Ljúfa helgin

 Skelli inn helgarbloggi í tilefni þess að ný helgi er að skella á!

Ákaflega fín helgi að baki, heilsufarslega var hún reyndar mjög átakanleg enda er ég núna raddlaus og búin að vera það síðustu 3 daga. Þá er ég líka langt komin með heilan regnskóg af snýtipappír.

Föstudagurinn fór í að reyna að koma mér til heilsu með öllum mögulegum ráðum, inntöku ýmissa verkjalyfja og notkun óhóflega mikils Nezerils. Þannig tókst mér að koma mér af stað á árshátíð Politicu... koma mér af stað segi ég því ekki gekk það eins og í neinni sögu. Fyrst var planið að ég yrði pikkuð upp en þá týndust bíllyklar í Hafnarfirði... plan b var svo að ég pikkaði upp. Lagði af stað í góðu grúvi í Breiðholtið á háannatíma, ég var samt í svo miklu grúvi að ég tók varla eftir háannatímanum fyrr en bíllinn minn fór að haga sér undarlega... allt einu fór miðstöðin að blása á mig köldu, snúningshraðamælirinn snérist of hratt, rafgeymaljósið kom í mælaborðið og hitinn á vélinni rauk upp úr öllu valdi. Hringdi ég því í snarhasti í karlinn föður minn sem sjúkdómsgreindi þetta sem slitna viftureim og að ég skyldi stöðva bílinn á nóinu. Nóið var ekki í boði því ég var í miðju umferðaröngþveiti. Varð ég því að biðja og vona að bíllinn myndi ekki bræða úr sér á næstu mínútunum. Sem betur ferð náði ég að drösla bílnum með sjóðandi vélina á eitthvað plan í Breiðholtinu og labbaði þaðan til Freyju og Eddu sem ég ætlaði að vera svo indæl að pikka upp! Sem betur fer eru þær frekar yfirvegaðar stúlkur og héldu því bara áfram þrátt fyrir þessar raunir og verulega seinkun.

Árshátíðin hófst á fordrykk í LÍÚ, við heyrðum reyndar ekki mikið af því sem fór fram í þeirri kynningu enda seinar á ferð og átti ölið hug okkar allan. Við ræddum því bara örlítíð um botvörpuveiðar og átum rækjur til að vera með. Svo var það kaffi Reykjavík, byrjuðum á Ísbarnum, frekar svalt.... Og svo var bara étið, drukkið og dansað við 90s tónlist langt fram á nótt. Ég fór heim raddlaus og ískrandi eftir að hafa fundið og kynnst stjúpbróður mínum.

Laugardagurinn var jafnraddlaus og föstudagskvöldið en þá var stelpuhittingur í Baðhúsinu, dekur og slökun, ekkert púl, svo það sé á hreinu! Ein fékk nýrnasteina, ein kom með váleg tíðindi að heiman og svo flæddi úr uppþvottavél niður í íbúðina hjá einni... Þrátt fyrir þetta þá tókst okkur öllum að hittast og eta saman um kvöldið, meira segja þessi sem fékk nýrnasteinana mætti. Hún skolaði þeim bara út af æsingi yfir því að komast ekki á löngufyrirframplanaða djammið, sem var hennar fyrsta í eitt og hálft ár... já það gerist þegar fólk fer að fjölga sér....

Svo var það bara Júróvisjón og læti, mikil læti og svo Júróvisjón á Nasa og enn meiri læti og meira 90s. Djöfull var þetta gaman.


Valentínus hvað?

Í gær var Valentínusardagurinn og allt gott og blessað með það! Eftir að hafa verið kæfð, kaffærð og drekkt í auglýsingum um krúttlega bangsa, blómvendi og hjartalaga konfektöskjur þá skundaði ég gremju minni og biturð, þrælkvefuð með fullan hausinn af hori niður í konfektbúð. Þar sérvaldi ég mér, af mikilli kostgæfni, 10 mola af unaðslega góðu og silkimjúku belgísku konfekti. Afgreiðslukonan setti molana snyrtilega í fallega gjafaöskju og spurði hvort ég vildi skrautborða utan um hana. Ég gleymdi mér yfir glitrandi og marglitum borðum en rak augun svo í spjald þar sem stóð að rukkað væri sérsaklega fyrir skrautborða... Hugsaði í skyndi að það væri nú óþarfi að spreða í borða fyrst ég ætlaði bara að gúffa þessu öllu í mig sjálf. Sagði því við afgreiðsludömuna með ástfangið bros á vör: nei veistu, ég held ég eigi borða heima, ég föndra bara eitthvað sætt, það er miklu persónlegra...  HALLÓ! Sólrún... Fannst ég eitthvað lúkka illa og ódýr eitthvað yfir því að tíma ekki að kaupa borða handa "elskunni" minni á degi elskenda, svo ég laug þessu kjaftæði upp í opið geðið á henni og fór svo flissandi út úr búðinni yfir vitleysunni í mér...

