Helgarferð til Zhoushan, Putuo fjall og strandferð

jæja ég fékk loksins sólina og sólbaðið mitt... klukkutími á ströndinni og ég sit núna í herberginu mínu með þykkt lag af aloe vera geli og kalda bakstra á andliti og öxlum... konan í búðinni á horninu saup hveljur þegar hún sá mig og Eyrúnu núna áðan. Kínverjunum finnst svo rosalegt að við vesturlandabúarnir viljum verða brúnir og þeir fara næstum að gráta þegar þeir sjá að maður hefur verið of mikið í sólinni.

Við eyddum helginni á eyjunni Zhoushan. Einn kennarinn, hún Hoe Feng, er einmitt þaðan og hún bauðst til að fara með okkur og vera hálfgerður gæd fyrir okkur. Þá reddaði hún líka frábæru hóteli á fáránlega góðum díl og við fórum út að borða með fjölskyldunni hennar og nágrönnum á föstudagskvöldið. Pabbi hennar var mjög hress og fínn náungi og hann heimtaði að fá að borga fyrir okkur matinn. Ég gat því ekki annað en borðað krabba og kuðunga til að móðga hann ekki! Að borða heilt stykki krabba krefst ákveðinna hæfileika og kunnáttu og Hoe Feng kenndi okkur réttu handtökin og þær aðfarir vöktu að sjálfsögðu almenna kátínu við borðhaldið. Krabbarnir voru bara furðu ljúffengir og stúlkan ég sem hef staðfastlega neitað að innbyrða sjávarfang síðustu 5 árin eða svo er verulega að hugsa um að endurskoða þessa staðfestu... Ég get hinsvegar ekki sagt að mér hafi þótt kuðungarnir neitt lostæti en þeir voru fínir ef maður dýfði þeim í edik.

Á laugardaginn tókum við daginn snemma, eins og alla daga hér í Kína reyndar, og fórum út í Putuo eyju þar sem Putuo fjall er. Putuo fjall er einmitt á heimsminjaskrá UNESCO. Þar er fullt af fornum Búddahofum og munkum og við skoðuðum tvö stærstu þeirra. Við hefðum líklega skoðað meira ef hitinn hefði ekki verið nánast drepandi og við ekki þráð það mest af öllu að leggjast niður og deyja um hádegisbil eða svo. Upp á fjallið eru 1060 tröppur og við tókum kláf uppeftir. Okkur fannst það hinsvegar frábær hugmynd þegar upp var komið að labba bara niður. Það var eitthvað svo meira alvöru. Labba sömu leið og munkarnir... Þeir labba einmitt þarna upp reglulega og leggjast niður og biðja í þriðja hverju skrefi. Okkur skildist að það tæki daginn eða svo. Sáttar og sveittar vorum við eftir gönguna með skjálfta í kálfunum og erum að uppskera ágætis harðsperrur núna. Við Eyrún keyptum okkur munkatöskur og fengum á þær stimpla í báðum hofunum. Svona til að sanna hvaða hof við höfum farið í. Spurning hvort maður spígspori um á Laugaveginum með stimlaða munkatösku þegar heim er komið.

IMG_1618

Hoe Feng og Eyrún í kláfinum á leið upp á fjallið. 

IMG_1625

Hérna erum við Freyja að hefja gönguna niður fjallið. Hressar og kátar með góða ákvörðun í tröppu nr. 1036 eða svo. 

Ég verð líka að koma því að, að á laugardagskvöldið þá borðaði ég humar. Skellti mér bara í hanska og greip humar með hala og öllu og braut hann og bretti til að komast að kjötinu. Sem væri ekki svo merkilegt nema fyrir þær sakir að einmitt tveimur dögum áður þá borðaði ég ekki undir neinum kringustæðum fiskafurðir af neinu tagi. Já svona fer Kína með mann!

Að borða krabba
Ég að borða fiskmeti í fyrsta skipti í 5 ár. Þetta er krabbi í allri sinni dýrð og þarna er ég að byrja að sjúga kjötið úr skelinni. Já já þetta er ég hvort sem þið trúið því eða ekki. 

IMG_1643

Og þarna er ég svo komin í humarinn, sko mína! Stelpurnar sæmdu mig hetjuverðlaunum fyrir að hrista af mér gikkelsið og smakka sjávarfangið. 

Í dag fórum við svo á ströndina. Keyrðum út í eina eyjuna í sama eyjaklasa, hann inniheldur einmitt 1390 eyjur. Það strípalinguðumst við aðeins í rúmlega klukkutíma, busluðum í Kyrrahafinu og það var æðislegt! ÆÐISLEGT! Sjórinn alveg passlega heitur og vindur á ströndinni. Við vildum helst fá að vera þarna miklu lengur en pabbi hennar Hoe Feng var svo elskulegur að skutla okkur út í eyjuna og beið þar eftir okkur. Svo við gátum ekkert tjillað allan daginn. Sem var líka eins gott því við erum allar brunarústir einar. Merkilegt hvað sólin leynir á sér þó manni sé ekkert svo heitt... Korter lengur og við hefðum örugglega verið að tala um jógúrtbakstra.

Sólrún og Eyrún í kyrrahafinu

Ég og Eyrún að busla í kyrrahafinu. Fáránlega hressar og sprækar.

Við ströndina

Og þarna erum við stúlkurnar við ströndina góðu. Endurnærður eftir sólbaðið.

Annars þá erum við vesturlandabúarnir alltaf jafn spennandi. Allir vilja fá að pota í okkur, fá að taka myndir af sér með okkur, fá að segja hallo við okkur og jafnvel fleiri orð. En svo fórum við á Mc Donalds á Zhoushan áðan og þar var bara allt morandi í Skandinövum. Okkur fannst eiginilega bara hálf leiðinlegt að vera ekki einu hvítingjarnir á svæðinu... það var búið að ræna okkur sérkenninu.

Einhverntíma heyrði ég að ef að allir Kínverjar notuðu klósettpappír þá myndu regnskógarnir eyðast upp á einu ári eða svo. Þetta á líklega líka við um bleyjur, því börnin hér nota ekki bleyjur. Ekki einu sinni minnstu kornabörn. Hvorki bréfbleyjur né taubleyjur. Þau eru bara í göllum eða buxum með gati. Nú eða bara ekki í neinum fötum. Kannski bara með smekk. Og svo ganga foreldrarnir bara um með þau á handleggnum, með rassinn úti og hlutirnir gerast bara þegar þeir gerast og enginn kippir sér upp við neitt... Barnavagnar eða kerrur eru líka eitthvað sem sést mjög lítið af. Það er bara mömmuhandleggur eða þá að börnin eru sett fyrir framan á vespunum. Og það er alveg hrikalegt að sjá foreldra þeysast um á vespunum með börnin, sem varla standa sjálf, fyrir framan sig.

Alltaf er maður svo að sjá ný og áhugaverð klósett hérna í Kínalandi. Ég smellti mér á kamarinn í skipinu á leið til Ningbo áðan og ég held að sá kamar hafi bara toppað allt sem hægt er að toppa! Þetta voru ss 3 kamrar í röð með skilrúmi sem náði manni upp að mitti. "Pissukálinn" var bara renna, svona eins og flór, og kamarinn var það grunnur að þegar maður beygði sig niður til að athafna sig þá stóðu hnén út úr skilrúminu. Og já á þessum kömrum voru ekki hurðar.. enda hefði maður þá ekki getað beygt sig niður. Að ógleymdri slíkri ammoníakhlandstækjunni að maður þurfti að halda niðri í sér andanum meðan á aðgerð stóð til að það liði ekki yfir mann og maður steinlægi í flórnum. Og þarna létti ég hetjulega af mér fyrir opnum dyrum.. Já Kína...

En jæja ég ætla að fara að bera á mig aðra umferð af aloe og eina umferð af moskító og svo tígrisolíu á bitin mín.. það er alveg fullt starf að smyrja sig hérna sko. Er einmitt núna með fjögur hlussubit á annarri rasskinninni og það er alveg yfirþyrmandi óþægilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Jahso, bara farin að borða sjávarfang! Annars er myndin af þér í plasthönskunum með humarinn alveg golden :)

Agnar Freyr Helgason, 22.7.2007 kl. 21:12

2 identicon

Hæ hæ Sólrún! Rakst á bloggið þitt og sé að þú ert komin til Kína! Frábært hjá þér að drífa þig svona út. Já og virkilega gaman að lesa sögurnar þínar um Kínaland, ég á pottþétt eftir að kíkja hérna oftar

Kv. Kristín Laufey

Kristín Laufey (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 11:03

3 Smámynd: Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Gaman að fá svona góða gesti inn á síðuna!

Og þið hin sem eruð ekki að kommenta en samt að kíkja, koma svo! Kommenta aðeins! Góð kveðja yljar mér svo um hjartarætur svona fjarri heimahögunum...

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, 25.7.2007 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband