Sviti, hiti og meiri sviti

Jæja þá erum við búnar að fara til Shanghai ooog koma aftur til baka. Við vorum hálfgerðir bjöllusauðir þegar við komum til borgarinnar. Settumst niður á fyrsta veitingastaðinn sem við sáum og spurðum hver aðra.. hvað ætlum við eiginlega að gera í Shanghai? Við gleymdum alveg að gera plan. Þannig við keyptum okkur bara kort og spottuðum út það sem virtist vera áhugavert! 

 

Að sjálfsögðu fórum við upp í Oriental pearl tower, upp á 263 hæð. Sem er nú kannski ekki mikið nema fyrir svona smástelpu eins og mig sem fannst hún snerta skýin á 11 hæð á Benidorm í fyrra. Turninn er nú samt þriðji hæsti í heimi.. eða var það fimmti hæsti... ó meen ég man það ekki og nenni ómögulega að gúggla. Þið bara gjörið svo ef þið eruð spennt. Og svo fórum við á The Science and technology museum sem var nú eitt mesta prump sem ég hef séð! Já... fyrir utan The Bund sightseeing tunnel, sem voru fáránleg blikkandi ljósagöng með hljóðum sem lágu út í Oriental turninn! Shanghai búar eru klárlega meistarar í að klúðra hlutum sem virkilega gætu verið áhugaverðir og aðlaðandi og gera þá eins óspennandi og kjánalega og mögulegt er. En það er bara Kína. Kína, Kína, Kína...

IMG_1695

Þarna er ég við The oriental pearl tower. Jiii sjáið hvað ég er mikið módel í mér!? Ég er mikið að spá í að skrá mig bara í eskimó þegar ég kem heim... 

IMG_1696

Og hérna er svo turninn aðeins nær. Við fórum upp í efri kúluna. Og takið líka eftir því hvað tunglið er skemmtilega fullt þarna við hliðina á.  

Við þrömmuðum ansi mikið í Shanghai, í 44 stiga hitanum með brennandi eldhöttinn beint ofan í hársvörðinn. Ég tel að nýjum hæðum hafi verið náð í svita. Við erum að tala um að þegar ég beygði mig fram til að troða mér í slim fit gallabuxur í mátunarklefanum í loftkældri H&M um kvöld, þá var ég svo sveitt að svitinn lak af enninu á mér, niður í augabrúnirnar þar sem hann dropaði í poll á gólfinu. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig svitastatusinn var um miðjan dag úti í sólinni! Buxurnar voru svo gegnblautar af svita eftir mátunina að ég missti alla lyst á að kaupa þær en það verður ekki sagt um allt...Grin Ég kom út svo hlaðin fötum að ég er ennþá að fá krampa í handlegginn eftir að hafa borið alla þessa poka fram og aftur um Shanghai... Ég birgði mig líka upp af Gucci og Coach og Calvin klein og Luis vuitton og Omega og, og, og... me like Shanghai! Þá prúttuðum við líka frá okkur allt vit, það bókstaflega slettist af okkur svitinn í æsingunum og þegar við náðum að pústa þá fundum við hversu aðframkomnar af ofþornun og þreytu við vorum... Við létum líka svindla feitt á okkur sumstaðar, létum feita, sveitta, kínverjakarlpunga taka okkur í þxxxx rxxxxxxxx í viðskiptum! En gerðum hinvegar fáránlega góð kaup við litlar krúttlegar kínverskar stelpur svo þetta jafnaðist út.. eða segjum það! 

Kort

Við vitum ekki alltaf hvar við erum...

IMG_1722

Þarna erum við td að villast í Shanghai.. 

 

 

Hér má sjá mig og Freyju fáránlega kátar á leið niður í the sightseeing tunnel, við vissum ekki hvað beið okkar...

 DSC02531

Þetta var það sem vakti mesta athygli mín og Eyrúnar á The science and technology museum, KÓK LIGHT! mjög tæknólógíst og sæentískt.

Þessa 3 daga sem við vorum í Shanghai þá vorum við alltaf að leita að garði einum, Yuyan garden(man ekki alveg hvernig þetta er skrifað) en fyrstu tvo dagana stöldruðum við alltaf aðeins of mikið við á öðrum stöðuum og komumst aldrei á áfangastað. Fyrr en svo síðasta daginn, þá ætluðum við bara að fara í garðinn. Lögðum af stað í leiðangurinn með kortið góða og skilningarvitin í lagi. Og þrömmuðum og prúttuðum og prúttuðum og þrömmuðum, hring eftir hring... og annan hring og inn einhver fátækrahverfi og inn í hverfi þar sem verið var að rífa allt en aldrei fundum við garðinn. Gáfumst við því upp og settumst upp  leigubíl og bentum honum á kortið. Bílstjórinn hló eins og rostungur og keyrði okkur á nákvæmlega sama stað og við höfðum verið að væflast í prúttinu 3 klukkutímum áður... Yuyan garden var þá enginn garður eftir allt saman heldur bara samsafn af litlum prúttbúðum með kínverskt "handverk" þar sem við vorum orðnar öllum, hnútum kunnugar.

Að sjálfsögðu fórum við líka í Sony gallerí í Shanghai, þar skoðuðum við aðeins tölvur og fórum á eitt tæknilegasta salerni veraldar.

 IMG_1714

Hér má sjá eitt tæknilegasta salerni verladar. Á því er allt rafstýrt, opnun og lokun og sturtun. Þá er hægt að fá á því rassaskolun og rassaþurrkun en þar var hinsvegar hvorki klósettpappír né sápa. 

 

Ég datt svo rosalega í lukkupottinn um daginn þegar ég fann marga, marga bása af útsaumsmyndum(krosssaumsmyndum) og keypti mér nokkrar. Ég reyni því að nota hvert tækifæri (þegar ég er ekki að læra kínversku) til að taka upp krosssauminn minn. Spurning hvort ég hafi ekki hámarkað lúðann í mér í lestinni á leið til Shanghai þar sem ég sat og saumaði með Ragga Bjarna í eyrunum.....

að mála

Ég á enga mynd af mér að sauma svo  ég skelli inn einni af mér við aðra handverksiðju í staðinn. Þarna er ég að mála, eða réttara sagt að reyna að skrautskrifa kínversk tákn með bleki og pensli. Takið sérstaklega eftir vandvirknissvipnum...

Hér er annars alltaf jafnheitt og maganum í mér finnst það ekki gott, hann fer líka í mega uppreisnarástand þegar ég misþyrmi honum með því að innbyrða ískalt vatn inn í sjóðandi heitan líkamann. Meira að kínverjarnir eru hálf emjandi yfir hitanum hérna núna, enda telst vera væn hitabylgja á svæðinu. Ooog nú er ég að borða sykurpúða fyllta með súkkulaði.. hversu hollt getur það verið? Örugglega ekki gott í magann heldur... Flest allt sem við kaupum hérna í súpermarkaðnum er útrunnið, hvort sem það er nammi eða matur. Maður er löngu hættur að kippa sér upp við þó að best fyrir hafi verið á síðasta ári. Veit ekki hvort það sé eitthvað að spila inn í hjá maganum. 

 DSC03309

Og fyrst ég er að tala um maga þá er hér ein mynd af mér og Freyju á Smell, einum veitingastaðnum í hverfinu okkar. Þar borðum við alltaf hádegismat og þar má krota á veggina eins og sést ef vel er að gáð. Við erum ennþá að spá í hvað við eigum að krota, en stelpurnar sem voru hérna í fyrra skrifuðu ræðu á íslensku á hálfan vegg svo megum eiginlega ekki vera minni menn.

 

Við erum orðnar það sleipar í kínverskunni að við reynum að nota hana þegar við erum að versla eða panta mat og taka leigubíl og svoleiðis stöff. Og þegar kínverjarnir svara okkur á móti þá skiljum við svona fimmtugasta hvert orð. Freyja stundaði það oft þegar hún kurteisilega keypti sér vatn af götusölunum fyrri hluta mánaðarins að segjast vinsamlegast vilja fá eina flösku af köldu vatni. Hún skildi ekki afhverju kínverjarnur flissuðu oft... Fyrir helgina lærðum við að Qing wen(sem er vinsamlegast að biðja um eitthvað) þýðir líka kysstu mig ef það er ekki sagt rétt... Tónarnir hér eða áherslukommurnar yfir orðunum skipta öllu máli! Þessir tónar vefjast einmitt mikið fyrir nýnemum í kínversku. Sofa og detta er líka eins, bara einn lítill tónn sem breytir merkingunni algjörlega.

En jæja nú ætla ég að halda áfram að klóra mér í hausnum yfir því hvernig í ósköpunum ég á að koma öllu þessu drasli sem flæðir um herbergið mitt frá Ningbo til Shanghai, til Parísar og London og svo alla leið heim. 

 

Ps: Nokkrar myndir í þessari færslu eru birtar með góðfúslegu leyfi (sem ég á eftir að fá) eigenda og höfunda myndanna, Eyrúnar og Freyju. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

SJEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEETT hvað næsta verslunarferð verður klárlega til Kína!

Doris (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 09:32

2 identicon

nú langar mig til kína að verslaaaa!

Dagný (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband