kosningum...
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir... og jafnvel meira en það!
Dægurmál | 25.4.2007 | 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér tekst ýmislegt.... Nú er mér td búið að takast að ná mér í einhverja fjandans pest, rosalega heppilegur tími fyrir slíkt, þar sem prófin eru að detta inn og svona... Mér tókst að fara út á lífið síðasta vetrardag.. mér tókst meira að segja að gera mig ofboðslega sæta áður og allt... mér tókst að drekka ótæpilega mikið af fríum bjór... alltaf er það bölvun... þá tókst mér að ræða ótæpilega mikið um pólitík í crowdi sem kannski hafði ekkert rosalega mikinn áhuga á pólitík... mér tókst að koma Samfylgingunni vel að í þeirri umræðu og tókst að fanga áhuga þessa fólks sem ekki hafði upphaflega verið að deyja úr spenningi yfir heitum pólitískum umræðum... mér tókst að kíkja á Ölstofuna í heilar 5 mínútur... þar tókst mér að vera rukkuð fyrir 5 bjóra, 4 bjórum of mikið... sökum þess tókst mér að skvetta pínu bjór niður og tókst að fá til baka heilt bjórglas yfir mig, ekki bara bjórinn heldur glasið sjálft líka... tókst þar af leiðandi að fá leiðindaskurð á hendina eftir glerbrot... út af þessu veseni öllu saman tókst mér að vera hent öfugri út af ölstofunni, í leiðinni tókst mér að draga út tvo herramenn sem ekki voru neitt allt of sáttir við örlög sín... mér tókst þó að fá þá að mitt band og draga þá með mér á Barinn... Eftir það tókst mér ýmislegt fleira sem varla er prenthæft... en mér tókst allavega á fá lögreglu á staðinn og mér tókst að verða vitni af yfirgangi, hótunum og ósanngirni lögregluþjóna... En umfram allt, sem var allra best.. þá tókst mér að komast heil á húfi heim í rúmið mitt...
Mér tókst líka að taka þá ákvörðun í gær að djamma ekki neitt og innbyrða ekki öl fyrr en 12. maí næstkomandi... Þá ætla ég að vona að fyrir þann tíma takist mér að massa eins og eitt verkefni og aðeins af prófum...
Dægurmál | 20.4.2007 | 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það fór lítið fyrir 1000 metrum af sundi þessa helgina, ég var meira í 1000 sopum af bjór... Sem var sosum fínt. Tók í staðinn bara 700 af þessum metrum núna rétt í þessu.
Nú voru það ekki elliærir baksundstjillarar sem trufluðu einbeitingu mína í sundtökunum heldur sáu ærslafullir sjö ára krakkar (geri ráð fyrir að þau hafi verið um 7 ára, þar sem þau voru flest tannlaus í efri góm) í skólasundi um það. Þau voru þarna að æfa geimskot, jarðborun, kengúruhopp, og froskakvak. Þetta eru upplýsingar sem ég hef beint frá sundkennaranum. Ég veit ekki með ykkur en ég þegar ég var í skólasundi á mínum yngri árum þá lærðum við nú bara bak- og bringusund, skriðsund og eitthvað í þeim dúr. Þetta hljómaði miklu meira spennandi og ég er viss um að ég hefði verið orðin flugsynd fyrir 15 ára aldur ef skólasundið hefði verið eitthvað í líkingu við þetta í Breiðholtslauginni í denn.
Á mínum skólasundsárum var okkur krökkunum skipt niður í hópa eftir getu og var ég, topp 10, A nemandinn, alltaf í hóp F! Mér virtist lífisins ómögulegt að læra að synda, eins og ég var góð í öðrum íþróttum og ávallt með þeim bestu hvar sem ég fór. Þið getið ímyndað ykkur niðurlæginguna fyrir óskabarnið mig að vera F í sundi, ég var í hópi með strákunum úr "tossabekknum" sem skólasamfélagið var fyrir löngu búið að gefast upp á að kenna nokkrun skapaðan hlut. Það var alltaf helvíti á jörð þegar við fengum með okkur miða heim sem tilkynnti foreldrum okkar að skólasund hæfist í næstu viku...Dauði og djöfull...
Þannig gekk þetta í 10 ár! En svo bara kom þetta allt í einu, allt í gat ég bara synt!
Þessir ærslafullu krakkar voru einmitt að klára geimskotsæfingu á sama tíma og ég lauk við 700 metrana. Búningklefarnir fyllust því af skríkjandi smástelpum sem voru samt voðalega krúttlegar svona tannlausar. Þeim fannst ég í agalega fínum naríum og létu mig vel vita um skoðun sína á þeim. Einni þeirra fannst hún líka verða að sýna mér sínar sem að hennar sögn voru agalega fínar, enda g-strengur! Halló!!! Afhverju eru 7 ára stelpur í g-streng!? Afhverju eru til g-strengir fyrir 7 ára stelpur!? Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það... En stelpan var agalega sátt og fannst hún megapæja, trúi því vel.... Ógeðslega fullorðins.... kannski full fullorðins!
Það sem vakti þó mesta athygli mína var baðvörðurinn, hún var svo indæl við stelpurnar, voða góð, hjálpaði þeim að þurrka sér og lagaði á þeim hárið og slíkt. Þegar ég var að upplifa helvítið á jörð í Breiðholtslauginni snemma á tíunda áratug síðustu aldar þá voru baðverðirnir sko ekki blíðir og góðir, það var sko engin þurrkhjálp eða hárgreiðsla í boði á þeim bænum. Það var bara potað í okkur með priki og okkur skipað að þvo rassinn vel, ÚR SUNDBOLUNUM! og allt það...
Já það er gott að sjá að tímarnir hafa breyst til hins betra á einhverju sviði.
Dægurmál | 16.4.2007 | 18:47 (breytt kl. 18:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja þá er formlega hafið heilsuátak Sólrúnar 2007, nokkrum vikum á eftir áætlun, en hei betra er seint en aldrei! Ég var svo lukkuleg að Síminn ákvað að senda starfsmenn sína í átak núna fram á vor og gaf öllum starfsmönnum sundkort til afnota. Ég veit ekki hvort þetta tengist mötuneytinu eitthvað... veit heldur ekki hvort meðalþyngd starfsmanna í Ármúlanum er eitthvað ríflegri en starfsmanna á öðrum starfsstöðvum... Við erum allavega öll agalega spengileg þarna í Kringlunni en það má alltaf styrkja sig.
Ég ákvað því að bregða undir mig betri fætinum og taka smá sundsprett í Vesturbæjarlauginni. Lagði rauða Suzuki drekanum mínum milli tveggja Lexusjeppa með leðursætum og leit drekinn hálfræfilslega út greyið í þeirri stöðu... En allavega í sund fór ég! Leið pínu kjánalega spígsporandi á sundlaugarbakkanum í litla, nánast gegnsæja strandbikiníinu mínu sem rétt hylur það allra heilagasta. Efnismeira égeraðfaraísundáíslandi bikiníið mitt varð eftir í einhverju pottpartýinu síðasta sumar og hefur það ekki skilað sér og ég ekki fjárfest í nýju...
Ég synti eins og enginn væri morgundagurinn og náði 700 metrunum áður en tveir heldri menn vel yfir áttrætt hertóku brautina mína með "baksundsmaraþoni" Það var engan veginn pláss fyrir okkur þrjú þarna þótt við færum eftir kúnstarinnar reglum. Ég lét því í minni pokann og kíkti í pottinn. Það er samt allt svo þröngt þarna og pottarnir taka varla meira en þrjár manneskjur í einu. Það voru þrír í öllum pottunum og mér leið eins og ég væri að kasta mér hálfnakinni í fangið á karlmönnunum þremur er voru í pottinum sem ég valdi mér til slökunar. Ég er kannski of meðvituð um sjálfa mig og umhverfið en mér leið ekki vel og slakaði klárlega ekki á með þessa þrjá gaura þarna að strjúkast við lærin á mér, en þeir voru ennþá að rifja upp höstl síðustu helgar og farnir að leggja línurnar fyrir næstu.
Það leið því ekki á löngu að ég tók ákvörðun um að segja þetta gott og vippaði mér fimlega upp úr pottinum. Mér til mikillar skelfingar fann ég þegar upp kom að efnislitla næstum gegnsæja bikiníið var ekki bara efnislítið og gegnsætt heldur líka vel uppi í skorunni.... Ég trítlaði því á hraða ljóssins yfir sundlaugarsvæðið og reyndi laumulega að kippa brókinni aðeins niður í leiðinni... Var stundinni vel feginn þegar ég greip í húninn á baðklefanum og var hólpinn.
En allavega átakið formlega hafið og 700 metrar að baki. Það er ágætisbyrjun, á morgun tek ég 1000 metrana, þeas ef ellismellirnir mæta ekki á svæðið í baksundstjill!
Ég er svo frísk að mig langar næstum bara í skyr og hrökkbrauð með kotasælu, ég ætla að sjá hvað ég finn mér í ískápnum...
Dægurmál | 12.4.2007 | 19:47 (breytt kl. 19:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Karlmenn hafa ávallt, síðan ég komst til vits og ára, verið mér ofarlega í huga. Oft eru það einhverjir ákveðnir karlmenn en stundum bara karlmenn almennt. Hefur hegðun og framkoma þessara, bæði ákveðnu og almennu karlmanna, veitt mér mikinn innblástur í skrifum mínum í gegnum tíðina. Hver man ekki eftir gömlu góðu blogspot síðunni minni þar sem fyrirsagnir á borð við: ÉG HATA KARLMENN, KARLMENN ERU AUMINGJAR, EF ÞÚ ERT KARLMAÐUR, FARÐU! voru daglegt brauð. Oftar en einu sinni rataði bloggið mitt í blöðin þar sem mynd af mér birtist undir fyrirsögninni: HATAR KARLMENN. En það var í gamla daga og hef ég aðeins róast með aldrinum. Ég er þó ennþá þekkt fyrir ansi sterkar og miklar skoðanir á hegðun karlmanna gagnvart kvenfólki og er mér tíðrætt um það. Þegar við á spara ég ekki stóru orðin!
Hvað í ósköpunum er það sem ég læt fara svona í taugarnar á mér? Það er góð spurning... Kannski er ég bara bitur einhleyp kona sem hefur áhyggjur af því að pipra í hel, kannski er ég bara bitur stúlka sem fæ aldrei það sem ég vil, kannski er ég bara bitur stúlka sem þarf alltaf að fá þá sem ekki er fáanlegt, kannski er ég í raun bara mjög sanngjörn, óheppin stúlka með miklar skoðanir og tjáningarþörf. Pick one!
Auðvitað geta samskipti kynjanna verið erfið og það er eðlilegt að fikra sig áfram í leit að hinum eina sanna og reka sig á ýmsar hindranir á leiðinni. Sumir eru heppnari en aðrir í þessum efnum og það er bara staðreynd sem stúlka í hamingjusömu sambandi til 10 ára getur ekki maldað í móinn með til huggunar fyrir hinar ekki svo heppnu. Það þýðir ekkert að segja við einhleypu bitru vinkonurnar, sem ekkert þrá meira en eiginmann til að knúsa og kyssa, að þær finni hinn eina sanna einmitt þegar ekki verið er að leita! Virkar það þannig? Birtist hann bara á tröppunum hjá þér með ábyrgðarpósti þegar þú átt síst von á? Nei held ekki. Auðvitað er kannski eitthvað til því að hlutirnir gerist þegar þú átt síst von á þeim. En ég held einmitt líka að því geti verið öfugt farið. Andvaraleysi getur bara hreinlega valdið því að þú ert ekki viðbúin þeim tilburðum er karlmaður sýnir í makaleit! Þú áttar þig ekki á stöðunni og þá er klúður og misskilningur í uppsiglingu. Það skiptir máli að vera meðvitaður, undirbúin og kunna að taka hlutunum, gera það rétt!
En svo við snúum okkur aftur að því sem fer í taugarnar á mér og veldur þessu sem sumir kalla biturð... Þá held ég bara að sumar konur laði að sér ákveðnar týpur karlmanna, sem hljómar ákaflega eðlilega og allt gott og blessað með það. En það er samt voðalega leiðinlegt ef týpan er hinn óákveðni karlmaður, tækifærissinninn sem telur grasið alltaf grænna hinum megin. Nú eða fjarlægðin gerir fjöllin blá týpan, maðurinn sem vill ekkert meira en vera með þér að eilífu þegar þú ert ekki lengur til staðar. Svikarinn er heldur ekki að gera sig, týpan sem lofar öllu fögru en er svo ekkert nema orðin innantóm. Allt svakalega súrar týpur sem því miður vilja oft púkka upp á mig og ég leyfi þeim það... Góða pilta hef ég ekki viljað sjá! Spurning um að taka sig til og breyta því... Kannski liggur vandamálið í raun bara alfarið mín megin...?
DON´T THINK SO!!!!
en ágætis og réttmæt pæling engu að síður...
Lifið heil sykursnúðar
Dægurmál | 11.4.2007 | 01:06 (breytt kl. 04:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jæja þá er páskadagur runninn upp gulur og fagur og ég fersk eins og vorvindur þrátt fyrir skrall í gær.
Í fyrsta skipti í 22 ár (22 segi ég því borðaði ekki nammi fyrstu 3 ár ævi minnar) þá gaf móðir mín mér ekki páskaegg. Þetta eru tímamót í mínu lífi og ég skil þetta eggjaleysi þannig að móður minni finnist ég vera orðin stór. Systir mín 19 ára fékk heldur ekki egg, en hún gjeldur fyrir að vera 6 árum yngri en ég og tapar þar af leiðandi 6 árum af eggjum og barnæsku sem hún hefði getað haldið. Hún er orðin fullorðin á sama tíma og ég. Svo fullorðnar, hún 19 ára og ég 25 ára. Mikil tímamót! Mér líður næstum eins og ég þurfi að fara að haga mér í samræmi við það. Svo er það aftur á móti spurning, hvernig haga fullorðnir sér, eru þeir sem gleyma að halda í barnið í sér ekki bara dead boring og döll..?
Mamma mín er líka farin að tala um að hana vanti börn til að fara með niður á tjörn... það er bara hægt að skilja það á einn veg! Ég er ennþá bara að leika mér, ekki tilbúin að fara að búa til börn svo mamma komist niður á tjörn. Svo þarf líka tvo til að geta börn, þó reyndar séu um það dæmi í mannkynssögunni að konur hafi eingetið börn... geri fastlega ekki ráð fyrir því að sagan endurtaki sig með mér...
Ég einhverveginn sé mig bara ekki fyrir mér í þessari stöðu á næstunni, að vagga barni í svefn, stúlka eins og ég sem ennþá sefur með bangsa og með klósettljós af sjúklegri myrkfælni og móðursýki. Móðir mín verður því líklega að sætta sig við að hinkra aðeins eftir tjarnarferðum eða fá lánuð börn til þess einhversstaðar.
Og ég held í barnið í mér og mun varðveita vel og lengi!
Dægurmál | 8.4.2007 | 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Æ hvað ég sé fram á huggulegt kvöld.... Byrjaði á að "elda" mér núðlusúpu, tók gourmet útgáfuna í þetta sktiptið. Gourmet útgáfan felur í sér að súpunni er skellt í pott, ekkert örbylgju/hitakönnu kjaftæði. Svo er súpunni breytt í dýrindis núðlurétt með því að skella nokkrum ostsneiðum yfir núðluhrúguna og hræra vel í. Þá er dassi af ítölsku hvítlauskryddi stráð yfir og jafnvel ef vel liggur á þá má fullkomna máltíðina með því að hrista yfir örlítið af rifnum parmesanosti! Bjútífúl!
Súpuna skóflaði ég í mig yfir heilahjáveituaðgerð þar sem opna þurfti brjósthol með rifjaglennu í miðri aðgerð til að koma í veg fyrir hjartastopp. Þetta var víst rosa aðgerð og tók ansi mikið á McDreamy, enda var þetta gömul vinkona hans (Ég var semsagt að horfa á Grey´s anatomy ef einhver er ekki að átta sig). Ég var svo heppin að stöð 2 er að sjónvarpa opinni dagskrá þessa dagana og því gat ég horft aftur á 18 þátt af Grey´s. Og heppnin er með mér í kvöld því með tilkomu Tvoadsl lyklilsins míns þá get ég stillt á Skjá einn plús og horft á einn "gamlan" af OC þrátt fyrir sama dagskrártíma. Jibbí!
Og þetta er ekki búið.. því að þessu loknu þá dettur CSI inn ten o´clock. Vúbbídú!
Guð veit hvað ég geri eftir það, kannski ég skelli mér bara á rúntinn með með nýja Doro fm sendinum mínum sem sendir tónlistina úr mp3 sony bauninni minni beint í útvarpið í bílnum á bylgjulengd 88,3. Þvílíkur munaður. Ipod/Itrip hvað? Tónlist að eigin vali í rauða drekanum. Svona á þetta að vera, eintómur lúxus.
Já svona tekst manni að eyða kvöldi í allt annað en að læra... Ágætis afrek...
Jæja vandræði Ryans og Taylor kalla!
Dægurmál | 2.4.2007 | 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dægurmál | 2.4.2007 | 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)