Samkvæmt minni rannsóknarvinnu þá ríkir ekki skemmtileg deitmenning á Íslandi, hún bara ríkir reyndar ekkert því hún er ekki til! Jú það eru kannski einhverjir sem kunna þetta fag og stunda af mikilli lipurð en þeir eru án efa mikill minnihlutahópur. Og nú er ég eingöngu að notast við þær upplýsingar sem ég hef frá heimildarmönnum mínum. Sjálf myndi ég ekki segja að ég hefði farið á mörg deit í gegnum tíðina, einhver hafa þau verið og þá gengið misvel... aðallega mis.. Einhvernveginn finnst mér hlutirnar alltaf bara ganga betur ef maður sleppir deitinu. Sem felst þá í að maður bara byrjar með vinum sínum eða kynnist einhverjum og byrjar að hanga með honum... svona eins og fólk hangir... og svo bara allt í einu er maður par, ekkert deit, ekkert vesen!
Ég er svo tens stundum í samtskiptum við fólk af hinu kyninu að ég þegar ég þarf að fara að halda uppi vitsmunalegum samræðum án samræðis á svokölluðu formlegu deiti þá kyngi ég karakternum mínum og gleypi loft með. útkoman er agaleg, ég segi hluti sem fá mig til að langa að klæða mig úr skónum og berja sjálfa mig í hausinn með honum þangað til ég missi meðvitund. Nú eða þá að ég segi bara yfir höfuð ekkert og gaurnum finnst ég þar af leiðandi álíka spennandi og stóllinn sem ég sit á og var búinn að gleyma því að hann þurfti einmitt að fara annað klukkan 9! Bless!
Ég væri rosalega til að geta farið eðlileg á deit og skemmt mér vel án þess að vera með í maganum allan daginn og gubba svo af stressi hálftíma áður. Það er mjög átakanlegt og því reyni að forðast það sem heitan eldinn að fara á formlegt kaffihúsadeit. Fyrir mig er það eins og hrein og klár aftaka! Það má ekki kallast deit eða líta út eins og deit, það er bara ekki að ganga fyrir mig.
Bækur eins og Súperflört gera lítið gagn, enda kenna þær manni bara að tæla, fikta í hári, snerta höku, eiga salinn og allt það. Svo er maður bara skilinn eftir í lausu lofti með framhaldið! Jú bókin Súpersex er líka til en hvar er miðjuhlutinn, hvað er á milli flörtsins og sexins? Það vantar eitthvað þarna á milli sem ég væri til í að læra. Það er einmitt rosalega íslenskt! Flört oooog svo sex! Búið!
Spurning hvort eitthvað frumlegra en kaffihúsa eða bíóferð myndi gera eitthvað meira fyrir mig, fá mig til að slaka á. En við búum á Íslandi og það getur verið afar takmarkandi. Hvað er hægt að gera á deiti? Ég held að utanaðkomandi aðstæður valdi því að Íslendingar eru arfaslakir deitarar. Við höfum ekki réttu aðstæðurnar til að skapa vel heppnuð, rómantísk deit. Því er nú ver og miður!
Dægurmál | 28.3.2007 | 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég uppgötvaði í gær mér til mikillar ánægju að það er hinn fínasti glasahaldari í bílnum mínum! Bílinn keypti ég í byrjun janúar... Ég er búin að bölva þessu glasahaldaraleysi svona 117 sinnum og röfla um það mikið við hina ýmsustu farþega í bílnum hverju sinni hvurslags mishönnun það sé að hafa ekki glasahaldara í öllum bílum. En svo í gær fór ég eitthvað að taka til í bílnum, tína rusl í poka og rek mig í öskubakkann að ég hélt! En nóbb! Út skúbbaðaðist þessi líka vel stöðugi, tvöfaldi glasahaldari!
Annars þá átti litli bróðir minn, hann Róbert (sem ekki er lengur svo lítill því hann stækkar og stækkar) afmæli í dag. 16 ára strákurinn og pabbi er víst búinn að finna handa honum ökukennara. Vonandi er hann eitthvað skárri en ökukennarinn sem hann fann handa Dagnýju systir minni fyrir 3 árum. Það var gömul kona sem hrökk uppaf sökum elli daginn sem hún tók prófið! Hún var víst alltaf svo upptekin við að keðjureykja að Dagný varð sjálf að finna út hvernig hlutirnir virkuðu í svona bílum...
Ég gaf drengnum Draumalandið í afmælisgjöf, það er fyrsta skref mitt í að bjarga heiminum ( ég ákvað að reyna markvisst að stefna að því að bjarga honum eftir að hafa séð heimildarmyndina hans Al Gore í gær, An inconvenient truth). Bróðir minn er fínn kandídat í stefna að þessu með mér enda harðpólitískur vinstrimaður og einn gáfaðasti og viðráðanlegasti 16 ára krakki sem til er!
Ég ákvað að skella hérna með mynd af okkur systkinunum frá síðustu jólum. Til gamans má geta að svona mynd hefur verið tekin af okkur saman frá því að við öll hófum tilveru okkar hér á jörð. Alltaf fyrir framan jólatréð hjá ömmu og afa á aðfangadagskvöld... Nema hvað.. nú sést ekki lengur í tréð...
Dægurmál | 28.3.2007 | 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jæja á föstudaginn fór ég á þriðju og síðustu árshátíðina mína þetta sísonið. Nú var það árshátíð Röskvu. Það var heljarinnar hressleikasamkunda eins og við mátti búast. Til að taka þátt í herlegheitunum brá ég mér í betri fötin, blár kjóll varð fyrir valinu að þessu sinni. Við hann fór ég í gyllta skó og greip með með mér gyllt samkvæmisveski nákvæmlega í stíl. Til að kóróna setti ég upp gyllta eyrnalokka einnig í stíl. Samsetningin fullkomin, skór og veski í stíl, blingið á sínum stað, allt eins og það átti að vera.
Þó maður dressi sig nú kannski helst upp bara fyrir sjálfan sig þá er nú ekki verra að vera huggulegur fyrir karlpeninginn líka. Tala nú ekki um þegar maður er laus og liðugur... Mín reynsla er hinsvegar sú að flestir karlmenn taka óttalega lítið eftir hverju við dömurnar klæðumst, nema bolirnir séu þeim mun flegnari og pilsin í styttra lagi. Þeir taka voða lítið eftir því hvort samkvæmisveskið er í stíl við skóna eða hvort bolurinn tóni við beltið. Það er mín reynsla hingað til. Hingað til segi ég! Því þessa helgina hefur karlpeningurinn enn og aftur komið mér á óvart. Og í þetta sinnið ekki bara með hæstu hæðum í hálfvitaskap eða nýjum metum í skíthælshætti. Þó að það hafi líka fylgt.. en það er önnur saga!
Fyrsta óvænta atvikið átti sér stað á sjálfri árshátíðinni þar sem ungur maður í huggulegri kantinum, bæði í fasi og klæðaburði, vatt sér upp að mér og tjáði mér hversu agalega smekkleg ég væri. Skórnir og veskið alveg í stíl. Svona á að gera þetta sagði hann, hugsa um heildarmyndina. Nákvæmlega rétt hjá honum, gáfumaður þar á ferð! Í framhaldinu áttum við svo ágætar umræður um tísku, smartleika og umfram allt, heildarmyndina.
Annað atvik sama kvöld á sér stað á Ölstofunni. Ég kannski í fínni kantinum miðað við aðstæður, í vel flegnum samkvæmiskjól með uppsett hárið. En fannst það allt í lagi, enda líkar mér vel að vera fín og nýti tækifærin til þess sem oftast. Þá sest hjá mér maður og tjáir mér hversu glæsileg ég sé nú og hví í ósköpunum ég sé svona fín. Ég tjái honum það og við förum að spjalla... Um tísku, um heildarmyndina, um samkvæmisveski í stíl við skó, um bindi sem tóna við skyrtur og þar fram eftir götunum. Alveg merkilegt. Tveir afar ólíkir menn, sama kvöld, sama umræða. Ég varð svo ánægð og fékk trúna á karlmenn aftur. Kannski alls ekki svo slæmur þjóðflokkur hugsaði þegar ég lagðist sátt til hvílu eftir skemmtilegt og fræðandi kvöld.
Svo kemur laugardagur og maður kíkir í hvítvín eins og vill gerast á laugardögum. Leiðin liggur í bæinn og svo er maður spurður um rauða bolinn, já karlmaður spyr mig um flík sem ég klæddist síðast í janúar! Hvernig man karlmaður eftir flík sem stelpa klæddist í janúar? Það var alveg farið að hvarfla að mér að ég hefði síðastliðin árin bara verið að misskilja eitthvað og að karlmenn væru í raun og veru frábærir! Og þegar annar maður úr allt annarri átt spyr mig líka um rauða bolinn þá vissi ég ekki hvert ég ætlaði! Þetta var of mikið fyrir Sólrúnu að taka á einni helgi, stúlkuna sem var þekkt fyrir að hata karlmenn. En ég var heppin, því áður en helginni lauk þá jafnaðist þetta út, karlpeningurinn sannaði enn og aftur stöðu sína í mínum augum. Ný met, nýjar hæðir!
Þessi mynd kannski fangar ekki alveg heildarmyndina en hún fangar klárlega stemmninguna!
Dægurmál | 25.3.2007 | 22:48 (breytt kl. 23:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fór allt í einu að hugsa um brúðkaup í gær, eða reyndar ekkert allt í einu, ég var að horfa á bíómynd sem fjallaði um brúðkaup og hugur minn fór að reika. Ég fór þó ekkert endilega að hugsa um mitt eigið brúðkaup enda geri ég ekki ráð fyrir því í náinni framtíð. Tel mig þó vera fyllilega tilbúna þegar rétti maðurinn finnur mig...
Ég leiddi hugann að þeim brúðkaupum sem ég hefið farið í. Þrisvar á lífsleiðinni hefur mér hlotnast sá heiður að fylgjast með giftingarathöfn í kirkju og í þau þrjú skipti hef ég grenjað, tárást og snökt og reynt af mikilli leikni að fela það. Það er svo mikil klisja að grenja í brúðkaupum. Ég er reyndar ákáflega dramatísk og tilfinningarík manneskja svo það sæmir mér líklega vel að hágrenja við slíkar athafnir..
Fyrst var það brúðkaup foreldra minna, þá var ég 6 ára. Grátur minn á þeim tíma orsakaðist þó klárlega ekki af fegurð athafnarinnar eða almennri tilfinninganæmi minni í garð kirkjubrúðkaupa. Ég held að enginn hafi vitað afhverju ég skældi, hvað þá ég sjálf. Ég tek það samt fram að ég orgaði ekki eins og frekur krakki heldur sat ég bara með fýlusvip og snökti. Mér fannst ég líklega bara eitthvað afskipt og útundan enda var litlu systur minni líka gefið nafn á sama tíma. Ég var því sú eina í kjarnafjölskyldunni sem ekki fékk að vera með athöfninni... enginn þörf fyrir brúðarmeyjar á þeim bænum... Ég sat því bara í nýju svörtu lakkskónum mínum, með stóra hárborða, nagaði á mér hárið og snökti...
Svo var það brúðkaup vinafólks, sameiginlegs vinafólks míns og fyrrverandi kærasta. Við höfðum einmitt hætt saman nokkrum vikum fyrir brúðkaupið eftir tæpt 4 ára samband... En mættum þangað saman samt sem áður. Það varð alveg óstöðvandi táraflóðið á þeirri samkundu. Mér fannst alveg óskaplega sorglegt og táraaukandi hvað það væru mörg ár í að ég myndi upplifa svona fallegt lítið brúðkaup.... Væli, væli, væl...
Þriðja og síðasta var brúðkaup föður míns og annarar konunnar hans(þetta fyrsta entist semsagt ekki að eilífu), það var síðasta sumar. Daginn fyrir þá athöfn hætti ég einmitt með öðrum kærasta, reyndar ekki til langs tíma, en var þó búin að vera í karlmannsvandræðum og dramtík allt það árið svo ég var afar viðkæm og með mikið af innbyrgðum tilfinningum kraumandi og bullandi sem voru alveg tilbúnar að flæða út um augun á mér við minnsta áreiti. Sem þær og gerðu... Um leið og presturinn byrjaða að tala var ég farin að snökta... ég tala nú ekki um þegar söngkonan hóf raustina: Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag.. og syndaflóðið hófst. Að vísu fannst mér pínu skrýtið að sjá pabba minn gifta sig... en það er önnur saga...
Á þessari upptalningu má sjá að í þessi þrjú skipti þá var ég veik fyrir... Grenjið í mér stafaði ekki eingöngu af viðkvæmni minni gagnvart brúðkaupum heldur spiluðu aðrir þættir inn í ferlið. Fyrst var ég að díla við nýtilkomna systir og breytingar í fjölskyldunni og í hin skiptin var ég að þjást í minni eigin ástarsorg. Ohhh vesalings ég hvað ég á alltaf bágt...
Ahhh hvað ég er fegin að vera í góðu jafnvægi núna, alveg laus við alla dramatík og vesen. Ég á ekki mörg svoleiðis tímabil að baki. Nú er bara að njóta þess!
Dægurmál | 21.3.2007 | 23:25 (breytt 22.3.2007 kl. 03:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það dónalegasta sem ég veit er þegar fólk talar í símann meðan verið er að afgreiða það og lætur í þokkabót þannig afgreiðslufólkið sem er að þjónusta það sé að valda gífurlegri truflun! Sussar og allt, setur fingurinn á munninn! Fólk sem sjálfviljugt kemur inn í verlsun eða til hverskyns þjónustuaðila og óskar eftir þjónustu eða afgreiðslu getur að lágmarki sýnt þá kurteisi að gefa sér tíma í að koma því til skila hvað það óskar eftir.
Mér td, sem þjónustufulltrúa á ekki að þurfa að líða eins og ég sé að valda einhverjum varanlegum skaða eða alvarlegri truflun þegar ég spyr viðskiptavin, sem valdi að koma til mín á þeirri ákveðnu stund, hvaða þjónustu hann vilji. Eða þegar ég tilkynni honum hvað hann þarf að greiða háa upphæð fyrir vöruna sem hann vantaði á nákvæmlega þeim tíma.
ÉG ER EKKI AÐ TRUFLA!
Nú ef mjög mikilvægt símtal kæmi hugsanlega upp meðan viðskiptavinur er nákvæmlega staddur í afgreiðslu þá er ekkert sjálfsagðara að en að hann svari í símann... Bara sýna smá kurteisi, biðjast afsökunar þá eru allir glaðir
Treystið mér, afgreiðslufólki langar ekkert til að skella einhverju fríu með, gefa afslátt eða vera hresst og fullt af þjónustulund þegar það er hreytt í það ónotum eða sussað á það með fingrinum. Treystið mér, treystið.... ég veit...
Kurteist fólk minnir mann alltaf það hvað mannfólkið getur verið indælt. Hvað manni líður miklu betur að vera kurteis. Maður sér oft hvað þreytt afgreiðslufólk í verslunum verður þakklátt þegar maður er kurteis og kemur fram eins og það sé í raun og veru lifandi mannverur ekki bara einhver vélmenni sem skanna verð inn í kassa...
Kurteisi, eitthvað fyrir alla!
Dægurmál | 21.3.2007 | 01:19 (breytt kl. 01:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ungur maður sagði við mig á árshátíð Símans að ég væri eins og ævintýraprinsessa! Ég sármóðgaðist, sagði honum að eiga sig og strunsaði burt! Þó að ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að í bleikum síðkjól væri ég meira sæt og saklaus heldur en svöl og sexý þá þótti mér þetta óþarfa komment og langaði ekkert að vera spurð hvar dvergarnir 7 væru... eða hvort ég þyrfti ekki að fara að drífa mig heim, því klukkan nálgaðist miðnætti... ég varð því bitur um stund...
þarna er ég að vera bitur um stund... og Freyja að setti upp stút...
En svo varð allt gott aftur og við fórum að dansa, ég í bleika síðkjólnum sem þvældist um allt og á endanum reif ég neðan af honum lufsið sem allir voru búnir að troða á og tæta í sundur... kjólinn þarf semsagt að falda upp á nýtt fyrir næstu mannamót.
Karlmenn höfðu afskaplega mikla þörf fyrir að taka mig upp, veit ekki hvort það var kjóllinn... ævintýri eitthvað... prinsessur...
fyrst var það Ari....
Svo Steini, honum gekk ekki jafn vel... og ég endaði á hvolfi... af því náðist því miður ekki mynd
Ævintýri bleika síðkjólsins enduðu í miðbæ Reykjavíkur þegar kápunni minni var stolið á Barnum. (Rosa góð pæling að fara í kjólnum í bæinn) Ég strunsaði því út af Barnum og niður allan Laugaveginn á kjólnum einum fata með litla samkvæmisveskið mitt. Fólk vék úr vegi mínum, ekki skrýtið... hugsa að ég hafi komið ansi undarlega fyrir sjónir í þessari múnderingu í slyddunni um hávetur í Reykjavík... Þarna vantaði bara að ég tapaði glerskónum...
Dægurmál | 15.3.2007 | 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Myndir! Ákvað að anna mikilli eftirspurn eftir myndum, fyrsta mappan komin inn hérna vinstra megin, frá Árshátíð Símans sem var heljarinnar samkunda. Á þessum myndum má sjá að við í Kringlunni erum frekar sjálfhverf enda eru myndirnar nánast eingöngu af okkur! Fallegt fólk þar á ferð. Hinir 1290 sem voru staddir þarna með okkur, sjást hvergi...
Ég læt myndirnar tala sínu máli...
Dægurmál | 12.3.2007 | 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jæja þá er það klappað og klárt, borgað og skráð að ég er að fara til Kína 7. júlí næstkomandi. Þar ætla ég að nema kínversku við háskólann í Ningbo ásamt eðalskvísunum Freyju og Eyrúnu. Þetta er mánaðaprógramm og hljómar afar spennandi
Ég er svo spennt að ég er að tapa áttum yfir þessari gífurlega flippuðu ákvörðun minni! Ég er ekki þekkt fyrir mikið ferðaflipp enda hef ég hingað til bara farið erlendis til að flatmaga á sólarströnd og versla mér föt. Þetta verður töluvert öðruvísi pakki og ég er afar fegin að hafa tvær veraldarvanar konur mér við hlið.
á morgun eru bara 4 mánuðir upp á dag í brottför! Ííííííík hvernig á ég að geta beðið??!
Hér má sjá okkur tilvonandi Kínafara á góðri stundu, takið sérstaklega eftir góðum svip af minni hálfu...
Dægurmál | 6.3.2007 | 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)