Kvöldið var eðalfínt, skellti mér með eðaldömunum Eyrúnu og Freyju á Vegamót og borðaði þar eðalfínan mat. Fórum svo heim með góða ræmu í tilefni dagsins og gúffuðum í okkur dýrindis konfekti. Þetta var sko alveg eðal, held ég hafi aldrei átt betri valentínusardagSmile


Stúdentaráð! Sögulegur sigur!

í Kvöld sigraði Röskva kosningar til stúdnetaráðs í Háskóla Íslands! Fylkgingarnar, Röskva og Vaka, felldu út mann H-listans og Röskva náði 5 mönnum inn í Stúdentaráð. Það er sögulegur sigur og þakið ætlaði að rifna af kosningaskrifstofu Röskvu þegar úrslitin voru kunngjörð. Það var dansað, það var grátið, fólk féll í faðma, fólk féll í trans! við sigruðum!!! Við fokking sigruðum, loksins! Eftir að hafa saxað á forystu Vöku í nokkur ár, þá tókst okkur, á málefnalegum fosendum að fella þau! Við erum sterkari! Hópurinn okkar er öflugri og við munum sanna okkur á komandi starfsári! Ég er stolt að því að vera hluti af heildinniGrin

ÁFRAM RÖSKVA!!!


Að sigra uppgjöfina

Ég er afskapalega áköf manneskja, ég vil að hlutirnir gerist strax og vil hafa þá eins og mér hentar. Ég reyni og reyni og lifi í þeirri sjálfsblekkingu að ég sé að ná tilskildum árangri og að allt stefni í að ég nái markmiðum mínum. Ég gefst ekki auðveldlega upp. Það veldur því að stundum er ég stanslaust að berja hausnum í sama vegginn aftur og aftur. Ég skal, ég skal, ÉG SKAL! BAMM, BAMM, BAMM! 

Hjá mér eru þó ákveðin mörk, uppgjafarmörk.... ef hlutirnir ganga ekki upp og verða eins og ég vil hafa þá eftir ákveðin tíma, þá gefst ég upp. Þessi uppgjafarákvörðun er rosalega erfið og er yfirleitt ekki tekin nema ég telji að geðheilsa mín sé í mikilli hættu. Jafnvel líkamleg heilsa líka ef því er að skipta. Þegar ég verð nógu stressuð og upptekin af því að ná markmiðum mínum þá fer líkaminn minn í einhverskonar afneitunarástand. Hann afneitar ákveðnum tilfinningum eins og hungri og þreytu, líklega til að ég geti nýtt allan minn tíma í að vera upptekin af því sem liggur mest á mér þá stundina. Ég get farið í gegnum heilu vikurnar á nokkrum brauðskorpum, lítilli jógúrt og 3 tíma svefni á hverri nóttu án þess að finna eitthvað sérstaklega fyrir því. Það er ekki fyrr en ástandinu sleppir að ég finn að maginn í mér er farinn að melta sjálfan sig af hungri og að augun eru sokkin inn í hausinn á mér af þreytu.

Uppgjöfin er því oft kærkomin, stundum mætti jafnvel kalla hana sigur! Það vill svo til nefnilega að oft er ég að stefna að einhverju sem hvorki er mér hollt né öðrum í kringum mig. Einhverju sem er svo vonlaust að markmiðið er í meiri fjarlæð en sólin.

Yfirleitt líður mér vel eftir að hafa tekið ákvörðun um uppgjöf. Það er alltaf ákveðin lokun á einhverjum kafla og upphaf á nýjum. Svona eftir á að hyggja þá er líf mitt ofboðslega kaflaskipt, jafnvel meira eins og margar litlar smásögur... en kannski erum við öll þannig...? Ég er alltaf að gefast upp á veseninu og vitleysunni í sjálfri mér. Loka köflum opna nýja. Ljúka sögu, hefja nýja. Þetta kannski lagast með aldrinum, kannski að líf mitt verði einhverntíma samfelld saga...Smile

 


Dansað eins og vindurinn

Í gær byrjaði ég að æfa dans eftir nánast samfellt 10 ára hreyfingarleysi.... í lok tímans vildi kennarinn að við leituðum að vöðvum og spenntum þá, innri stoðvöðvum eða eitthvað slíkt. Eitthvað gekk mér illa í þessari leit og ég virtist ekki alveg vera að fylgja þarna á tímabili... Ég get þó sagt ykkur það að ég er klárlega búin að finna þá núna! Það er vont! Ég er klárlega orðin vel meðvituð um alla þá minnstu og innstu vöðva sem til eru í líkamanum. Þeir eru alveg að gera grein fyrir tilvist sinni í augnablikinu og munu örugglega minna á sig við hvern einasta andardrátt næstu daga...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband